31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (4529)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla aðallega að svara hæstv. menntmrh. Mér finnst það einkennilegt af manni eins og honum að leyfa sér að kalla alla þá, sem komu saman á fundinum í Lækjargötunni í gær, skríl, og það án nokkurra undantekninga, þó að það sé hins vegar ekki alveg nýtt, að verkamenn og launþegar séu kallaðir skríll af þessum mönnum. En það er staðreynd, að það var fulltrúaráð verkalýðsfélaganna, sem boðaði til þessa fundar, og það voru eins og venjulega Dagsbrúnarmenn, sem mættu á þessum fundi sem öðrum, er fulltrúaráðið boðar til. Og forsendan til þessa fundar var það, að við vildum fá þjóðaratkvæði um það stórmál, sem fyrir Alþingi lá. En hvaða svar fá svo verkamenn við þessu? Jú, þeir eru stimplaðir sem skríll af ráðherrum landsins. Það eru þakkirnar, sem hinir vinnandi menn fá frá valdhöfunum. En auðvitað reynir ráðh. að hörfa í land, þegar hann er búinn að tala af sér, en þetta voru hans orð, að fólkið, sem fulltrúaráð verkalýðsfélaganna stefndi til fundar á Lækjargötu í gær, væri undantekningarlaust skríll. Verkamenn hafa fyrr fengið kaldar kveðjur frá þessum ráðh., en þó fáar jafnsvívirðilegar, enda verður eftir þeim munað.