31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (4627)

112. mál, mænuveikivarnir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það blandast engum hugur um, að þetta mál er mjög alvarlegt og svo þýðingarmikið fyrir þjóðarheildina, að þess vegna er talin ástæða til að taka það til umr. hér á Alþ. Hins vegar er öllum það jafnljóst, að það er mjög leiðinlegt, þegar slíkt mál og jafnalvarlegt er á ferðinni, þegar hv. þm. er að tala digurbarkalega og í ásökunartón til heilbrigðisstjórnarinnar. Mér finnst, að þeir einir geti talað digurbarkalega og í ásökunartón, sem einhver ráð kunna. Mér finnst þessir menn því vera að ásaka sjálfa sig, því að nú hafa þeir verið spurðir, hvað þeir vildu gera, o hefur þeim þá orðið svarafátt. Hv. þm. S-Þ. talar um viðeigandi samgöngubann. Nú skulum við segja, að Akureyri verði sett í samgöngubann, en samt er fjöldi fólks búinn að taka sóttina, og hefur hún breiðzt út. Þann 11. jan. varð vart við fyrsta tilfellið á Ísafirði. Á sama klukkutíma og læknirinn varð veikinnar var, var haldinn heilbrigðisnefndarfundur, og ákvað n. að setja á algert samgöngubann, og allar samkomur voru bannaðar. Menn álitu, að þetta væri nóg til þess að hefta frekari útbreiðslu veikinnar. Mér er sagt, að nú séu um 20 tilfelli á Ísafirði, og sýnir það, að algert samkomubann getur ekki heft útbreiðslu veikinnar. Við skulum segja, að algert samgöngubann væri sett við Akureyri, þá er alls ekki víst, að það væri nóg til að hefta útbreiðslu veikinnar, þegar ekkert er vitað, hvernig hún berst meðal manna. Ef veikin berst með dauðum hlutum, hefði þá átt að banna alla vöruflutninga til bæjarins? Það sjá allir, að það er ekki mögulegt að halda slíku banni um lengri tíma. — Það er meira að segja hugsanlegt, að veikin gæti eins borizt út, þó að vöruflutningabanni væri komið á, því það er ekki mögulegt, að það geti borizt með bréfum eða blöðum? Læknar vita ekkert um þetta. Ég álít, að ekki sé hægt að halda uppi algeru vöruflutninga-, mannflutninga- og póstflutningabanni, en það er einmitt það, sem gera þarf, ef menn vilja vera alveg öruggir.

Hv. þm. S-Þ. segir, að það sé einn maður, sem beri alla sökina, þ. e. landlæknir. En hvernig má það vera, að hægt sé að ásaka einn mann um ákvarðanir, sem hann tekur í samráði við aðra menn, ef ákvörðunin er samróma? Eins og málin standa nú, og þar sem talað er um að beita innilokun, þá ber að athuga það, að veikin er nú breidd út um Eyjafjarðarsýslu, Skagafjörð, Húnaþing og hún er á Ísafirði, og læknar hafa upplýst, að tilfelli hafi verið hér í Rvík um 5 mánaða skeið. Hvaða staði á þá að inniloka, og hvernig á að haga þeirri einangrun?

Hv. þm. S-Þ. talar um það, að leikmenn hafi fyrr gripið til sinna ráða, þegar líkt stóð á, og því beri eins að gera það nú. En þetta er algerlega út í hött hjá hv. þm., og skil ég ekkert í því, af jafngáfuðum manni og hann er. Leikmenn grípa svo bezt til sinna ráða, að þeir kunni einhver ráð, en hér kunna leikmenn ekki ráð, og sé ég það ráð bezt, að Alþ. vísi málinu frá sér, þar sem það kann ekki ráð.