27.01.1949
Sameinað þing: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (4616)

112. mál, mænuveikivarnir

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég sé, að hæstv. ráðh. er í vandræðum, þó að hann hafi átta lækna að baki sér, því að nú vill hann halda því fram, að ég sé að bera vantraust á alla stjórnina. Hann er búinn að játa aðgerðaleysið. Hann veit ekkert um málið og gerir ekkert í málinu og reynir svo að fá hjálp með því að skjóta sér að baki landlæknis. Og er það ekki ískyggilegt, þegar í einu héraði norðanlands eru 100 manns veikir, eftir að ekkert hefur verið gert til þess að hindra það, að veikin gæti breiðzt þangað frá Akureyri, að þá leyfir hæstv. ráðh. sér að hóta stjórnarskiptum? Hann segir, að ég og þingið eigum að segja, hvað eigi að gera í þessu máli. Það, sem mitt er í þessu máli, það er að skýra frá því, að við viljum ekki aðgerðaleysi. Hver segir, að ekki hefði verið hægt að hindra, að veikin breiddist út til Skagafjarðar, þar sem hundrað manns hefur nú tekið hana? Hver segir, að það sé nokkur skynsemi í að senda nemendur frá Menntaskólanum á Akureyri til Suðurlands? Þetta er skömm fyrir heilbrigðisstjórnina, þetta er af gífurlegri vanrækslu og þekkingarleysi hennar. Það þurfti ekki að sleppa menntaskólapiltunum út um allt land, það sjá allir. Svo kemur ráðh. hér með drýldni, en stendur þó uppi ráðalaus og segir: Hvað á að gera? — Hæstv. ráðh. hélt, að hann gæti skotið sér á bak við Dungal, meira að segja, þó að á honum hvíli öll mæðiveikihistorían. Það má segja um þann mann, að hann gaf sig upp, þegar hann sá, að hann gat ekkert gert. Og það finnst kannske einhverjum, að ábyrgðin sé nú svipuð og hjá manninum með vísindalegu rannsóknirnar á Deildartungusniglunum.