18.05.1949
Sameinað þing: 76. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (4555)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég skal nú vera stuttorður, því að ég býst við því, að till. fari til n., sem ég á sæti í, og ég geti því talað um hana þar. Þó vil ég segja hér örfá orð.

Ég verð að segja það, að ég varð alveg undrandi, þegar ég sá það í dag, að hálftíma eftir að fjárl. voru samþ. og ½ tíma eftir að hæstv. fjmrh. var að lýsa fjárl. ætti að taka þetta mál fyrir. Hæstv. fjmrh. lýsti því áðan, að þingið hefði verið í 7 mánuði að koma fjárl. saman og það hafi ekki tekizt að ná því marki, sem sett hafi verið, að afgreiða fjárlögin hallalaus. En þrátt fyrir það að þingið væri búið að vera í 7 mánuði og þrátt fyrir hækkanir tolla og skatta um tugi milljóna, þá eru fjárl. samt afgr. með greiðsluhalla. Á 22. gr. eru margir liðir til útgjalda, og taldi hann, að ekki mundi unnt að greiða það út nema að litlu leytl. Ég held, að þetta sé rétt. Ég held, að fjvn., sem hefur verið að basla með fjárl., taki þessi rök alveg gild. Þess vegna er það mjög einkennilegt, að menn úr flokki þessa hæstv. ráðh. og öðrum flokki stj., Alþfl., skuli koma með slíkar till., þar sem tveir menn af þeim, sem till. flytja, eru úr fjvn., og ég hélt nú sannast að segja, að þeir ættu að vita, hvernig gekk með afgreiðslu fjárl., og þessir menn voru einmitt á móti mörgum till. til verklegra framkvæmda, því að þeim fannst þau framlög of há, en svo koma þeir með þessa till., eftir að búið er að afgreiða fjárlögin.

Ég veit, að það á að samþ. þessa till. með aðstoð kommúnista, það á að nota þá núna með Alþfl. og nógu mörgum sjálfstæðismönnum, því að þeir eru nógu margir, sem leika lausum hala, til þess að tryggt sé, að málið nái fram að ganga. Þetta eru ekki ný vinnubrögð, því að svona hefur verið leikið áður, en þó eru þetta einhver þau allra verstu, sem höfð hafa veríð, síðan ég kom á þing. Ég skal ekki draga það í efa, að starfsmenn hins opinbera kunna að vera illa haldnir, en það verður líka að gera sér grein fyrir því, að það eru fleiri stéttir, sem eru illa haldnar. Og þó eru þeir ekki verr settir en svo, að ég býst við því, að aldrei hafi verið hörgull á mönnum til þessara starfa, heldur þvert á móti hafi leitin þangað í atvinnu verið mest, og það þykir betra að stunda þá atvinnu en aðra. Við vitum það vel, að atvinnuvegirnir eru að kikna undir fólksleysi, og ég býst við, að það sé vegna þess, að fólkið vill heldur stunda launuð störf hjá því opinbera, en vinna að framleiðslustörfum, og bendir þetta ekki til þess, að um verri kjör sé að ræða hjá því opinbera. Það gefur auga leið að athuga vel og gaumgæfilega, hvort afkoma þessara manna sé nokkuð verri, en annarra stétta. Ég held, að svo sé ekki, þó að ég viðurkenni, að það er erfitt fyrir ýmsa af þessum mönnum að standa undir ýmsum gjöldum, t. d. vegna dýrrar húsaleigu o. s. frv., en ef launakjörin væru miðuð við það eitt, þá er ég hræddur um, að 4 millj. hrykkju heldur skammt. Afgreiðsla þessa máls er að mínu viti algerlega ófær, og ætla ég ekki að lengja umr. frekar núna, því að ég vænti þess, að ég fái tækifæri til þess að athuga þetta nánar í fjvn.