28.03.1949
Sameinað þing: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (4602)

169. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. talaði um það, að undarlegt væri, inn á hvaða svið umræðurnar hefðu beinzt hér í kvöld. En kommúnistar hafa sjálfir gefið tilefnið.

Síðustu mánuði hefur mikið verið um það rætt á Íslandi, að átök kynnu að verða um örlagarík spor í sambandi við athafnir og ákvarðanir Íslendinga í utanríkis- og öryggismálum þjóðarinnar. Þetta er vissulega rétt. Íslenzka þjóðin er stödd á vegamótum. Í heimi umsvifamikilla og örlagaríkra athafna á hið unga íslenzka lýðveldi að taka ákvarðanir, er verulegu máli skipti um framtíðaröryggi og fylkingasamstöðu þjóðarinnar.

Árla í nýafstöðnum heimsófriði varð öllum Íslendingum það ljóst, er augu höfðu opin, að landið stóð ekki lengur utan við hin geigvænlegu átök, stríðið var komið að okkar eigin bæjardyrum.

Þegar syrti í álinn og allt útlit varð ískyggilegt fyrir lýðræðisþjóðirnar í baráttu þeirra við ofbeldi, einræði og yfirdrottnun einræðisríkjanna, varð einsætt, að örlög okkar voru óhjákvæmilega samofin átökunum, hvort sem okkur líkaði betur eða verr.

Íslandi var á kurteislegan og vinsamlegan hátt boðið að gerast aðili með Vesturveldunum í vægðarlausri og tvísýnni baráttu þeirra gegn ofurveldi hins ofstækisfulla og tryllta nazisma. Ísland gat ekki, af auðsæjum ástæðum, tekið því boði, þó að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar fyndi það vel og skildi, að framtíð hennar væri öll undir því komin, að lýðræðisöflin í heiminum bæru sigur af hólmi í átökunum.

Af illri nauðsyn og raunverulega í framtíðarþágu Íslands hernámu Bretar land okkar. Formleg mótmæli voru, af eðlilegum rökum og ástæðum, flutt af okkar hálfu gegn hernáminu. Forsrh. okkar bað þjóðina að taka ekki illa hinum óboðnu gestum. Og brátt hófst raunveruleg og náin samvinna á milli íslenzkra stjórnarvalda og hernámsliðsins.

Árið 1941 gerði Ísland samning við Bandaríkin og Bretland um hervernd Bandaríkjanna. Frá mínu sjónarmiði var þessi sáttmáli þá þegar í upphafi Íslandi til farsældar. Við sýndum hug okkar, lögðum okkar litla lóð í vogarskálina,. bæði til aukins öryggis Íslands og einnig til sameiginlegra átaka í baráttunni fyrir framtíð. mannkynsins. Þar fóru saman hagsmunir Íslands og þeirra annarra ríkja og afla í heiminum, sem óhjákvæmilega hlutu mest að orka á farsæla framtíð íslenzku þjóðarinnar.

Ísland var brátt, eða að minnsta kosti eftir að Bandaríkin urðu formlegur stríðsaðili, orðið samvinnuþjóð með þeim ófriðaraðilanum, sem eðlilegast var og sjálfsagðast og í rökréttustu sambandi við afstöðu okkar til átakanna í heimsmálunum.

Friður var saminn og honum fagnað af heilum hug, ekki sízt af Íslendingum, sem eru og hljóta að verða allra þjóða friðsamastir. En friðurinn varð brátt ótryggur og útlit allt uggvænlegt. Í stað sameinaðra þjóða kom sundraður og tvískiptur heimur. Strax að ófriðnum loknum hófust einhliða og einhæf einræðissamtök undir forustu Sovét-Rússlands, þar sem öll Austur-Evrópa og Dónárlöndin voru reyrð föstum hernaðarsamtökum, og þessu hefur verið fram haldið miskunnarlaust og af fullri harðýðgi fram á þennan dag. Eftir því, sem ég veit bezt, hafa þegar verið gerðir 24 beinir og óbeinir hernaðarsáttmálar í Austur-Evrópu, er hafa að geyma ákvæði um það, að ef á eitt ríkið verði ráðizt, þá skuli hin önnur, er að sáttmálanum standa, veita bæði hernaðarlega og alla aðra aðstoð, sem unnt er að láta í té.

Meðal Ausur-Evrópulandanna hafði Tékkóslóvakía um skeið sérstöðu. Benes og Masaryk beittu áhrifum sínum til þess að viðhalda lýðræði og frjálsri hugsun í landi sinu. En kommúnistar urðu þess megnugir með aðstoð svikara og spákaupmanna að leggja landið undir einræði hins alþjóðlega kommúnisma. Tékkóslóvakía var með skyndibyltingu innlimuð í hernaðar- og einræðiskerfi Austur-Evrópu. Kommúnistar um öll lönd ráku upp gleðióp. Jafnvel hér, á takmörkum Atlantshafs og Norður-Íshafs, hrósuðu kommúnistar og auðtrúa og blekktir áhangendur þeirra sigri. Hin ógnandi Austur-Evrópublökk var reyrð saman og ögraði öllum friði og öryggi í heiminum.

Hin friðsömu lýðræðisríki í Vestur-Evrópu og Bandaríki Norður-Ameríku tóku að hefjast handa, bæði til varnar sér og einnig eigi siður til þess að tryggja heimsfriðinn. Árangur þeirra athafna, knúinn fram í varnarskyni og borinn uppi af hugmyndakerfi lýðræðisins, er Atlantshafssáttmálinn.

Íslandi hefur verið boðin aðild að þessum sáttmála og bandalagi lýðræðisríkjanna. Þar er engin þvingun á ferð í austrænum anda. Spurningin er aðeins um það, hvort íslenzka lýðveldið eigi sjálfs sín vegna og hagsmuna sinna að taka þessu boði og gerast þannig einn af aðilunum að samtökum öndvegisþjóða lýðræðis og framfara, eða hvort Ísland eigi að einangra sig, neita öllu samstarfi til öryggis friði í heiminum.

Svarið ætti í raun og veru ekki að vera vandasamt. Ísland er þar, sem það er í heiminum, og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hyllir hugsjón lýðræðisins og á einnig, í samræmi við sögu sína, menningu og viðskipti, eðlilegasta samleið með þeim ríkjum, bæði norrænum og engilsaxneskum, er að stofnun þessa sambands standa.

Eftir umræður þær, er þegar hafa farið fram hér á Alþingi í dag, og eftir þær greinargóðu skýringar og upplýsingar, sem sérstaklega hæstv. utanrrh. og einnig tveir aðrir hæstv. ráðherrar hafa þegar flutt, þá væri það í raun og veru að bera í bakkafullan lækinn og algerlega ástæðulaust að skýra frekar en orðið er efni og tilgang Atlantshafssáttmálans. Stofnendur Atlantshafsbandslagsins hafa til fulls virt, skilið og metið sérstöðu Íslands sem varnarlausrar þjóðar, sem alls ekki vill né ætlar sér að hervæðast og hafnar því eindregið að hafa erlenda hersetu eða herstöðvar í landi sínu á friðartímum. Allt þetta hefur verið mjög skýrt og skelegglega fram tekið og á fyllsta hátt viðurkennt og fullkomlega til greina tekið sem ófrávíkjanlegt skilyrði Íslendinga til þess að gerast aðili að þessu friðar- og öryggisbandalagi.

Þó að það sé vissulega endurtekning á umræðunum, tel ég þó rétt að draga fram enn á ný höfuðatriði málsins varðandi Ísland, svo mjög sem þessar staðreyndir verða sízt of oft endurteknar í moldviðri þeirra blekkinga, ályga og óvandaðs málflutnings, sem beinir og óbeinir umboðsmenn hins austræna einræðisríkis hafa uppi haft, bæði í sölum Alþingis og í blöðum sínum og á fundum.

Staðreyndir málsins varðandi aðild Íslands eru óvefengjanlega þessar:

að viðurkennt er af öllum stofnaðilum Atlantshafsbandalagsins, að Ísland hafi engan her og ætli sér alls ekki að stofna her;

að ekki komi til mála, að erlendar herstöðvar verði á Íslandi á friðartímum;

að það sé algerlega á Íslands valdi að ákveða um það, hvaða hernaðaraðstöðu aðrar bandalagsþjóðir hefðu hér á landi, ef til ófriðar drægi;

að árás á Ísland eða undirbúningi að árás á landið yrði hrundið eða bægt frá með sameiginlegum átökum hinna bandalagsþjóðanna.

Þegar það er athugað, að bandalagssáttmálinn er einungis gerður til að öryggja frið og í varnarskyni, ætti það að vera auðsætt, að það er víðs fjarri, að Ísland hverfi frá friðarhugsjón sinni, heldur sé þátttakan í bandalaginu þvert á móti bæði til þess að undirstrika friðarhugsjónir Íslendinga og einnig til þess, ef til ófriðar kæmi, að öryggja landið og frambúðarsjálfstæði þess og frelsi.

Við lifum á einkennilegum tímum falsaðra hugtaka, skefjalausra blekkinga og ofstækisfulls og hatramms áróðurs. Hugmyndakerfi einræðisaflanna, nazismans og kommúnismans, hefur rutt sér geigvænlegar brautir með þjálfaðri, skólaðri og skefjalausri málýtni. Það, sem áður var, og með ótvíræðum rétti og sannindum, kallað óskor að einræði og ofbeldi, er nú í skóla kommúnismans nefnt fullkomið eða einbeitt lýðræði, og jafnvel, til þess að gera það enn þá aðgengilegra, alþýðulýðræði. Það, sem áður var með réttu kölluð einsýn föðurlandssvik og stigamennska, er nú á máli hinnar nýju einræðisstefnu, kommúnismans, kallað föðurlandsást og barátta fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Það er einmitt þetta, sem íslenzk alþýða hefur kallað, og það með réttu, öfugmæli.

Aldrei hefur þetta komið betur í ljós en í ofstækisfullri og örvinglaðri baráttu íslenzkra kommúnista og einstakra fylgifiska þeirra gegn þátttöku Íslands í öryggis- og friðarbandalagi lýðræðisþjóðanna. Þar er öllum nöfnum öfugmælanna beitt í örvæntingarfullri baráttu kommúnista til þess að fjarlægja Íslendinga samstarfi við lýðræðisríkin, um leið og keppt er að því, að land okkar sé opið, varnar- og samherjalaust, ef því einræðisríki, sem lagt hefur undir sig mörg lönd og ríki með tugum millj. íbúa, auk þess sem fjölmörg önnur ríki og lönd eru nú háð valdi þeirra og geðþótta, þótt formlega séu frjáls, — ef þessu sama einræðisríki þætti sigurvænlegt að ná Íslandi á sitt vald. Þessi fimmta herdeild í öllum löndum, kommúnistar, skreyta sig á skammarlegan hátt nafni föðurlandsvinanna, um leið og þeir blygðunarlaust og með fullu ofstæki reka erindi austræns einræðisríkis gegn hagsmunum sinnar eigin þjóðar.

Í öllum lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu hafa kommúnistar barizt hatrammri og ósvífinni baráttu, þar sem ekki hefur verið skirrzt við að beita ofbeldi gegn þátttöku þessara ríkja í friðar- og öryggissamtökum Atlantshafsbandalagsins. En það er vissulega ekki torráðin gáta, hvers vegna fimmtu herdeildirnar fylkja liði. Boðið frá Moskvu ræður þar öllu um. Þegar blásið er í hinn austræna lúður, þeysa fylkingarnar fram, fullar ofstæki og ofstopa og sjást hvergi fyrir. Og þeir „nytsömu sakleysingjar“, sem taka sér stöðu í þessari fylkingu, eru vissulega verðir meðaumkunar; þeir vita ekki, hvað þeir gera, ef þeir þá ekki eru ánetjaðir af hinum austræna áróðri.

Þessi herdeild geysist nú fram gegn þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Hún sparar hvorki fé né fyrirhöfn, stór orð né ofbeldishótanir og framkvæmdir. Þar dugar ekkert á móti annað, en einhuga athafnir, styrkur vilji og staðfesta allra lýðræðissinna, sem skilja það og vita, að halda verður markaða braut, beint og ákveðið, til styrktar öryggi Íslands og órofa samtökum þess í bandalagi friðelskandi þjóða. Sú braut er mörkuð. Hún verður gengin ákveðið og örugglega. Fáryrði og ofbeldishótanir íslenzkra kommúnista og fylgifiska þeirra fá þar engu um breytt.

Íslenzki Alþýðuflokkurinn hefur, eins og allir jafnaðarmannaflokkar í Vestur-Evrópu, mjög eindregið ákveðið afstöðu sína. Á miðstjórnar- og þingflokksfundi 23. þ. m. ályktaði Alþfl. í beinu framhaldi af ákvörðun síðasta flokksþings eftir ótvíræðum upplýsingum, sem fyrir lágu, að Atlantshafssáttmálinn sé mikilsverð ákvörðun til tryggingar friði og bandalagið eingöngu stofnað til varna, en ekki til árásarstríðs;

að tryggt sé, að engin skylda hvíli á Íslandi, hvorki til að stofna eigin her né leyfa erlendar herstöðvar og hersetu hér á landi á friðartímum;

að það sé algerlega á valdi Íslands, hvaða ráðstafanir yrðu gerðar til að láta í té aðstöðu hér á landi, ef til stríðs kæmi, og

að öryggi Íslands sé í verulegum atriðum tryggt með þátttöku í Atlantshafsbandalagi. Í samræmi við þessa skýru ályktun ákvað

miðstjórnin að fela ráðherrum sínum og þingflokki að vinna að því, að Ísland gerðist stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu.

Þannig hefur miðstjórn og þingflokkur Alþfl., sem í samræmi við lög og hefðbundnar reglur markar stefnu flokksins á milli þinga hans, skýrt og ákveðið tekið ófrávíkjanlega afstöðu til þessa mikilsverða máls.

Ríkisstjórn Íslands hefur um nokkurra mánaða skeið fylgzt með og aflað sér hinna skýrustu og beztu upplýsinga um Atlantshafsbandalagið og sáttmála þess. Í því skyni fór hæstv. utanrrh. og hæstv. tveir aðrir ráðherrar til Bandaríkjanna, til þess að ganga að lokum algerlega úr skugga um það, hvaða réttindi og skyldur Íslandi til handa þessi sáttmáli hefði að geyma. Eftir að ráðherrarnir höfðu gefið ýtarlegar skýrslur um þetta allt til ríkisstj. og þær einnig verið gefnar stuðningsflokkum ríkisstj. og ráðgazt hafði verið við þá um afstöðu til málsins, ákvað ríkisstj. einróma og mjög eindregið að leggja það til við hv. Alþingi Íslendinga, að það ákveði, að Ísland yrði stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu og fæli ríkisstj. að undirrita yfirlýsingu þar um.

Það er að mínu viti skilyrðislaust í samræmi við hagsmuni íslenzku þjóðarinnar að taka þátt í samstarfi með öðrum lýðræðisríkjum til þess að efla friðinn og styðja að alþjóðlegu öryggi. Hugsjónin um samstarf þjóða til verndar friði og eflingar lýðræði á vissulega að eiga sterk ítök í hugum allra góðra Íslendinga. Þess vegna munu þeir af heilum hug og einlægri sannfæringu standa að baki ákvörðun Alþingis, sem tekin verður innan skamms um þátttöku Íslands í friðar- og öryggissamstarfi Atlantshafsbandalagsins.