31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (4625)

112. mál, mænuveikivarnir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. Barð. sagði að það hefði ekkert verið gert út af þessari mænuveiki, þó að hún hafi verið svo alvarleg. Sannleikurinn er sá, að það hefur verið allt gert, sem fróðir menn í þeim efnum hafa talið fært að gera og hefði þýðingu í framkvæmd. — Þá lét hv. þm. Barð. lítilsvirðandi orð falla um próf. Jón Hj. Sigurðsson, og hygg ég, að það sé ekki hv. þm. til sóma, og býst ég við, að heilbrigðisstjórnin verði ekki í vandræðum með að verja það, að honum var falið að fara til Akureyrar og kynna sér þessi mál.

Í till. þessari felast fyrirmæli til ríkisstj. um að skipa fyrir samkv. því, sem Alþ. ályktar í þessu efni. Ríkisstj. hefur þegar gert raunhæfar ráðstafanir varðandi veikina, en einmitt þær ráðstafanir sýna, að ekki sé gerlegt eða hafi nokkra þýðingu að gera frekari ráðstafanir, eftir því sem fram hefur komið frá læknunum. En ef Alþ. leggur fyrir ríkisstj. að framkvæma eitthvað ákveðið í þessu efni, þá verður að finna einhvern mann, sem vill framkvæma slíkt, t. d. héraðabönn, þ. e. banna samgang fólks milli héraða, enda þótt þeir menn, sem hafa þann lærdóm til að bera, sem taka verður trúlegan, telji slíkt algerlega út í bláinn. Ef fara á að rifta þeim ákvörðunum, sem heilbrigðisyfirvöldin hafa tekið varðandi þessa veiki, þá verður að skipta um forstöðu fyrir þessum málum. Ég fyrir mitt leyti hef ekki séð mér fært að hefjast handa um frekari aðgerðir í þessu máli. Þetta mál hefur verið athugað vandlega af sérfræðingum og af mönnum, sem hafa meiri kynni og vit á heilbrigðismálum þjóðarinnar en hv. þm. S-Þ. Hnútukast hans að mér tek ég því ekki alvarlega, en ég mun að sjálfsögðu vera reiðubúinn að gera frekari ráðstafanir, ef læknaráð og landlæknir telja slíkt nauðsynlegt.