18.05.1949
Sameinað þing: 76. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (4557)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég tel það nauðsynlegt að leiðrétta hérna ofur lítinn misskilning, sem átt hefur sér stað í sambandi við þessar umr., og taka af skarið. Það var í sambandi við fé það, sem vísað er til í grg., enda skiptir það verulegu máli. Hv. þm. Borgf. hélt því fram, að hér væri um að ræða eignaraukaskatt, en það eru aðrar tekjur, sem hér er um að ræða, eins og líka kom í ljós í ræðu hæstv. fjmrh., þ. e. a. s. tekjur, sem ríkissjóður á að fá af eignauppgjöri, en eins og öllum er kunnugt, þá fór hér fram um áramótin 1947–48 sérstakt eignaframtal, og þar, sem framtölin voru ekki í samræmi við fyrri framtöl, átti að leggja skatt á. Þó að ekki sé fengin ákveðin niðurstaða af þessu, þá hefur n., sem vinnur að þessu, lokið við það utan Reykjavíkur, og nemur sú upphæð um 4½ millj. kr., og er því ekki óeðlilegt að áætla, að það nemi alltaf 8 millj. kr., þegar allt er komið saman. Ætla ég, að þetta nægi til þess að leiðrétta þennan misskilning.

Um sjálfa till. er það að segja, að sumir hv. þm. hafa haldið því fram, að með þessari till. okkar séum við að afturkalla stuðning okkar við ríkisstj., því að hún stefni að því að halda verðlaginu niðri, en þessi tillaga stefni í öfuga átt. Nú má þetta að vísu til sanns vegar færa, svo langt sem það nær. En það þarf ekki að bera okkur flm. þessarar till. það á brýn, að við höfum með henni brotið um blað eða gert okkur seka um nokkurn sérstakan verknað, sem sé öðrum stuðningsmönnum stjórnarinnar óþekkt fyrirbrigði, því að okkur er öllum bezt að kannast við það, að því miður hefur brugðizt á svo mörgum sviðum að koma í framkvæmd hinni veigamiklu stefnu ríkisstj., sem við höfum viljað veita stuðning. Það hefur vissulega brugðizt í fleiri tilfellum en þessu. Við, sem styðjum ríkisstj., verðum að viðurkenna, að við höfum ekki náð því marki, sem til var ætlazt, okkur hefur ekki auðnazt að standa saman um nægilega raunhæfar ráðstafanir í dýrtíðarmálunum, og það er m. a. af þeim ástæðum, að svona till. eru fram bornar. Þegar við studdum ríkisstj. í því að lögleiða vísitölubindinguna, var það á sínum tíma, af andstæðingum stj., talin ráðstöfun til að skerða kjör almennings í landinu. Það er að vísu svo, að sú ráðstöfun varð til þess að draga úr krónutölu þeirri, er launþegarnir fá, en það réttlættist bæði af mér og öðrum stuðningsmönnum stj. með því, að ekki skipti öllu máli um krónutöluna, heldur kaupmátt krónunnar, og að það væri meira virði fyrir launþegana í landinu, að gerðar yrðu raunhæfar ráðstafanir til að halda niðri verðlaginu í landinu og aðrar svipaðar ráðstafanir, sem miðuðu að því að styrkja kaupmátt krónunnar. Á þeirri braut hefur stuðningsmönnum stj. svo hins vegar ekki lánazt að standa nægilega saman. Og í staðinn fyrir það að auka kaupmátt krónunnar, þá hefur hann lamazt á þeim tíma, sem ríkisstj. hefur setið að völdum. Ég segi ekki, að stj. hafi ekki í ýmsum atriðum náð verulegum árangri, þó að ekki hafi náðst sá árangur, sem maður hefði óskað. En þegar svo er komið, verða menn að horfast í augu við staðreyndirnar, og þess vegna er till. eins og þessi nauðsynleg til þess að leiðrétta misræmi, sem fram er komið, m. a. vegna þess, að okkur stuðningsmönnum stj. hefur ekki tekizt að standa nægilega saman um ráðstafanir þess eðlis, að þær hefðu komið í veg fyrir till. eins og hér er borin fram. Og þetta er ekkert einstakt. Sama máli skiptir með sjávarútveginn, bátaútgerðina. Þar hefur okkur ekki lánazt að tryggja afurðunum nauðsynlegt verðgildi miðað við krónuna, til þess að þessi undirstöðuatvinnuvegur gæti borið sig, ábyrgð er bætt á ábyrgð ofan og uppbætur greiddar úr ríkissjóði, sem við viðurkennum allir, að eru ekki nema bráðabirgðaráðstafanir til að draga á langinn þær nauðsynlegu ráðstafanir, sem fram undan eru og verða að koma, til þess að aðalatvinnuvegir landsmanna standi undir sjálfum sér. Ég vil þess vegna leggja áherzlu á það, að þetta er ekkert einstakt tilfelli. Eins og ég sagði, þá eru mér fullkomlega ljósir þeir vankantar, sem eru á því að gripa til slíkra ráðstafana sem þessara, sem verða að sjálfsögðu til að auka verðbólguna í landinu, eins og menn hafa réttilega margsinnis bent á.

Það er sagt, að samþykkt þessarar till. verði til að örva kaupkröfur annarra launþega. Ég efast um, að hún hafi nokkur áhrif í þá átt, því að mótstaðan gegn kauphækkunarkröfum er að lamast, vegna þess að menn sjá, að ríkisstj. hefur ekki getað leyst það verkefni að stöðva verðbólguna í landinu. 1947 fór Dagsbrún út í verkfall eftir tvíræða baráttu um það, hvort segja skyldi upp samningum. Það verkfall stóð langan tíma og bar lítinn árangur, en olli töluverðri óánægju, sem gróf um sig innan raða verkamanna fyrst og fremst, því að þeir voru margir, sem vildu taka þátt í því að vinna gegn verðbólgunni og styðja tilraunir stj. í því mikilvæga starfi.

Ýmsir hv. þm. hafa verið að vandlætast yfir þessari till., og þar á meðal þrír hv. fjvn-menn. Ég skil vel afstöðu þeirra. Þeir telja, að erfitt verði að mæta þessum útgjöldum. En það gæti kannske opnað augu þeirra betur, svo að þeir á öðrum sviðum stæðu betur saman að stefnu stj. við að reyna að leysa verðbólguvandamálið. Hv. þm. er það nú betur ljóst, að ekki er hægt að fljóta sofandi að feigðarósi. Þessi leiðrétting, sem hér er farið fram á, er nauðsynleg til að bæta úr misræmi, sem orðið hefur á síðustu árum, vegna þess að okkur hefur mistekizt sá ásetningur, sem við settum okkur þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum. Ef við gerum okkur þetta ljóst, þá verður okkur ljósari nauðsyn þess að standa betur saman hér eftir, en hingað til, við að vinna að aðalmarkmiðum ríkisstj.