31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (4528)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Þm. N-Ísf. gleymdi að minnast á vopnun Heimdallar í sinni ræðu, og ef til vill hefur það verið með ráðnum hug. Hins vegar væri fróðlegt að heyra, hvort það hafi verið með samþykki Alþfl. og Framsfl., að stjórnmálafélagið Heimdallur var vopnað, og sömuleiðis væri æskilegt að vita, hvort meiningin sé, að þetta lið verði varalið lögreglunnar í framtíðinni. Það er að vísu auðvelt að skilja, að Framsfl. hefur átt erfitt með að leggja til unga menn í varalið lögreglunnar í gær, því að ungir framsóknarmenn voru nefnilega á annarri línu, og þess vegna hefur þótt tryggara að vopna Heimdall. Ef til vill á þessi hópur að bera vopn áfram og framfylgja boði dagblaðsins Vísis, en þar segir í dag — með leyfi forseta: „Ríkisvaldið og borgarar verða að láta starfsemi kommúnista skipta sig meira máli hér eftir, en hingað til. Nær það ekki einvörðungu til flokksstarfseminnar, heldur og til hvers einstaklings, sem ánetjazt hefur flokknum. Borgararnir verða jafnframt að koma upp sterku varaliði til aðstoðar lögreglunni, þegar á þarf að halda.“ Þetta var boðskapurinn í Vísi, þar er ekki verið að fara í felur með stefnuna. Það eru einkum þrjú atriði í þessum boðskap, sem ég vil sérstaklega vekja athygli á. Það er í fyrsta lagi, að ef til ágreinings kemur um einhver málefni, þá eigi ríkisvaldið alltaf að beita ofbeldi. Í öðru lagi það á ekki eingöngu að hefja ofsóknir gegn Sósfl. í heild, heldur líka sérhverjum einstaklingi, sem aðhyllist sósíalisma. Og í þriðja lagi vil ég benda á, hversu þessi boðskapur líkist bæði beint og óbeint nazistahreyfingunni í Þýzkalandi, og vil í því sambandi minna sérstaklega á heimavarnarliðið þýzka, því að það var einmitt upphaflega fast styrktarlið eins og Vísir vill nú stofna. Ég vil beina því til form. Alþfl. og Framsfl., hvort þeir ætli að styðja þessa stefnu Vísis og hvort þeir ætli ef til vill að gera Heimdall að heimavarnarliði. Menntmrh. hefur haldið hér margar ræður og reynt að verja aðgerðir ríkisstj. og lögreglunnar í sambandi við atburðina í gær. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að spyrja hann um eftirfarandi: Hvers vegna var ekki kallað til friðsömu borgaranna og þeir beðnir um að fara af Austurvelli, áður en skotið var gasbombum á mannfjöldann? Og í hvaða tilgangi var eiginlega kallað á fólkið niður að alþingishúsi? Hvers vegna var lögreglan látin berja á mannfjöldanum með kylfum að tilefnislausu og án nokkurra aðvarana? Og hver var tilgangurinn með því að stilla einu stjórnmálafélagi upp fyrir utan alþingishúsið og vopna síðan nokkurn hluta þess sama félags og láta berja á friðsömu borgurunum? Ég get ekki séð betur, en þetta hafi allt saman verið mistök, bæði hjá ríkisstj. og lögreglustjóranum, og það voru einmitt þessi mistök, sem ollu þeim óspektum, sem urðu.