31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (4628)

112. mál, mænuveikivarnir

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mjög frá því, sem orðið er, umr. Ég býst við, að allir séu sammála um, að þessi veiki er mikill vágestur, sem allir óttast og við vitum, að geisar stundum sem landfarsótt. Hún gekk hér árið 1946 og var þá í Árnes- og Rangárvallasýslum. Því er þannig varið um suma sjúkdóma, að læknar vita um orsakir þeirra, og þá er auðvitað auðveldara að varast þá og ráða við útbreiðslu þeirra, þegar þeir geisa. Þess vegna geta læknar sagt mönnum um þá það, sem þeir verða að hafa hugfast til þess að varast þá. Þetta á t. d. við um inflúenzu og skarlatssótt og hefur verið gert með góðum árangri. Um þessa veiki er hins vegar það að segja, að menn vita ekki orsakir hennar. Og það eru fleiri en Íslendingar, sem standa ráðþrota gagnvart þessum vágesti, því að allur hinn menntaði heimur er jafnráðalaus, og það hefur, þrátt fyrir allar fullyrðingar, hvergi reynzt öruggt að beita sóttvörnum. Það er því ekki af neinni óvild við fólkið, að sóttvörnum hefur ekki verið beitt núna, þó að það hafi komið fram í hinum illgirnislegu ásökunum í garð heilbrigðisstjórnarinnar hér hjá einum þm.

Það er mikið rætt um samgöngubann við Akureyri, en gera menn sér þá í hugarlund nokkuð, sem dygði til þess að hefta útbreiðsluna, meðan við vitum ekki, hvernig hún berst. Við höfum grun um, að veikin berist með mönnum, en við vitum það ekki, og við vitum ekki hvernig né hve lengi veikin getur lifað meðal manna, sem virðast vera heilbrigðir. Það hefði þá orðið að vera algert samgöngubann, Það hefði enginn mátt fara þaðan allan tímann og engar sendingar fara allan tímann, það hefði orðið að vera alger einangrun. Það er fullvíst, að veikin kemur upp á Sauðárkróki eins fljótt og á Akureyri. en hún hefur þar farið hægt af stað fyrst. Sama er upp á teningnum hér, hér hefur veikin verið síðan í ágústmánuði s. l. Og hjá mér, austur í Rangárvallahéraði, voru 4 menn með veikina í haust. Það var á einum bænum í Vestur-Landeyjum, þar sem enginn hafði farið út úr héraðinu um lengri tíma né heldur nokkur komið þangað frá þeim stöðum, þar sem veikin var fyrir. Þó leggjast þar 4 menn í veikinni í október í haust. Það er ekki nóg að setja samgöngubann eða beita sóttvörnum í nokkra daga, því að heilbrigðir menn gætu alveg eins borið veikina með sér eins og sjúkir. Það er miklu hægara að tala um þetta, en að gera eitthvað að gagni, og slík samgöngubönn, sem að haldi ættu að koma, eru enginn leikur, það megið þið vera vissir um.

Ég tel það mjög ómaklegt, sem fram kom hjá þm. S-Þ. og þm. Barð., þó að það sé ekki óvanalegt, að þeir kasti hnútum að læknastéttinni; ég tel það mjög ómaklegt. Þm. Barð. ætti ekki að setja sig upp á háan hest og kasta hnútum að manni með þekkingu og reynslu prófessors Jóns Hjaltalíns. Því að þó að hann sé nú 70 ára, þá hefur hann meiri reynslu en aðrir menn og hefur unnið það vel, sem hann hefur tekið að sér, og er enn með fullu starfsfjöri. Og hvað viðvíkur því, að hægt hefði verið að hefta inflúenzuna, sem gekk hér 1918, þá vitum við um þá veiki, hvernig hún berst manna meðal. En hvernig gekk það bara 1918? Jú, það tókst að hefta hana um sinn í sumum hreppum, en hún gekk aftur 1921 og það í hrepp, sem veikin hafði ekki verið í áður. (JJ: Þetta er vanþekking og vitleysa.) Þetta er rétt. Það er enginn hægðarleikur og mjög óvíst, hvort það er nokkuð betra að setja á samgöngubann, og það er ómögulegt að segja, hvort útbreiðsla yrði nokkuð stöðvuð við það, ef þau bæjarfélög og hreppar, þar sem veikin geisar, eru þannig útilokaðir frá allri hjálp.