28.03.1949
Sameinað þing: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (4598)

169. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 4. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, sem hóf þessar umr. hér í kvöld, byrjaði á því að snúa sér nokkuð að innlendum vandamálum, þó að höfuðinntakið í hans ræðu væri hins vegar að verja þann málstað, sem öllum sönnum Íslendingum finnst, að óverjandi sé. Ég veit, að þessi háttur þessa hv. þm., að snúa sér fyrst örlítið að innlendum vandamálum, hann er í samræmi við stefnu hans og hans flokks að öðru leyti, að hafa á sér — ef svo má segja — yfirskin guðhræðslunnar, en afneita hennar krafti, þ. e. að hafa innanlandsmálin á oddinum, en vinna fyrir útlendan málstað. Þessi hv. þm. sagði, að dýrtíðin í landinu færi vaxandi, vísitalan væri nú komin á fimmta hundrað stig, ,,ef rétt væri reiknað“, bætti hann svo við. Hver er sannleikurinn í þessu máli? Hann er sá, að þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, þá var vísitalan 316 stig. Þegar dýrtíðarlögin voru sett um áramótin 1947 og 1948, var hún 328 stig, og hún lækkaði fyrir aðgerðir ríkisstj. niður í 319 stig og hún er í dag 328. Það, sem hefur breytzt, er þá það, að vísitalan hefur hækkað úr 316 stigum upp í 328 stig í tíð núverandi ríkisstj. Ef vísitalan, rétt reiknuð, væri nú á fimmta hundrað stig, þá hefur hún vissulega í stjórnartíð þessa hv. þm. sjálfs verið svipuð, eða um 12 stigum lægri, því að sú breyt., sem hefur orðið síðan í þessu efni, er engin önnur en sú — með sama útreikningi —, að hækkunin hefur orðið 12 stig. Það má rétt vera, að vísitöluútreikningurinn, eins og hann sagði, eins og hann er framkvæmdur, gefi ekki fullkomlega nákvæma mynd af dýrtíðinni í landinu. En þessi útreikningur er, eins og ég sagði, alveg eins nú eins og hann var í tíð hans, þegar hann var í ríkisstj., og hefur ekki að neinu leyti breytzt. Sé þessi útreikningsaðferð röng nú, þá var hún einnig röng þá. Og ef á að gera samanburð tveggja tímabila í þessu efni, þá verður um bæði tilfellin að hafa sama útreikning. Þessi samanburður gefur þá 12 stiga hækkun sem útkomu á aukningu dýrtíðarinnar í landinu. En ég vil segja, að það er ekki eins mikil hækkun eins og ástæða hefði verið til að ætla, eftir erfiðleikum þeim, sem við höfum átt við að stríða.

„Ríkisstjórnin hefur skipulagt vöruskort“, sagði þessi sami hv. þm. Ég skal í þessu sambandi að vísu viðurkenna, að það hefur ekki verið á valdi núverandi ríkisstj. að flytja inn í landið nægilegt vörumagn til þess að mæta hinni gífurlegu eftirspurn, sem í landinu er vegna þeirrar kaupgetu, sem er fyrir hendi hjá mörgum. Það hefur orðið að grípa til skömmtunar, og það hefur orðið að grípa til gjaldeyristakmarkana og setja á gjaldeyrishömlur. En það hefur tekizt, eftir að öllum gjaldeyri, sem við áttum, hefur verið eytt, að ná viðskiptajöfnuði við útlönd, og það er þó venjulega fyrsta og æðsta markið, sem við setjum okkur í viðskiptunum út á við, að ná viðskiptajöfnuði út á við, svo að ekki verði flutt meira inn í landið heldur en út er flutt af innlendum framleiðsluvörum. Þessu takmarki hefur verið náð á síðasta ári í fyrsta skipti um langan tíma, fyrir aðgerðir ríkisstj., fyrir störf fjárhagsráðs og fyrir störf viðskiptanefndar. Að vísu hefur orðið að grípa til ráðstafana í þessu sambandi, sem æskilegra hefði verið að geta verið án, en ráðstafana, sem ómögulegt var þó að komast hjá til þess að ná þessum árangri, skömmtun, sem tekin hefur verið upp, sem er ekki strangari en svo, að ef það er hægt að flytja inn það vörumagn á réttum tíma, sem skömmtunin tiltekur, þá líður vissulega enginn skort í þessu landi. Og það er heldur ekki hægt að búast við því, að við getum flutt inn meira af vörum, en við höfum vörur til að selja á móti. „Nýsköpunin hefur verið stöðvuð“, sagði hv. 4. landsk. þm. Í því sambandi vil ég benda á, að af öllum innflutningi til landsins, bæði innflutningi s.l. ár og ráðgerðum innflutningi á þessu ári, er gert ráð fyrir, að 33% eða meira verði kapítalvörur, vörur, sem notaðar eru til fjárfestingar í einni eða annarri mynd, þ. e. atvinnutæki, vélar og efni til útvegsins. Í fjárhagsráðslögunum, sem sett voru á sínum tíma, þegar þessi núverandi stj. var mynduð, var ekki gert ráð fyrir, að þessar fjárfestingarvörur næmu meiru í innflutningnum heldur en 15%. En það hefur reynzt mögulegt þó að flytja inn þessar vörur, þannig að innflutningur þeirra nemur nú orðið 33% af öllum innflutningnum. Er nú hægt að segja, að öll nýsköpun í landinu sé stöðvuð, meðan þessi fjárfestingarinnflutningur er aukinn úr ráðgerðum 15% upp í 33% af heildarinnflutningnum? Ég held, að hv. 4. landsk. þm. muni ganga illa að telja alþýðunni í landinu trú um það.

„Atvinnuleysi hefur farið í vöxt“, sagði þessi hv. þm. enn fremur. Í fyrra var það sagt af honum og hans flokki, að ef Hvalfjarðarsíldin hefði ekki komið, hefðu Íslendingar gengið hundruðum saman atvinnulausir vegna fyrirhyggjuleysis ríkisstj. Þannig var þetta orðað þá. Hver hefur reynslan orðið nú í ár, eftir að Hvalfjarðarsíldin ekki kom? Hefur atvinnuleysi vaxið? Ég held, að þegar atvinnuleysisskráning fór fram hér síðast í vetur, hafi verið vonum færri atvinnulausir, eða um 100 manns, vonum færri, segi ég, þegar tillit er tekið til þess, hversu geysileg atvinna var hér í fyrra um þetta leyti einmitt af Hvalfjarðarsíldveiðinni. Sem sagt, óskadraumar kommúnista um atvinnuleysi í landinu hafa ekki rætzt. Og að svo hefur orðið, hefur verið m. a. fyrir ráðstafanir ríkisstj., ráðstafanir, sem fólgnar voru í því að sjá um, að fluttar væru inn vörur til ýmissa framkvæmda og atvinnutæki, sem hægt væri að koma mönnum í vinnu við, til að útiloka, að atvinnuleysi myndaðist. Og ég held, að kommúnistum takist ekki að telja þjóðinni trú um það í dag, að nú sé nokkurt sérstakt atvinnuleysi á Íslandi.

„Ríkisstjórnin stefnir til gengislækkunar“, sagði hv. 4. landsk. þm. — Ja, ég veit nú ekki, hver meiri öfugmæli hægt er að hafa yfir heldur en þetta í sambandi við stefnu ríkisstj. í dýrtíðarmálunum. Það eru til þrjár leiðir í dýrtíðarmálunum. Leið gengislækkunar, leið verðhjöðnunar, með því að skrifa niður vísitöluna á laun, og það er til þriðja leiðin, að veita verðuppbætur úr ríkissjóði og bæta útgerðarmönnum og öðrum, sem framleiðsluatvinnurekstur stunda, hallann með því að greiða úr ríkissjóði. Það er í raun og veru ekki hægt að benda á leiðir út úr dýrtíðarvandamálinu, nema einhverja af þessum þremur leiðum. Ríkisstj. hefur alveg komið sér hjá að fara gengislækkunarleiðina, en hún hefur farið að nokkru leyti báðar hinar leiðirnar. Og hún mun koma sér hjá því í lengstu lög að fara gengislækkunarleiðina, ef kommúnistum tekst ekki með sinni stefnu að þvinga í gegn gengislækkun. En það er það, sem fyrir þeim vakir með þeirra háttalagi. Um áramótin 1947 og 1948 gerði ríkisstj. tilraun til þess að stöðva dýrtíðina með því að binda kaupgjaldsvísitöluna í 300 vísitölustigum. Þetta var tilraun til þess að reyna á þennan hátt að hefta vöxt dýrtíðarinnar. Þetta tókst að nokkru leyti. Kommúnistar spáðu því þá í umr. hér á þingi, að vísitalan, sú raunverulega vísitala, mundi brátt fara í 350 stig. Hún hefur hæst komizt upp í 329 stig, eða um 330 stig. En í dag er hún 328 stig. Þetta hefur orðið úr spádómum þeirra kommúnistanna. En stefna kommúnistanna í þessu máli, hún kemur hvað greinilegast fram í öllum þeim yfirboðum við allar samningsgerðir, sem verkalýðsfélögin þurfa að gera við atvinnurekendur, og síðast nú í deilu þeirri, sem nú er nýleyst, milli togaraeigenda og sjómanna. Þar voru kröfur kommúnista þannig, að útilokað var, að hægt væri fyrir togaraeigendur að ganga að þeim. Og fram á síðustu stundu var haldið við þessar kröfur. Það er þetta, sem ég hef leyft mér að kalla af þeirra hálfu, kommúnistanna, ekki verkalýðsmálapólitík, heldur glæp, þegar menn vitandi vits berjast fyrir það miklum kauphækkunum, að þeir vita, að ekkert getur orðið afleiðing af því annað en gengislækkun og hrun, ef að slíkum kröfum væri gengið. En það er svo í kommúnistískum fræðum, að vissasti vegurinn til þess að draga hvert þjóðfélag inn undir stjórn kommúnista sé að koma á verðbólgu, hruni og dýrtíð. Og það, sem fyrir kommúnistum hér vakir greinilega í þessari kauphækkunarbaráttu, það eru ekki hagsmunir verkalýðsins, sem þeir þó þykjast berjast fyrir, heldur útlendir hagsmunir. Það er þess vegna hætta á gengislækkun, ekki frá núverandi ríkisstj., því að hún mun berjast á móti henni eins og mögulegt er, en hættan á gengislækkun stafar fyrst og fremst frá kommúnistaflokknum. Hann sá sér leik á borði og studdi það, þegar útgerðarmenn hér í vetur settu það fram sem eina af sinum kröfum, að gjaldeyrir, sem útgerðarmenn fengju fyrir afurðir sínar, yrði seldur með yfirverði og þeir fengju að leggja á hann allt að 100% álag, og vörur fyrir hann hefðu þá orðið þeim mun dýrari í landinu. Það eru þess vegna engir trúrri þeirri hugmynd, að gengislækkun komist á, heldur en kommúnistar, því að þessi hugmynd stefnir að gengislækkun og hruni, eins og þeir vilja koma á.

„Tollar hafa hækkað“, sagði hv. 4. landsk. þm. En til hvers hafa tollar og skattar verið hækkaðir? Það er rétt, þar hefur verið hækkað verulega, svo að fjárl. eru nú upp á 260 millj. kr., eins og hann sagði, eða allmiklu hærri heldur en þau hafa verið á undanförnum árum. En í hverju liggur þessi tollahækkun, og hvað hefur þjóðin fengið fyrir hana? Hún hefur fengið það fyrir hana, að hún hefur komizt hjá lækkun á gengi á íslenzkum peningum og hjá því, að lækkað væri kaup með hækkaðri framfærsluvísitölu. Það hefur af hálfu ríkisstj. verið farin sú leið að bæta mönnum upp halla, sem þeir hafa haft á sínum atvinnurekstri, og þetta hefur verið gert með styrk úr ríkissjóði, í staðinn fyrir að fara inn á hina leiðina. Kommúnistar þykjast vera á móti gengislækkun og þykjast líka vera á móti því að komast hjá hættu verðbólgunnar með niðurgreiðslum. En hver er þá þeirra stefna? Hún er engin. Því er fljótsvarað. Um þetta þyrfti ég að hafa miklu lengra mál, og ég vona, að mér og öðrum gefist síðar tækifæri til þess, bæði í útvarpi og annars staðar, að ræða betur við kommúnista um þessi innanlandsmál. En þar sem þeirra aðalmál í þessum umr. hefur verið Norður-Atlantshafsbandalagið, þá skorast ég ekki undan að ræða um það við þá, og mun taka þann tíma, sem ég á eftir, til þess að ræða það mál með nokkrum frekari orðum, en þeir hafa gert, sem á undan mér hafa talað af hálfu ríkisstj.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa farið fram hér á landi allharðar umræður um það, hvort og þá með hverjum hætti Ísland ætti að gerast aðill að bandalagi vestrænna þjóða, ef stofnað yrði til verndar friði og öryggi í heiminum. Hefur sitt sýnzt hverjum eins og gengur.

Þegar félagsskapur Sameinuðu þjóðanna var stofnaður fyrir 4 árum, ólu margir þá von í brjósti, að honum mundi takast að „bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, — að skapa skilyrði fyrir því, að hægt sé að halda uppi réttlæti og virðingu fyrir skyldum þeim, er af samningum leiðir, — og að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum án frelsisskerðingar“, eins og segir í upphafi sáttmála hinna Sameinuðu þjóða.

Þessar vonir hafa að verulegu leyti brugðizt, og hafa nú flestir þegar gert sér það ljóst. Ástæðurnar fyrir því ætla ég mér ekki að rekja hér, þær eru margar, en sú mun þó vera aðalástæðan, að stórþjóðirnar, eða stærstu þjóðirnar, sem að Sameinuðu þjóðunum standa, aðhyllast mjög mismunandi lífsskoðanir og hugsjónir og bera rótgróna tortryggni í brjósti hver til annarrar; en eitt fyrsta og nauðsynlegasta skilyrðið fyrir því, að samvinna sem þessi geti tekizt, er það, að tortryggnislaust og áreitnislaust hugarfar sé fyrir hendi hjá öllum, sem að samtökunum standa.

Þróun málanna hefur þess vegna orðið sú, eins og raunar allir vita, að heimurinn hefur skipzt í tvo andstæða hópa, sem á síðustu árum virðast fjarlægjast meir og meir og í daglegu tali eru kallaðir „vestrið“ og „austrið“, og vita þá allir, við hvað er átt. — Þó að þessir hópar séu innbyrðis ærið sundurleitir, er þó ýmislegt, sem tengir þá saman. Í hinum vestræna hópi eru t. d. þjóðir, sem að meiri hluta til aðhyllast kenningar jafnaðarstefnunnar, ekkert síður en hinar, sem að mestu leyti byggja lífsskoðun sína á kenningu kapítalismans. En það, sem hefur sameinað þær og um leið fjarlægt þær frá hinum austræna hópi, er afstaðan til hinna frumstæðustu og þýðingarmestu mannréttinda, sem þessar þjóðir byggja alla tilveru sína á, en það er frelsi, lýðræði og réttaröryggi. Þetta eru óhagganlegir hornsteinar í þjóðfélagsbyggingu allra vestrænna þjóða, hornsteinar, sem engin þeirra getur hugsað sér að vera án, hvernig svo sem þjóðfélagsbyggingin er gerð að öðru leyti. Það er því ekki óeðlilegt, þegar um þessi grundvallaratriði er að ræða og verndun þeirra, að þá sameinist þeir allir, sem sömu afstöðu hafa til þessara mikilvægu atriða. Og það er því fremur ástæða til, þar sem allar fréttir, sem berast frá hinum hópnum — þeim austræna — hníga í þá átt, að þar séu þessi mannréttindi í litlum hávegum höfð og fótum troðin, í hvert skipti sem það er þénanlegt fyrir valdhafana á staðnum. Þegar svo þar við bætist, að komið hefur í ljós mjög greinileg útþenslupólitík hjá þeim, sem mestu ráða í austurhlutanum, og hvert landið eftir annað er með góðu eða illu þvingað til samstarfs við þá, og 5. herdeildir kommúnista berjast hinni sömu baráttu heima fyrir í hverju landi, þá er ekki undarlegt, að menn taki að ugga um sinn hag og hugsa til gagnráðstafana.

Kommúnistaforingjar ýmissa landa, meðal annarra Thorez hinn franski og Togliatti hinn ítalski, hafa lýst yfir því, að ef rússneskir herir sæki lönd þeirra með vopnum, muni þeir ekki berjast til að verja land sitt, heldur þvert á móti gerast föðurlandssvikarar og ganga í lið með árásaraðilanum. Íslenzkir kommúnistar hafa verið spurðir, hvort þeir mundu taka sömu afstöðu hér, en þeir hafa enn sem komið er neitað að svara.

Hv. 4. landsk. þm. var að burðast við að gera það, en hann fór í kringum málið og kjarna þess eins og köttur í kringum heitan graut. Hann sagði „ef“ og „ef“ og „ef“ þetta og þetta, þá mundu þeir gera svona og svona. En það voru ótal fyrirvarar og ótal útgöngudyr. Raunar þurfa þeir ekki að svara, því að það er á allra vitorði, að hvaða svar sem þeir teldu hentugt að gefa, þá mundu þeir taka sömu afstöðu og flokksbræður þeirra erlendis. Þeir hafa sýnt það á undanförnum árum, að þeir taka í öllu, sem máli skiptir, gersamlega sömu afstöðu til allra mála og erlendir flokksbræður þeirra, afstöðu, sem ekki er mótuð og tekin af þeim sjálfum, heldur af alþjóðastjórn samtaka þeirra.

Þetta er sá bakgrunnur, sem menn verða að hafa í huga, þegar rætt er um stofnun Atlantshafsbandalagsins. Það er nauðvörn þeirra þjóða, sem vilja verja sín helgustu mannréttindi og hindra að þau séu með ofbeldi frá þeim tekin. Þau hafa lært af reynslunni í viðskiptum við Nazi-Þýzkaland, hvernig smáþjóðunum var ógnað og þær teknar hver af annarri, þegar þær stóðu einar, og að eina leiðin til að verjast var sú, að þær nægilega margar byndust samtökum í eina órofa heild, þar sem árás á eina væri skoðuð sem árás á allar, líf einnar væri skoðað sem líf þeirra allra, og þær stæðu því og féllu saman.

Síðari hluta ársins sem leið var ljóst hvert stefndi, og var þá hafinn undirbúningur að stofnun Atlantshafssáttmálans. Unnu að þeim undirbúningi Beneluxlöndin þrjú, Frakkland, England, Kanada og Bandaríkin. Hygg ég, að ég megi fullyrða, að fáum, aðeins örfáum Íslendingum hafi þótt þessi bandalagsstofnun óeðlileg utan þrengsta hóps sanntrúaðra kommúnista. Hitt hefur svo verið nokkur ágreiningur um, hvort Ísland ætti að gerast aðili að samtökum þessum.

Því hefur verið haldið fram, að Ísland ætti ekki og gæti ekki vegna sérstöðu sinnar sem algerlega vopnlaust land og ómegnugt allra hernaðaraðgerða að taka þátt í þessu bandalagi, þar sem það hlyti að hafa í för með sér, að erlendur her mundi verða hafður hér á friðartímum og nauðsynlegt mundi að koma hér upp herstöðvum, sem ykju árásarhættuna og mundi hafa þjóðernislegar hættur í för með sér. Þetta er uppistaðan í öllum þeim áróðri, sem hafður hefur verið uppi gegn þátttöku í bandalaginu, en ekki hitt, að megintilgangur þess og stefna væri ekki í samræmi við vilja þjóðarinnar, enda svo augljóst, að það hefði ekki þurft að nefna.

Íslenzka þjóðin metur frelsi, lýðræði og réttaröryggi — þetta þrennt — meira en nokkuð annað, og barátta fyrir viðhaldi þessara mannréttinda og gegn ofbeldi og yfirgangi því í allt of augljósu samræmi við vilja þjóðarinnar, að það þýði fyrir nokkurn mann að reyna að fá hana til að taka afstöðu með hinu gagnstæða. Þetta kom líka greinilega fram, jafnvel á þeim fundum mörgum, þar sem verið var að burðast við að gera ályktanir gegn þátttöku Íslands í sáttmálanum, áður en menn vissu, hvernig hann var. Þar kom víða fram, að þrátt fyrir yfirlýsingu á móti þátttöku Íslands kom einnig fram yfirlýsing um samúð með samstarfi hinna vestrænu þjóða og ósk um, að Ísland hefði einhverja óljósa samvinnu við þær.

Menn hafa af skiljanlegum ástæðum mikið um þessi mál hugsað, rætt og ritað, síðan þau komu á dagskrá, en eðlilega átt erfitt með að gera sér í alvöru grein fyrir málinu, meðan það lá ekki ljóst fyrir. Þó var hægt að gera upp við sig, og raunar mjög auðvelt, hvort menn að stefnu til væru þátttöku fylgjandi, ef viss skilyrði væru fyrir hendi, og að öðru leyti, hvort menn vildu, að málið væri athugað til hlítar og dæmið síðan gert upp, þegar upplýsingar lægju fyrir.

Alþýðuflokkurinn varð einna fyrstur til að kveða upp úr með þessa stefnu á flokksþinginu haustið 1948, þar sem samþykkt var eftirfarandi:

„Þingið telur rétt og eðlilegt, að innan Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við reglur þeirra og skipulag séu mynduð samtök vinveittra þjóða og þá einkum þeirra, er aðhyllast svipuð eða skyld hugmyndakerfi, sérstaklega varðandi lýðræði og mannréttindi.“

„Þá telur þingið sjálfsagt, að athugað sé gaumgæfilega af Íslands hálfu, á hvern hátt öryggi, frelsi og sjálfstæði landsins verði bezt tryggt með samkomulagi við aðrar þjóðir.“

Í samræmi við þessar samþykktir flokksþingsins lýsti forsrh., formaður Alþfl., yfir því um áramótin síðustu, að hann teldi flokkinn hafa markað stefnu sína þannig, að öryggi Íslands væri bezt borgið með samningum við aðrar skyldar þjóðir, og hann sagði einnig, að „Ísland gæti ekki og mætti ekki vera afskiptalaus einstæðingur í miðju Atlantshafi án þess að gera tilraun til þess að tryggja framtíð sína og öryggi.“

Samkvæmt þessari stefnu, sem mörkuð var af flokksþinginu s. l. haust og af forsrh. um áramótin, hefur verið fram haldið síðan. Það hefur þess vegna, eftir því sem tækifæri hefur gefizt til, verið reynt að fylgjast með þróun málanna án þess að taka beinan þátt í undirbúningi þeirra.

Fyrri hluta þessa mánaðar, þegar sýnt var, að allur undirbúningur var að komast á lokastig, Noregur hafði ákveðið að gerast aðili og allar líkur bentu til, að Danmörk mundi gera slíkt hið sama, þótti ríkisstj. því tími til kominn að hefja nánari eftirgrennslanir um orðalag sáttmálans og skuldbindingar, þar sem líka útlit var fyrir, að Íslandi yrði boðin þátttaka, eins og síðar kom á daginn. Var þá för okkar ráðherranna þriggja ákveðin. Tilgangur hennar var:

1. Að kynnast nákvæmlega efni og orðalagi sáttmálans.

2. Að gera grein fyrir sérstöðu Íslands;

3. Að afla upplýsinga um ýmis atriði, er samninginn snerta.

Samningurinn hefur nú verið birtur fyrir alllöngu og er auk þess prentaður sem fylgiskjal með tillögunni sem lögð hefur verið fram, bæði á íslenzku og ensku, og auk þess hefur hæstv. utanrrh. skýrt hann allýtarlega hér á undan í umræðunum, svo að þess gerist ekki þörf að ég bæti þar neinu við.

Höfuðatriðin, sem leggja ber áherzlu á, eru þessi:

1. Ísland gerist með þátttöku í bandalaginu aðili að samvinnu hinna vestrænu ríkja til að viðhalda friði í heiminum, verjast árásum og vernda hefðbundin mannréttindi og nýtur þá um leið þess öryggis, sem sú samvinna veitir.

2. Framlög Íslands í þessu samstarfi eru eingöngu undir okkur sjálfum komin. Það verður tekin um það endanleg ákvörðun af okkur sjálfum, hvort, hvað og hvenær við leggjum okkar litla lóð í vogarskálina, að sjálfsögðu í góðri trú.

3. Samningsaðilar gera sér ljósa sérstöðu Íslands sem herlauss lands og að Íslendingar muni ekki setja upp her. Þeir gera sér líka ljóst, að við munum ekki leyfa erlendar herstöðvar á friðartímum né erlendan her hér á landi.

4. Framlag okkar í samtökum þessum verður sennilega það, að við á ófriðartíma, ef á eitthvert bandalagsríkið hefur verið ráðizt - og ef okkur sjálfum finnst það eðlilegt og sanngjarnt — veitum aðstöðu í landinu svipað og var í síðustu styrjöld, — og við lýsum því yfir með því að gerast aðilar, að við viljum ekki ljá land okkar til afnota fyrir árásaraðila.

5. Ráðagerðir verða hafðar um það fyrir fram, hvernig haga skuli vörnum, ef til árásar kynni að koma.

6. Höfuðáherzla er á það lögð með samtökum þessum að hindra, að til árásar komi, og virðast miklar líkur til, að það muni takast, þar sem að samtökunum standa þjóðir með yfir 300 millj. íbúa og útbúnað, tæknilegan og fjárhagslegan, sem er gífurlega sterkur.

Ég skal viðurkenna, að þessi tala nemur ekki þeim 800 milljónum, sem hv. 4. landsk. þm. var að minnast hér á áðan. En ég vænti, eigi að síður, að þessi hópur, sem hér hefur tekið höndum saman, þyki það álitlegur, að ekki þyki glæsilegt á hann að ráðast.

Nú er eðlilegt, að spurt sé: Fyrst ekki hvíla á okkur meiri skuldbindingar en þetta, veitir sáttmálinn okkur þá nauðsynlegt öryggi? Eru ekki líkur til þess, að hin bandalagsríkin noti frelsi sitt til athafna samkvæmt samningnum, sem þau auðvitað hafa á sama hátt og við, á þann hátt, að láta það afskiptalaust, ef á okkur verður ráðizt? Eru nokkrar líkur til að þau grípi til vopna til að verja okkur eða gæta þess, að ekki verði á okkur ráðizt, ef þau lagalega samkvæmt bandalagssáttmálanum geta komizt hjá því?

Þessu er því til að svara, að auk hinnar siðferðilegu skyldu til hjálpar, sem fyrir fram verður gerð áætlun um, hafa bandalagsþjóðirnar gert sér ljóst, hversu geysiþýðingarmikil lega landsins er, og munu því vissulega ekki láta sér á sama standa um afdrif landsins. Hagsmunir þeirra og hagsmunir okkar fara því gersamlega saman. Það sýndi sig í síðustu styrjöld, svo að ekki verður um villzt, að þeir, sem hafa yfirráð yfir flugvöllum á Íslandi, geta að mjög verulegu leyti ráðið yfir flutningaleiðum um Norður-Atlantshafið milli Ameríku og Evrópu. Það er því bersýnilegt, að þær bandalagsþjóðir í Norður-Evrópu, sem háðar eru aðflutningum frá Bandaríkjunum og Kanada, og það eru þær allar, munu ekki láta sér á sama standa, hvað um Ísland verður á ísjárverðum tímum. Sömuleiðis má ganga út frá því sem gefnu, að Bandaríkin mundu ekki hugsa til þess með ánægju, að Ísland kæmist á vald óvinsamlegs árásaraðila, því að héðan er stutt — tiltölulega — þangað að fara í árásarskyni. — Ber því allt að sama brunni með það, að hagsmunir okkar og bandalagsþjóðanna allra eru svo nátengdir, að ganga má út frá því sem alveg vissu, að litið muni eftir því á raunhæfan hátt, að ekki verði á okkur ráðizt, og aðstoðað, ef til átaka kemur.

Þá má eðlilega spyrja: Verður þessi sama vernd ekki látin okkur í té, þó að við gerumst ekki sambandsaðili og höldum okkur alveg fyrir utan samtökin, og er ekki hag okkar betur borgið á þann hátt? Þessu er því til að svara, að ef við ekki tökum afstöðu, þá vita aðilarnir ekki um okkar hug, þar sem hann er ekki yfirlýstur, og munu áreiðanlega gera sínar ráðstafanir samkvæmt því. Þar að auki er þá ekki hægt að hafa fyrir fram ráðagerðir uppi, hvernig snúast skuli við í ákveðnum tilfellum, sem okkur er þó lífsnauðsyn að hafa, og gerðar munu verða, ef við verðum bandalagsþjóð. Og það er sannfæring bæði mín og annarra, sem þessi mál hafa kynnt sér rækilega, að öryggi landsins sé á allan hátt betur borgið á þann hátt heldur en að svífa hlutlaus í lausu lofti, því að hlutleysið virða ekki þeir, sem við þurfum helzt að óttast. Auk þess er sá málstaður, sem bandalagið er stofnað um til varnar, svo miklu nær hug og hjarta yfirgnæfandi meiri hluta íslenzku þjóðarinnar, að gætum við með okkar sérstöðu lagt þar eitthvað af mörkum til aðstoðar með því að gerast frjáls aðili, þá er það áreiðanlega í samræmi við vilja alls þorra þjóðarinnar.

Í þessu sambandi dettur mér í hug að minnast örfáum orðum á síðasta vígi kommúnista í þessu máli, sem þeir hafa tekið sér stöðu í, þegar allt annað hefur brugðizt, að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þetta er bersýnilega lævís tilraun til, undir yfirskini lýðræðis, að tefja málið eða eyða því. Þeir vita, að ef við ekki gerumst stofnaðili að bandalaginu nú, getur það dregizt svo mánuðum skiptir, að við getum gerzt aðilar, og vilja freista þess, að á þann hátt verði dregið úr þeim áhuga fyrir afgreiðslu málsins strax, sem nú er ríkjandi. Þess má einnig geta, að ekki er vitað, að nein önnur þjóð hafi farið þá leið að bera málið undir þjóðaratkvæði, enda alþingismenn löglega af þjóðinni kosnir til að ráða málinu til lykta. Það er og athyglisvert, að fyrir fáum dögum var því haldið fram af andstæðingum málsins, að svo hræddir væru formælendur þess við þjóðina, að þeir ætluðu að efna til nýrra kosninga og læða síðan samningnum upp á þjóðina á eftir. Nú, þegar séð er, að sú tilgáta hefur ekki reynzt rétt, og flokkar þeir, sem að framgangi málsins standa, eru óhræddir við að þola dóm þjóðarinnar við næstu kosningar, hvort sem þær verða haldnar eftir rúmt ár, á venjulegum tíma, eða fyrr, þá er gripið til kröfunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu til að tefja málið. En þeirri kröfu mun heldur ekki verða sinnt. Alþingi mun á þinglegan hátt afgreiða málið og þingmenn þola sinn dóm fyrir það eins og annað við næstu kosningar, — en þá munu kommúnistar heldur ekki geta umflúið sinn dóm.

Það dylst engum, sem fylgzt hefur með gangi þessa máls, frá því að það fyrst bar á góma, að það eru kommúnistar, sem fyrst og fremst hafa beitt sér gegn því, ekki einasta hér á landi, heldur alls staðar í þeim löndum, sem komið hefur til greina að gerðust þátttökuríki. Alls staðar hefur afstaða þeirra verið sú sama, rökin þau sömu og aðferðirnar eins. Það er því enginn vafi á, að þessum aðgerðum er stjórnað frá einni og sameiginlegri miðstöð, ekki með hagsmuni viðkomandi lands fyrir augum, heldur allt annað. Það er þess vegna ekki öryggi Íslands, sem þeir eru að berjast fyrir, heldur öryggisleysi, til þess að landið sé opnara og óvarðara í því tilfelli, að yfirboðarar þeirra þyrftu á því að halda. Það eru þess vegna nú eins og ævinlega ekki hagsmunir Íslendinga, sem þessir menn berjast fyrir, heldur hagsmunir hins alþjóðlega kommúnisma. Þegar því þessir menn bera það upp í sér, að þeir berjist fyrir hinum íslenzka málstað, hljómar það eins og hið argasta öfugmæli og er það auðvitað líka. Þetta verða menn að hafa í huga, þegar sýndarrök kommúnista eru athuguð gegn því að gerast aðilar að bandalaginu.

Hugarfar þessara manna kemur bezt í ljós af því, að fyrir þrem dögum hvöttu þeir til þess í blaði sinu, að afgreiðsla þessa máls yrði hindruð með ofbeldi. Þegar öll rök þraut, þá kom í ljós hið sanna eðli — ofbeldishneigðin.

Ég hóf mál mitt um Atlantshafsbandalagið með því að minnast lítillega á Sameinuðu þjóðirnar, og ég ætla líka að ljúka því með því að fara um þær nokkrum orðum og afstöðu Íslendinga til þeirra.

Því hefur verið haldið fram, og vonandi með réttu, að þó að Sameinuðu þjóðunum hafi að vissu leyti mistekizt hlutverk sitt, þá muni þó hugsjónin, sem sá félagsskapur byggist á, lifa og vonandi einhvern tíma koma til framkvæmda. Því hefur þá einnig verið haldið fram, að við Íslendingar gætum bezt þjónað þeirri hugsjón með því að skipta okkur ekki af þeim átökum, sem nú eiga sér stað milli bandalagsþjóðanna. Þetta álít ég ekki aðeins vafasamt, heldur beinlínis hættulega skoðun. Ef einhver þjóð eða þjóðasamsteypa hefur uppi áróður á móti og baráttu gegn þeim grundvallaratriðum, sem sáttmáli Sameinuðu þjóðanna hvílir á, þá er það skylda þeirra, sem andvígir eru, að sameinast og berjast á móti. Og þá fyrst er von til, að hugsjón Sameinuðu þjóðanna verði að veruleika, þegar ekki er lengur til andstaða gegn þeirri hugsjón, sem máli skiptir.

Atlantshafssáttmálinn er mótaður innan þess ramma, sem Sameinuðu þjóðirnar ákveða um slíka svæðasamninga, og það er von þeirra allra, sem að honum standa, að hann geti orðið til að vinna gagn þeirri hugsjón, sem Sameinuðu þjóðirnar eru byggðar á, — verndað þjóðirnar fyrir ofbeldi og árásum og staðið vörð um þau mannréttindi, sem við viljum fyrir engan mun missa.