18.05.1949
Sameinað þing: 77. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (4579)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér kom undarlega fyrir eyru ræða sessunauts míns, hv. 4. þm. Reykv. Ég get þó stytt mál mitt, því að hv. þm. Str. hefur að mestu tekið af mér ómakið með sinni ræðu.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um l. um verðlagningu landbúnaðarafurða og hafði þar rétt upp. Ef við framsóknarmenn værum á sömu breiddargráðu og hv. 4. þm. Reykv., og sennilega þá vinstrisinnaðir, mundum við fagna því, að ýtt væri undir kauphækkanir, því að þá mundi verð landbúnaðarafurða hækka. En við lítum ekki þannig á þessi mál og stefnum ekki að því að vinna að hækkunum á víxl.

Við höfum ekki lagt á móti því, að málið væri rannsakað. Við lögðum til í till. okkar, sem því verr var felld hér í nótt, m. a. af hv. 4. þm. Reykv., að þessi rannsókn yrði gerð. Við lögðum til, að ríkisstj. fengi ekki heimild til að ráðstafa fé í þessu skyni af handahófi, heldur yrði mál þetta rannsakað og niðurstöður rannsóknarinnar lagðar fyrir Alþ. Og við lögðum til, að jafnframt legði ríkisstj. fram till. um nauðsynlegar ráðstafanir í dýrtíðar-, fjárhags- og atvinnumálum fyrir Alþ.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði hér um hinar 4 millj., sem hvergi eru til. Þessi ráðstöfun mun ábyggilega ýta undir verkamenn að gera nýjar kaupkröfur. Samkvæmt lögum kemur þá afurðaverð til með að hækka að sama skapi til samræmingar. Hvernig mun þá verða ástatt í haust, er Alþ. kemur saman hinn 11. okt.? Hvernig skyldi þá ganga að afgreiða fjárlög með öllum þeim hækkunum, sem fyrirsjáanlegar eru? Og hvernig mundi fara með bátaflotann fyrir næstu vertíð? Ætli sjómennirnir yrðu ekki að fá kauphækkun? Er nú þetta vinstri stefna? Ég vil biðja hv. 4. þm. Reykv. að athuga það. Ég gat hér áðan um framkomu tveggja Alþfl. manna í Ed., hvernig þeir hafa algerlega hundsað kröfur Alþýðusambandsins og fellt fyrir okkur framsóknarmönnum till., sem miðaði til meira réttlætis í innflutningsmálunum og lækkunar á verðbólgunni. Þessir flokksbræður hv. 4. þm. Reykv., sem ganga á móti kröfum Alþýðusambandsins til þess að styggja ekki vini sína í Sjálfstfl. og vilja heldur fylgja þeim í því að koma góðu máli fyrir kattarnef og vísa á ríkissjóðinn galtóman, en að taka upp baráttu fyrir réttri lausn í verzlunarmálunum, — fylgja þeir vinstri stefnu? Nei. Það, sem nú ætti að gera, er að halda þinginu áfram, enda þótt það hafi dregizt allt of lengi, því að lausn dýrtíðarmálanna má ekki draga til haustsins. Það þarf að auka frelsi almennings í viðskiptamálunum, þrýsta niður húsaleigu og framkvæma rannsókn á launakjörum og aðstöðu hinna ýmsu stétta. Lögin um verðlagningu landbúnaðarafurða eru þar til fyrirmyndar, og slíku samræmi þyrfti að koma á síðar og eins hvað snertir launagreiðslur til opinberra starfsmanna. Það þyrfti að gera heildarsamninga við verkalýðinn til eins árs í senn, þar sem laun væru ákveðin hlutfallslega þannig, að þegar daglaunamenn hefðu þetta kaup, skyldu fagmenn hafa svo og svo miklu hærra, — alveg eins og verðlagning landbúnaðarafurða er miðuð við verðlag og kaupgjald og ákveðin fyrir eitt ár í senn. Síðan væri eðlilegt, að laun opinberra starfsmanna væru ákveðin með hliðsjón af launum verkamanna og annarra stétta. Þetta þyrfti að gera, og það væri í fullu samræmi við till. okkar. Og ég endurtek það, að ég tel alveg óverjandi að hlaupa frá þessu nú. — Skal ég svo ekki reyna meira á þolinmæði hæstv. forseta og láta máli mínu lokið.