31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (4623)

112. mál, mænuveikivarnir

Gísli Jónsson:

Ég vil þakka hv. allshn. fyrir skjóta afgreiðslu á málinu, því að hún hefur tekið það strax til athugunar. Hins vegar þarf ekki að þakka henni fyrir góða afgreiðslu, því að vitanlega stendur málið á sama stigi og það stóð, þegar það fór til n., eftir nál. á þskj. 292 að dæma. Ég verð að segja það, að mig undrar, að annað eins tilfinningamál og fjárhagsmál fyrir þjóðina eins og þetta mál er skuli fá þessa afgreiðslu. Það var upplýst við umr. á síðasta fundi, þegar þetta mál var til umr., að heilbrmrh. og heilbrigðisstjórnin hefði ekkert gert til að hefta útbreiðslu veikinnar og hefði ekki séð ástæðu til að gera annað en að senda gamalmenni, sem komið er á áttræðisaldur, til að athuga málið, og svo að setja í sóttkví eitt heimili í landinu, sem stendur uppi á heiði, og eftir þessar yfirlýsingar undrar mig mjög, að hv. allshn. skuli ekki sjá ástæðu til að segja neitt annað um málið en að leggja til, að því verði vísað til ráðh. aftur, sem hefur lýst yfir, að svona hafi verið farið með málið áður. Og hæstv. ráðh. lýsti yfir, að frá sínu sjónarmiði væri þessi till. flutt til að gera honum persónulega og Framsfl. allt til bölvunar, hún væri flutt af illgirni frá flm. til að reyna að æra upp allan þann fjölda manna, sem ætti um sárt að binda, eftir að veikin hefði herjað á þeirra heimili. Ég verð að segja það, að mér finnst hæstv. heilbrmrh. vera kominn í það heilbrigðisástand, að hann megi ekki ræða heilbrigðismál svo, að hann fái ekki taugaáfall og geti ráðið yfir því, sem hann segir, og held ég, að hann ætti þá að nota sér tækifærið og láta landlækni skoða sig.

Ég er undrandi yfir því, hvaða afgreiðslu þetta mál fær hér í þinginu. Það er vitað, að veikin hefur herjað á einn kaupstað í landinu, svo að það þykir nú ástæða til að fá sérstaka undanþágu til að flytja inn fólk til að starfa á þessum heimilum, því að það hefur komið fram í einu dagblaði undanfarið, að það þyrfti að fá sérstakt leyfi til að flytja inn þýzkar stúlkur til að veita aðstoð á þessum heimilum vegna þess, að þau séu lömuð um lengri tíma. Það er vitað, að veikin breiðir sig meira og meira um ýmis héruð landsins, og á sama tíma lýsir hæstv. ráðh. yfir, að heilbrigðisyfirvöldin sjái ekki ástæðu til að gera neitt í málinu, og síðan kemur allshn. og leggur blessun sína yfir gerðir læknaráðs og landlæknis og telur sjálfsagt að gera ekkert í málinu, eins og kemur fram í nál. Hins vegar bætti hv. frsm. því við, að þetta sé gert í trausti þess, að heilbrigðisstjórnin geri sitt bezta í að laga þetta. Hvers vegna mátti það ekki koma fram í nál.? Má ekki þjóðin sjá, að n. leggi til, að heilbrigðisstjórnin geri sitt bezta, eftir að hæstv. ráðh. hefur lýst yfir, að ekkert hafi verið gert? Nei, svo mikið mátti ekki blaka við heilbrigðisstjórninni, að þetta mætti koma fram í nál.

Með tilvísun til þeirrar hættu, sem hér er á ferðinni, og með tilvísun til þess, að ég tel hvorki heilbrigðisstjórnina né landlækni geta borið ábyrgð á þeim afleiðingum, sem kunna að verða af því, að veikin verður ekki stöðvuð, vil ég leyfa mér að bera fram dagskrártill., svohljóðandi.

„Í trausti þess, að ríkisstj. geri nú þegar raunhæfar ráðstafanir til þess að hefta útbreiðslu mænusóttarinnar, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta er aðeins tilraun til þess að afgr. málið á þann hátt, að eitthvað verði gert. — Hæstv. ráðh. minntist á það í umr., að þáltill. væri losaraleg og ekki nægilega ákveðin, og spurði, hvað ætti að gera. Ég verð að segja það, að eins og till. er á þskj. 280, þá sé ég ekki annað en að hún beri í sér fullt traust til hæstv. ráðh. um það, að hann láti beita viðeigandi samgöngubanni. Hv. flm. á hér vitanlega við, að það séu gerðar þær nauðsynlegu ráðstafanir til þess að hefta útbreiðslu veikinnar. Það verður svo að sjálfsögðu að vera mat heilbrigðisstjórnarinnar á hverjum tíma, hvað hún álítur, að þurfi að gera. Hingað til hefur það mat verið þannig, að hún álítur, að ekkert þurfi að gera. En eftir að Alþ. hefur haft aðra skoðun, — ef það hefur aðra skoðun, — þá kann svo að fara, að hún athugi á ný þetta mat sitt, og með tilvísun til þess vænti ég þess, að hæstv. forseti beri þessa dagskrártill. upp á undan frávísunartill. Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa till.