31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (4626)

112. mál, mænuveikivarnir

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka ekki hv. n. fyrir afgreiðslu þessa máls, eins og siður margra þm. er, þegar frv. koma frá n. Hitt er svo annað mál, hvert gagn það hefur orðið þessu máli. Það er táknrænt, að er lagt var til, að málinu væri vísað til heilbrmn., en síðar til allshn., lagði hv. 1. þm. Árn. það til, að málinu yrði vísað til fjvn., en hann er form. allshn., eins og þm. vita. Ef slíkt hefði verið samþ., þá hefði það verið verk fjvn. að úrskurða, hvort það borgaði sig fyrir þjóðfélagið að sækja meðul og læknishjálp handa þessu nauðstadda fólki. Með þessu framlagi sýndi Jörundur Brynjólfsson málinu fyrirlitningu. En eftir höfðinu dansa limirnir. Framlag hæstv. ráðh. til málsins er allt á þessa lund. Hæstv. ráðh., sem telur sig að nokkru vera málsvara bændanna, bar skylda til þess að koma í veg fyrir, að veikin bærist út um sveitir landsins. Veikin hefur breiðzt út um Eyjafjörð og Skagafjörð og er einnig komin til Vestfjarða. Í Alþýðublaðinu segir, með leyfi hæstv. forseta: „Mænuveikin er heldur í rénun á Akureyri, en stingur sér enn niður í bænum. Samkomubann er á Akureyri til mánaðamóta, en ekki hefur verið ákveðið, hvort það verður framlengt.“ — Ég held nú, að hér sé um einhverja missögn að ræða, því að nýlega vantaði 300 nemendur í gagnfræðaskólann, og í húsmæðraskólanum hafa aðeins verið 6–7 nemendur. Frá Akureyri til Sauðárkróks eru um 100 km, og nú er veikin komin þangað. Hætta er á, að hún breiðist síðan út um Húnavatnssýslu og síðan áfram landleiðina út um sveitir landsins. Mörg heimili hafa nú um sárt að binda norðanlands, og er svo komið á sumum heimilum, að allt fólkið liggur og er hjálparlaust og ráðþrota. Þegar ástandið er svona slæmt í kaupstað, hvernig verður umhorfs í sveitunum, ef veikin breiðist út um byggðirnar, þar sem nær ógerningur verður að fá hjálp, þegar svo verður komið eins og á sumum heimilum Akureyringa.

Nú er það vitað, að veikin kom upp í Fornahvammi og í skólanum að Reykjum í Hrútafirði. Þessir staðir voru settir í sóttkví og með þeim árangri, að líkur benda til, að veikin hafi verið stöðvuð þar um slóðir. Hins vegar er vitað um mann, sem kom frá Akureyri, þegar veikin stóð sem hæst þar. Þessi maður fékk að fara allra ferða sinna, fyrst hingað suður og síðar austur um fjall og hélt áfram austur í Árnessýslu. Þegar slíkur háttur er tekinn upp, er skæðir sjúkdómsfaraldrar ganga, þá hlýtur þjóðin að fá að kenna á því fyrr eða síðar. Ef þetta er athugað nánar, kemur í ljós, að landlæknir vildi ekki gera neitt það, sem til varúðarráðstafana má telja. Hæstv. heilbrmrh. gat borið landlækni ráðum, og það bar honum að gera, en vanrækti það. Hann hefur sýnilega veigrað sér við að gera ákvarðanir undirmanns síns ómerkar. Nýlega er fallinn dómur í hæstarétti út af máli læknis eins, sem aðrir læknar töldu, að hefði verið sekur um glæp. Landlækni hafði borizt vitneskja um málið og höfðaði mál gegn fyrrgreindum lækni. Fyrir rétti neita læknar að bera vitni í málinu. Máli þeirra er skotið til hæstaréttar, og kemur þá í ljós, að læknunum ber ekki skylda til þess að segja frá glæp, sem þeir vita um, að hafi verið drýgður af einum starfsbræðra sinna. — Í svipuðum anda er það, þegar hæstv. heilbrmrh. vill ekki breyta ákvörðun landlæknis. En í þessu sambandi vil ég beina því til hæstv. ráðh., að í vissum tilfellum — og það hefur reynslan sýnt — þá verða leikmenn að taka til sinna ráða. Árið 1918 berst hingað skæð farsótt. Læknar litu á hana sem hún mundi verða landlæg og varnir með samkomu- og samgöngubanni kæmu ekki að notum. En svo er frá að segja, hvað fram fór á Akureyri. Núverandi þm. Akureyrarkaupstaðar, læknir staðarins og lögfræðingur einn þar nyrðra kölluðu saman fund. Þessi fundur borgaranna heimtaði sóttvarnir, — heimtaði, að Norðurland yrði varið gegn þessum vágesti. Landlæknir neitaði, og fór málið þá fyrir bæjarstjórnina. Bæjarstjórnin samþ. að skora á ráðh., Jón Magnússon, að einangra Norðurland. Jón Magnússon tók þessa beiðni til greina. Norður- og Vesturland var algerlega einangrað um stund og komst hjá því, að þessi erfiða og mannskæða sótt yrði íbúum þessa landshluta að fjörtjóni. Nú víkur sögu til kjördæmis hv. 1. þm. Árn. Þar var ekki brugðið við með slíkri eljusemi og á Akureyri. Forustan var of veik, og drap veikin margan vaskan dreng hér sunnanlands. — En eitt var heimili hér í suðursveitum, sem lét ekki fljóta að feigðarósi. Grímur Thorarensen í Kirkjubæ setti hnefann í borðið og sagði: „Mitt heimili skal í sóttkví.“ Svo fór, að enginn veiktist þar, og varð sami árangur og á Akureyri. Með þessum vörnum var e. t. v. þúsundum manna bjargað frá dauða. Það, sem átti að gera hér nú, var að banna samgöngur við veik hús. Það átti að loka Akureyri inni um stund. Ef ástæða var til slíkra ráðstafana 1918, er það engu síður nú. Allt og sumt, sem ráðh. og landlækni bar skylda til, var að loka veika staði inni. Það var það, sem núverandi hv. þm. Ak. gerði á sínum tíma. Þar stóð allt Norðurland honum að baki, og mun hann ávallt hafa þökk fyrir það. En hver er svo niðurstaðan af afskiptum landlæknis af þessu máli? Framkoma hans hefur sýnt, að honum er ekki treystandi. Heilbrigðisstjórn landsins er ónýt, skapferli hans og þröngsýni hafa gert þjóðinni mikinn skaða. Á sínum tíma átti ég þátt í því, að lyfjabúðum í Reykjavík var fjölgað um helming. Nú hefur landlæknir staðið á móti því, að lyfjabúðum yrði fjölgað. Af eintómri meinfýsi synjaði hann lyfjafræðingum að verzla með lyf. Hitt er svo annað mál, um hugleysi hæstv. heilbrmrh., að hann skyldi ekki taka völdin af landlækni fyrir þá framkomu, sem hann hefur sýnt í því máli, því að slík framkoma er vissulega til óheilla.

Hæstv. ráðh. skilur það mætavel, að þetta er mjög alvarlegt mál, en samt ógnar hann með stjórnarkrísu ef þessi till. verður samþ. Hann telur það vantraust á sig, ef sóttvörnum verður komið á, en hann vill ekkert gera til þess að draga úr því, að veikin breiðist út. Þetta er bæði óskörulegt og ómannlegt hjá hæstv. ráðh., og þó að hann vilji ekki viðurkenna það nú, þá býst ég við, að hann eigi eftir að sjá eftir því síðar.

Þar sem málið liggur þannig fyrir, að hættuleg farsótt hefur geisað í öðrum stærsta bæ landsins og ekkert hefur verið gert til þess að hindra útbreiðslu veikinnar af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar nema fávíslegt kák, þá geta þm. ekki gert annað, en að taka málið í sínar hendur.