09.02.1949
Efri deild: 56. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

17. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég hef nú heldur lítið að segja um þetta mál. Þegar það var hér til umr. í fyrradag, hafði n. ekki haldið fund um það, og afleiðingin var svo, að umr. var frestað. Nú hefur n. haldið fund, en einn nefndarmanna (EE) var að vísu ekki viðstaddur. Ég og hv. 8. landsk. (ÁS) teljum bráðabirgðaákvæðið verra og miklu verra en frv. eins og það var áður, en viljum þó ekki fella það af þeirri ástæðu og leggjum til, að það verði samþ., en ekki sent á milli deilda.

Þm. Dal. og 7. landsk. þm. (GÍG), sem einnig eru í n., sáu heldur ekki ástæðu til að senda það milli deilda og töldu, að bráðabirgðaákvæðið gæti stundum orðið til þæginda.

Varðandi ummæli hjá hv. þm. N-Þ. um þetta ákvæði, að leyfa mönnum að slátra heima öðrum fénaði en sauðfé, þá tel ég þetta miklu verra, þess eru mörg dæmi og skal ég rétt nefna eitt það síðasta. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan ég var kallaður niður í Brunabótafélag. Það hafði drepizt kýr hjá manni einum austur í sveitum og hann vildi fá hana bætta af tryggingunum. Kjötið hafði hann sent til Reykjavíkur, og það hafði verið reynt að selja það í 5 búðum, en ekki tekizt, og hann síðan hent því. Dýralæknir hafði vitanlega aldrei séð það, enda mundi hann hafa bannað sölu á því, þar sem hvort tveggja var, kýrin sjálfdauð og kjötið horkjöt. Þetta er svo sem ekkert nýtt fyrirbrigði. Það er ómögulegt að sjá það á skrokknum, hvort kýr hefur drepizt eða verið drepin, fyrir venjulegt fólk, nema þar sem skoðun er til staðar þar sem slátrað er, þá fyrst er hægt að skera úr því, hvort kjötið er ætt eða ekki, enda innyfli þá líka skoðuð. Þetta hefur að vísu verið venja, en þetta er alrangt og þarf að breytast. Ég sem sagt get fallizt á að láta þetta standa til bráðabirgða, en það verður að gera þær kröfur til þeirra manna, sem selja vöruna, að kaupendur fái tryggingu fyrir góðri vörn, en það er ekki hægt meðan kjötskoðunin er eins og hún er nú og verður ekki hægt, þar sem bráðabirgðaákvæði laganna er látið koma til framkvæmda.