18.05.1949
Sameinað þing: 76. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (4550)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Já, það er alveg rétt, ég bað um orðið til að ræða þingsköp. Við þm. höfum nú um hríð haft alllanga vinnudaga og þó sérstaklega nú að undanförnu. Ég sé því ekki, að á það sé bætandi að fara nú að vaka heila nótt yfir þessu máli, og vildi því fara fram á það við hæstv. forseta, að þessu máli yrði frestað og þm. fengju að sofa um stund. Hefði átt að slíta þingi í nótt, þá hefði ég ekki farið fram á þetta, en nú á að halda fund á morgun, og held ég, að réttara sé að ræða þetta mál, þegar þm. eru vakandi, en ekki sofandi.

Í öðru lagi vildi ég aðeins víkja að efni þess máls, sem á dagskrá er, því að ég sé ekki betur en þeir hv. þm., sem styðja hæstv. ríkisstj., séu að afturkalla stuðning sinn við hana með því að bera fram till. sem þessa. Eitt af stefnuskráratriðum hæstv. ríkisstj., þegar hún tók við völdum, var, að tilkostnaður ykist ekki. Ýmislegt því viðvíkjandi hefur verið ósjálfrátt, en þetta getur Alþingi ráðið við, og áreiðanlegt er, að af samþykkt þessarar till. hafa engir gagn, en allir skaða.