31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (4531)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af orðum 8. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að ég hef aldrei kallað þá, sem komu saman til fundar á Lækjargötunni, skríl, og því síður að ég velji verkamönnum slíkt heiti, enda stóðu verkamenn ekki fyrir grjótkasti að alþingishúsinu í gær. Hitt sagði ég, að kommúnistar hefðu boðað til fundar til að ná saman sínum skríl til að láta hann standa fyrir rúðubrotum og óspektum.

3. landsk. vil ég segja það, að það var gefin aðvörun áður en gasinu var varpað. Hitt er rétt, að það höfðu ekki allir komið sér undan, þegar gasinu var varpað, og þar af leiðandi lenti það í kringum fleiri, en æskilegt hefði verið. Annars er ég undrandi yfir, að 3. landsk. skuli hér vera að draga fram aukaatriði til að breiða yfir aðalatriði og gera með því tilraun til að draga úr þeirri svívirðingu, sem kommúnistar hafa sýnt Alþingi. Það er hlutskipti, sem ég hef ekki ætlað honum eða óskað.