31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (4526)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Ólafur Thors:

Herra forseti. Hv. þm. hafa séð, að annað hafði hv. 4. landsk. þm. við í sinni ræðu, en ég gaf tilefni til. Ég viðurkenndi, að ég hefði gefið merki. Ég benti á, að þarna hefði verið hálfvitlaus stúdent og hann hefði skammazt sín, þegar ég gaf honum merkið. Þetta var nú um kl. 1, en kl. 2 hófust ólætin. En hvaða tilefni gafst til þess að kalla saman fund kl. 1 annað, en að stofna til óspekta? Verkalýðsfélögin héldu fjölmennan fund, og þar fékk aldan útrás. Þetta mistókst þó allt. Ætlunin var að efna til vandræða vegna miða þess, sem stjórnarflokkarnir sendu út. En sú ætlun fór út um þúfur vegna hinna öflugu varna og öruggrar forustu lögreglunnar. — Ég segi hv. 4. þm Reykv. það, að fleiri eru til frásagnar um það, hverjir voru í skrílnum, en hann einn. Annars veit ég ekki, hvernig ég á að koma orðum að þessu. Hann kvaðst hafa viðurstyggð á atburðunum hér í gær. Ég efast ekkert um það. En nú vill hann bera af sér. Ég spyr, hvort hann sé ekki í ritnefnd Þjóðvarnar. Hann er a. m. k. einn af frumkvöðlum þjóðvarnarhreyfingarinnar. Hann er því meðábyrgur. Hv. 2. þm. Reykv. var að brýna mig á því, að ég hafi látið taka verkamannaforingjana með ofbeldi hér áður. Þetta er rangt, og það veit þessi hv. þm. vel, því að einu skipti mín af slíkum málum voru þau að krefjast, að þessi sami þm. og nánustu vinir hans væru látnir lausir, þegar þeir höfðu verið fangaðir hér og fluttir úr landi af erlendum aðilum. Það er nú komið fram, sem raunar er aðalatriðið, að kommúnistarnir eru leiðir yfir atburðunum í gær, af því að þeir mistókust. En þó að tilraunin mistækist, þá kom innræti þeirra í ljós, svo að ekki verður um villzt.