28.03.1949
Sameinað þing: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (4601)

169. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. kvartaði yfir því hér í ræðu sinni áðan, að ekki væri talað um annað en Atlantshafsbandalagið við þessar umræður. Ég ætla nú raunar að tala um það, en ætla þó að veita hv. þm. ofur litla úrlausn með því að tala fyrst um sitt hvað annað.

Hv. 4. landsk. talaði um, hvernig farið hefði, ef stefna Framsfl. hefði orðið ofan á á árunum 1944–46, þá hefðu engir bátar verið keyptir o. s. frv. Ég vil nú leiðrétta þetta. Í fyrsta lagi er það, að mestur hluti bátanna var keyptur af utanþingsstjórninni, eða fyrir þetta stjórnartímabil, sem hv. þm. nefndi, og voru þessi kaup gerð með góðum stuðningi Framsfl. Sá flokkur barðist heldur aldrei gegn togarakaupunum, Það haggar eigu þar um, hve oft sú skröksaga er endurtekin

Þá sagði hv. þm., að fjárlög væru enn óafgreidd og dýrtíðin færi sívaxandi. En hvers vegna er ekki búið að afgreiða fjárlög? Ég skal ekki fara svo langt út í það, enda er ég ekki viss um, að það veri til neinnar gleði fyrir þennan hv. þm. En sannleikurinn er sá, að kommúnistar eiga mestanhlut í því, hvernig komið er fjármálum landsins. Sama er um dýrtíðina og verðbólguna að segja. Hvernig stendur á því, að hún hefur heldur vaxið tvö síðustu árin? Það er vegna þess, sem eftir var skilið, þegar kommúnistar fóru úr ráðherrastólunum. Það er ekki óskemmtilegt hlutverk, sem þessir menn hafa valið sér, og fer ég ekki nánar út í það.

En núverandi stj. hefur tekið upp nýja stefnu í landbúnaðarmálum, afurðasölumálum og félagsmálum landbúnaðarins, fjárfestingar- og gjaldeyrismálum, og þannig mætti lengi telja. Margs hefur verið vel gætt og í öllu betur en áður. Fyrir starf fjárhagsráðs hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til að koma skipulagi á fjárfestinguna og atvinnulífið, komizt hefur verið hjá skuldasöfnun erlendis, og með dýrtíðarlögunum frá 1947 hefur tekizt að draga úr verðbólgunni. Framleiðslukostnaður bátaútvegsins hækkaði ekki árið 1948, og er það í fyrsta sinn síðan fyrir stríð. Margt fer þó aflaga, og ástandið er á ýmsan hátt geigvænlegt í innanlandsmálum, svo geigvænlegt, að ekki er hægt að eyða löngum tíma í að ræða Atlantshafsbandalagið, heldur verður, strax og búið er að afgreiða það mál, að snúa sér að innanlandsmálunum. Framsfl. leggur áherzlu á, að takast megi að lækka svo kostnaðinn við að lifa og framleiða í landinu, framfærslu- og framleiðslukostnaðinn, að í stað nýrrar verðbólguöldu komi þróun í aðra og skynsamlegri átt. Í þessu skyni hefur flokkurinn, eða þingmenn hans, lagt fram allmörg frumvörp, sem stefna í þessa átt og munu verða tekin fyrir hér á næstunni.

Allir vita, að kommúnistar flytja nú vantraust sitt til að blanda inn í þær umræður áróðri gegn Atlantshafsbandalaginu, og því hefur af hálfu ríkisstj. og stuðningsflokka hennar verið lögð áherzla á að gera sem gleggsta grein fyrir því máli, og vík ég nú aftur að því.

Hv. 6. þm. Reykv. kvartaði mikið undan því, að hér skyldi nálega eingöngu vera rætt um Atlantshafsbandalagið af hálfu stjórnarflokkanna. Já, það er skaði skeður, að kommúnistar skuli ekki einir fá næði til að blekkja í því máli. Hv. 4. landsk. sagði, að ef Bandaríkin felldu þann dóm, að hætta væri á ferðum, þá gætu þau þegar komið hér upp herstöðvum, en í 4. gr. samningsins er þvert á móti talað um, að samningsaðilar skuli ráðgast um eða hafa samráð um sín í milli, hvenær öryggi einhvers þeirra sé talið stofnað í hættu, og í 5. gr., þar sem talað er um skuldbindingar aðila, er komizt svo að orði, að hver og einn þeirra geri það, sem hann álítur nauðsynlegt til að koma á og varðveita öryggi. En hv. 4. landsk. túlkar þetta bara þannig, að hann segir, að ef skotin sé niður flugvél yfir Berlin, þá séum við þar með komnir í stríð. Það er engin furða, þótt hv. 6. þm. Reykv. vildi, að sem minnst væri um þetta mál talað nema af hálfu kommúnista, þegar þannig er á málum haldið. Enn fremur sagði hv. 4. landsk., að Íslendingum bæri að hervæðast samkvæmt samningnum, þó að það sé skýlaust tekið fram í 5. gr., að það sé alveg á valdi hvers og eins samningsaðila, hvað gera skuli í því efni. Ég bendi á í þessu sambandi, að í einu blaði hér, Þjóðvörn, var nýlega þessi fyrirsögn: „Skýlaus ákvæði Atlantshafssáttmálans: Skylda til vígbúnaðar og stríðsaðild. Samkvæmt samningnum ber Íslandi skylda til að setja upp her, setja lög um hermál og fara í stríð, þegar Bandaríkjunum sýnist.“ Þetta er sá boðskapur, sem blaðið hefur að færa. Er nú nokkur undrandi á því, þótt þingmenn stjórnarflokkanna telji nauðsynlegt að tala um Atlantshafsbandalagið, þegar svona er að málunum staðið.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði á þá leið, að óleyfilegt samstarf við aðrar þjóðir um öryggismál Íslands hefði byrjað með herverndarsamningnum við Bandaríkin 1941. En hann og hans flokkur létu ekki af að gorta af þeim samningi, meðan Rússar börðust móti Þjóðverjum, og sér maður glöggt af þessu samræmið í því, sem kommúnistar mega segja hverju sinni.

En hvernig stendur nú á baráttu kommúnista hér gegn Atlantshafsbandalaginu. Ég gat þess áðan, að ástæðan er sú, að þeirra hlutverk er að berjast fyrir málstað alþjóðakommúnismans og Rússa og að þeir fyrirlíta í rauninni hlutleysishugtakið af innsta hjartans grunni. Ég skal nú vitna í nokkur ummæli því til staðfestingar.

Í Þjóðviljanum 4. nóv. 1938, eða um ári fyrir styrjöldina, stendur þessi klausa: „Sósíalistaflokkurinn samþykkti á stofnþingi sínu að berjast fyrir því, að Ísland fengi öryggi sitt betur tryggt en nú er, með samningi við sterk stórveldi (en nú þykir vænlegra að flagga með hlutleysinu), er standa munu við orð sín. Nú vita allir, að franski og enski verkalýðurinn heimtar nánara bandalag við Sovétríkin og Bandaríkin. Og jafnvel íhaldsmenn, eins og Duff Cooper, taka undir þetta. Allir menn, sem ekki vilja selja land sitt undir fasisma Þýzkalands, heimta þetta bandalag. (Þarna er ekki verið að heimta hlutleysi, heldur bandalag.) Og Bandaríkin standa okkur Íslendingum nærri og munu standa við orð sín, meðan Roosevelt ræður a. m. k.“

Þetta var sagt 1938. Þá var það ekki úrræðið að vera hlutlaus, heldur mynda bandalag til að verjast hættunni. Nú mætti aðeins setja orðið kommúnismi í staðinn fyrir nazismi, annað hefur ekki breytzt, jú, auk þess er sá munurinn, sem engum kemur á óvart, að nú vilja kommúnistar, að Íslendingar séu hlutlausir. Er nokkur svo grunnhygginn, að hann skilji þetta ekki?

Aftur ætla ég að vitna í blað kommúnista, Þjóðviljann. Þetta sama ár, 1938, sagði Einar Olgeirsson:

„Það má enn fremur segja, að eftir afstöðu hvers manns og hvers flokks, í hvaða landi sem er, til Sovétríkjanna fari það, hvort hann vill vernda frelsi sitt og þjóðar sinnar gegn tortímingu.“

Þetta fer svo sem ekki eftir afstöðu til innanlandsmála, heldur eftir afstöðunni til Sovétríkjanna, hvort menn vilja frelsi sinnar þjóðar eftir þessari kenningu að dæma.

Og áfram heldur Einar Olgeirsson:

„Án bandalags við Sovétríkin er trygging lýðræðis og þjóðfrelsis óhugsandi.“

Nú er komið dálítið annað hljóð í strokkinn, nú vilja kommúnistar vera hlutlausir. En nú dylst engum manni lengur, hver er raunverulega meiningin hjá þeim.

Ég skal svo ekki lengja þessar umræður miklu meira. Eins og ég drap á áðan, gefst vonandi brátt tími til þess hér á Alþ. að ræða innanlandsmál. Það er sannarlega ástæða til að vera áhyggjufullur um þau mál, og ríður ekki á öðru meira, en að leysa þau. M. a. af þeim sökum er nauðsynlegt að afgreiða þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu sem allra fyrst, svo að hægt sé að snúa sér að innanlandsmálunum. Sjálfstæði Íslands stafar ekki hætta af Atlantshafsbandalaginu, heldur af því, ef við sjáum ekki okkar málum þannig farborða, að við getum lifað sem frjáls þjóð í frjálsu landi. Og það eru einmitt kommúnistar, sem eru og munu verða dragbíturinn á það, að Íslendingar geti borið höfuðið hátt sem frjáls og sjálfstæð þjóð.