31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (4624)

112. mál, mænuveikivarnir

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég veit ekki, hvort ég man alla þá rökst. dagskrártill. rétt, sem hv. þm. Barð. bar fram, en mér skilst, að efni hennar sé að fela ríkisstj. að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að hefta útbreiðslu veikinnar. Ég hygg, að við þurfum ekki lengi að deila um það, að við ætlumst til, að það, sem gert sé í þessu máli, verði raunhæft, því að annars mundi það litla þýðingu hafa. Þarna skilur því ekki svo mikið á milli, og þó að þessi rökst. dagskrá hv. þm. Barð. verði samþ., þá er það eigi að síður á valdi ríkisstj., hvað gert verður. Það er m. ö. o. hennar að meta það, hvað gera skal, eins og eðlilegt er, ekki sízt í svona málum, svo að mér skilst, að þetta beri allt að sama brunni, svo að þetta verður aðeins að finna sér eitthvað til, til þess að láta líta svo út, að eitthvað annað sé hér á ferðinni, eftir því sem hans till. segir, heldur en vakir fyrir allshn.

Út af því, sem hv. þm. sagði út af þeim ummælum mínum, að n. vonaðist eftir, að ríkisstj. gerði það, sem hún telur unnt að gera til að hefta útbreiðslu veikinnar, þá vil ég taka það fram, að þetta var ekki sett í nál. vegna þess, að við værum að reyna að hraða afgreiðslunni, svo að hægt væri að afgr. málið með skjótum hætti. En ég ætla, að þetta hafi sama gildi, þó að það komi munnlega fram, því að það er ekki falið fyrir þjóðinni, sem hér gerist; það er í áheyrn, ekki einungis allra þm., heldur og fjölda áheyrenda, og það er öllum frjálst að birta það og hafa það á orði, eftir því sem þeir vilja. Og unz þessum ummælum mínum er mótmælt af hálfu meðnm. minna, sem ég veit, að ekki verður gert, þá hygg ég, að þau hafi sitt fulla gildi, þó að þau séu sögð í ræðu, eins og ef þau stæðu í nál. Mér skilst, að hv. þm. Barð. geri sér ekki fullkomlega ljóst, hver vandi er að fást við þetta mál. Ég skal viðurkenna minn barnaskap í slíkum málum sem þessum, því að maður hefur sannarlega ekki mikla þekkingu á þessum sjúkdóm, og ég hygg, að það megi færa mönnum til vorkunnar, þei sem þessi sjúkdómur er óþekktur um allan heim, nema aðeins fyrir verkanirnar. Það er uppi alþjóðafélagsskapur, sem hefur rannsókn þessa sjúkdóms með höndum. Hygg ég, að Svíar hafi lagt sig allra þjóða mest fram um að kynna sér þennan sjúkdóm, en hann hefur hagað sér bæði hér og þar með öðrum hætti, en hann gerir nú hér, sérstaklega á Akureyri, og eftir því sem ég veit bezt, þá hygg ég, að í engu þjóðlandi sé sett samgöngubann, þó að þessi sjúkdómur geri vart við sig. Það er skoðun lækna sem engan veginn er þó hægt að sanna, að langtum fleira fólk sýkist af þessum sjúkdómi, en kemur í ljós, og meginþorri þeirra manna, sem tekur sjúkdóminn, veikist ekki og verður þess vegna aldrei sjáanlegt, að þeir taki veikina. Enn fremur er það skoðun þeirra, að heilbrigðir menn beri sjúkdóminn ekki síður en þeir, sem vekjast. Nú er það háttur erlendis, eftir því sem ég hef vitneskju um, að það er reynt að heft í mikil kynni við þau heimili eða þá menn, sem sýkjast, en það er engan veginn sett samgöngubann milli héraða, og ég hygg, að af hálfu heill ríkisstjórnarinnar hér hafi verið gerðar alveg sams konar ráðstafanir og tíðkast erlendis meðal menningarþjóða, þar sem veikin gerir vart við sig. Á Akureyri var skólum og samkomustöðum lokað. Eitt hérað tók upp hjá sér af sjálfsdáðum að koma á samgöngubanni, eða partur af héraði. Það var Dalvík, og það olli þeim það miklum óþægindum, að ég ætla, að þeir séu búnir að upphefja það alveg, þó að veikin sé enn í Akureyri. Hverjir erfiðleikar eru á í þessum efnum, má bezt sjá af því, hvað veikin er dreifð víða um landið. Samtímis því, sem veikin kemur upp á Akureyri, gerir hún vart við sig í Jökuldal í Norður-Múlasýslu, í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og hún er búin að vera í Rvík síðan í ágúst í sumar. Hún hefur verið á tveimur stöðum í Árnessýslu, og svo nú fyrir stuttu hefur hún gert vart við sig á Vestfjörðum. Það var sett samgöngubann á Fornahvamm, af því að það er gististaður, til þess að það heimili sýkti ekki þá, sem heilbrigðir kæmu þar, og þetta teljum við sjálfsagða ráðstöfun gagnvart slíkum stað. En það er nokkuð annað að setja samgöngubann við slíkan stað, þar sem ferðamannastraumur er, eða setja samgöngubann við heilt hérað eða fleiri héruð. Ef sett er samgöngubann á Akureyri, hvað á þá að gera t. d. Norður-Múlasýslu? Átti að taka Akureyri eina eða átti að taka Eyjafjörð með? Veikin gerði vart við sig í Þingeyjarsýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu og í Rvík er hún búin að vera síðan í ágúst og nú er hún komin upp á Vestfjörðum. Þetta er þess vegna ekki einfalt mál. Þó að veikin breiðist svona mikið út, þá er hún sem betur fer yfirleitt svo væg, að læknar eru stundum í vafa um, hvort um þessa veiki sé að ræða eða einhverja aðra veiki. En hvað sem um það er, þá er það aðalatriðið, hvað hægt er að gera og hvernig hægt er að koma vörnum við, og mér skilst út af því, hvernig sjúkdómurinn er, að það sé meira en litlum vandkvæðum bundið. Og þetta er ekki aðeins viðfangsefni hjá okkur Íslendingum einum, svona hefur það verið um allan heim, sams konar ráðstafanir hafa verið gerðar, af því að mönnum hefur ekki fundizt þeir hafa annað betra að gera. Mönnum hefur fundizt, að þeir gætu ekki gert frekari varnir, en með þessu móti, og það er af því, hvað þessi sjúkdómur er falinn, honum skýtur upp á ólíklegustu stöðum. Annars þykja þessir vírussjúkdómar erfiðir viðfangs, og það er við því að búast, að það sé erfitt hjá okkur, alveg eins og annars staðar.

Þetta tal hv. þm. Barð. um, að út af veikindunum hafi verið talað um að fá þýzkar stúlkur, hygg ég, að eigi ekki við nema að nokkru leyti, sakir þess að okkur skortir fólk almennt. Vel má vera, að þetta væri til liðsinnis í þessu máli að einhverju leyti, en ég hygg, að það hafi komið fyrr til orða að óska eftir að flytja inn fólk til starfa í landinu og áður en þessi veiki kom. Og þetta tal hjá hv. þm., að þetta sé Framsfl. til bölvunar! Ég var við umr. og þóttist taka mjög vel eftir þeim, og hæstv. ráðh. sagði ekki orð í þá átt, að þetta gerði Framsfl. bölvun, enda er það býsna hjáleitt. Ég hygg því, að það, sem gert hefur verið í þessu máli til þessa, séu sams konar ráðstafanir og gerðar eru hjá öðrum menningarþjóðum, þar sem þessi veiki hefur gert vart við sig, og þó að veikin hagi sér með öðrum hætti á Akureyri, en mænuveiki gerir venjulega, ekki hvað sízt að því leyti, hvað margir sýkjast, þá er síður en svo, að það sé hægt að fara öðruvísi að í ráðstöfunum gagnvart henni, en á þann bezta hátt, sem menn koma auga á, þ. e. að reyna að hindra útbreiðslu veikinnar án þess að leggja bönd á heil héruð, en það er ekki hægt, af því að hún kemur upp á ólíklegustu stöðum og maður veit ekkert, hverjar ráðstafanir ætti að gera eða hvar það mundi enda. Veikin er nú hér í Reykjavík. Á þá að setja samgöngubann á Reykjavík við önnur héruð? Veikin er í Árnessýslu og í Borgarfirði og mjólk kemur úr þessum héruðum til Rvíkur. Á að setja samgöngubann á slíka flutninga? Þetta er hægara sagt en gert, þegar málin eru svona vaxin. Ég hygg, að það verði ekki nær því komizt en það, sem vakir fyrir n., þ. e. að treysta heilbrigðisyfirvöldunum til að gera sitt bezta til varnar því, að veikin breiðist út, eftir þeim leiðum, sem við frekast getum komið auga á, að geti orðið bærilegar í framkvæmd.