18.05.1949
Sameinað þing: 76. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (4546)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég get sjálfsagt orðið við þeirri ósk að verða ekki langorður um þetta mál, en tilefnið til þess, að ég tek til máls, er það, að ég er einn af flm. brtt. við þá till., sem hér liggur fyrir og rædd hefur verið, og er brtt. á þskj. 807.

Ég leiði alveg hjá mér að rökræða hér um það, hvernig kjör starfsmanna ríkis og bæja eru, samanborið við aðrar stéttir. Það liggur að vísu fyrir nokkur athugun frá félagsskap starfsmanna ríkis og bæja. En eins og ljóst er af þeirri megintill., sem hér er flutt, og þeirri brtt., sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) og hv. 1. þm. Árn. (JörB), er meginefni þessara till. rannsókn á þessu atriði, og þegar af þeirri ástæðu er óþarfi að ræða um það mál út af fyrir sig. Þetta er sameiginlegt bæði með aðaltill. og þeirri brtt., sem við flytjum hér, að rannsaka þetta mál. En þáltill. og brtt. okkar eiga ekki alls kostar samleið lengra, en um þetta atriði. Í aðaltill. er, eins og hún ber með sér, ákveðið að inna greiðslur af hendi, svo sem þar er tiltekið og lýst hefur verið af 1. flm. till., og á ríkisstj. að ákveða þær greiðslur. Í brtt. er hins vegar svo fyrir mælt, að þegar rannsókn er lokið á högum þessara stétta, skal sú rannsókn lögð fyrir Alþ. eins fljótt og auðið er, sem síðan á að taka málið til athugunar og ráða því til lykta. Þetta er meginmunurinn á þessum tveimur till. Ég get skotið því hér inn í, að viðkomandi brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 815, frá hv. 2. þm. Rang. (IngJ), þá sé ég raunverulega ekki mikinn efnismun á henni, svo langt sem hún nær, og þeirri brtt., sem ég flyt ásamt þeim tveimur hv. þm., sem ég áður nefndi. Það er sem sé tekið fram í brtt. okkar, að rannsaka eigi laun og aðstöðu starfsmanna ríkisins og rannsaka tekjur og aðstöðu annarra stétta, en í þessum orðum felst að sjálfsögðu það, sem sérstaklega er tekið fram í brtt. hv. 2. þm. Rang. um vinnutíma, og læt ég svo útrætt um það. — En það, sem ég vil sérstaklega vekja athygli á, án þess þó að ræða málið svo gaumgæfilega sem það raunverulega ætti skilið og það mál, sem það sérstaklega snertir, dýrtíðina í landinu og fjármál þessa þjóðfélags, — án þess að gera það vil ég vekja athygli á því, að í brtt, okkar er þannig tekið til orða að yfirlögðu ráði, að leggja eigi niðurstöður rannsóknarinnar fyrir Alþingi „hið bráðasta“. Og ég vil jafnframt og ekki síður vekja athygli á því, að um leið og þessi rannsókn er tekin til athugunar af þinginu, eiga að liggja fyrir samhliða till. frá ríkisstj. til viðreisnar varðandi dýrtíðarmál þjóðarinnar. Hér er í raun og veru meginfrávík till. okkar frá þeirri till., sem hér liggur fyrir. Ég er ekki í neinum vafa um, að í raun og veru er fjárhag ríkisins þannig komið, að till. þessar, sem hér er talað um, að leggja eigi fyrir Alþ. hið bráðasta samhliða niðurstöðum rannsóknar á launum og aðstöðu starfsmanna ríkis og bæja og annarra stétta og samhliða því, að fyrir liggi till. frá ríkisstj. um fjárhagslega viðreisn þjóðarinnar, — þessar till. ætti raunverulega ekki að orða svo, að þær verði lagðar fyrir Alþ. hið bráðasta, heldur lagðar fyrir Alþ. þegar í stað. Og það er að mínu áliti ein sú mesta villa, að Alþ. skuli nú hætta störfum án þess að þessar till. séu lagðar fyrir það og teknar til úrlausnar. Það er að mínu áliti ábyrgðarleysi, sem áður en langt um líður sýnir sig, hvaða afleiðingar mun hafa. En það þýðir ekki að tala um það í þessari till. og þýðir ekki að ganga lengra en svo, að það verði gert hið bráðasta. Ég skal ekki fara um það fleiri orðum, því að það er sjálfsagt þýðingarlaust, en vil aðeins leyfa mér sérstaklega að undirstrika þetta atriði með þeim orðum, sem ég hef þegar gert. Það er skoðun mín og — ég hygg óhætt að segja meðfm. minna, að sú úrlausn á máli starfsmanna ríkis og bæja, sem gert er ráð fyrir í þeirri till., sem hér er flutt af hv. 1. landsk. og fleiri þm., sé raunverulega engin lausn á málefni starfsmanna ríkis og bæja. Það má vel svo fara, að sú úrlausn, sem nú er gert ráð fyrir í þessari till., verði orðin úrelt í haust, — ef þá ekki má taka svo til orða, að það sé vafasamt, að það takist að fullnægja þeim greiðslum, sem þannig er gert ráð fyrir. Svo hæpinn er nú fjárhagur ríkisins orðinn, þegar við nú í nótt eða á morgun slítum þinginu og hver fer heim til sín. Það er gert ráð fyrir því í þessari þáltill., sem við flytjum brtt. við, að haldið sé áfram hiklaust á þessari hættubraut. Það á að hækka við starfsmenn ríkis og bæja, þó að afleiðingarnar verði vitanlega þær, sem alltaf hafa orðið, þegar þessar hækkanir hafa verið gerðar, að ósamræmi hefur myndazt því meir, því lengur sem haldið hefur verið áfram á hættubrautinni. Og nú er svo komið í þessu þjóðfélagi, að aldrei eða sjaldan hefur verið meira ósamræmi milli launa og kjara þegna ríkisins, en einmitt nú. Áframhald, sem á að vera til samræmingar, leiðir til sömu niðurstöðu og það hefur alltaf leitt að halda lengur áfram á þessari braut. Við vitum það mjög vel, að fjárl., sem nú voru afgr., eru þau hæpnustu fjárl., sem afgr. hafa verið hér á Alþ. a. m. k. tvo síðustu áratugi. Og að bæta þessum greiðslum þar ofan á eða loforði um greiðslur úr ríkissjóði eða sama sem ríkissjóði, þar sem þannig er séð fyrir tekjum, það er ákaflega vafasamt loforð, eins og ég minntist á áðan. — Ég skal ekkert ræða um það, hvaða afleiðingar það hefur jafnframt, að Alþ. gengur nú þessa braut og lætur það verða sitt seinasta spor áður, en fundum þess er slitið og áður en yfir skellur sú verkfallsalda um landið allt, sem nú er fyrirsjáanleg. Ég álít því, að sá tími sé nú kominn, að öllum ætti að vera það augljóst, með þeim fjárl., sem við höfum nú afgr. á miðju því ári, sem þau eiga að gilda fyrir, og með þeirri verkfallsöldu, sem nú er fram undan, — ég álít, að það ætti að vera öllum ljóst, að það er ekkert happaspor fyrir starfsmenn ríkis og bæja og því síður happaspor fyrir þetta þjóðfélag að láta verða okkar síðasta verk seint á þessum næturfundi að ganga áfram þá braut, sem við höfum gengið nógu lengi. Ég held, að við ættum að snúa okkur að öðrum vinnubrögðum, og það er það, sem þessi brtt. okkar bendir á og miðar til.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr., en get látið máli mínu lokið, nema sérstakt tilefni gefist til.