31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (4629)

112. mál, mænuveikivarnir

Gísli Jónsson:

Það hafa verið mjög lærdómsríkar umr. um þetta mál. Í fyrstu lýsir hæstv. ráðh. því yfir, að hann þurfi ekkert að segja annað en að mótmæla lítilsvirðandi orðum, sem ég á að hafa sagt hér um Jón Hjaltalín í sambandi við mænusóttina. Ég skil ekki í ráðh. að gera mér upp orð. Það er ekki sæmandi manni í ráðherrastöðu að halda því fast fram, að ég hafi sagt þau orð, sem ég hef aldrei sagt. Ég er hissa á því, að hann skuli ekki bera kinnroða fyrir þetta. Hvar hef ég farið lítilsvirðandi orðum um dr. Jón Hjaltalín? Ef hann heldur því fram, þá hlýtur það að vera byggt á misskilningi.

Ráðh. lýsir því yfir, að ef þessi dagskrártill. mín verði samþ., þá verði að skipta um heilbrigðisyfirvald, það verði að velja aðra menn til forustu. Við hvern á hann? Á hann við, að það verði að skipta um landlækni, eða á hann við sig sjálfan? Ég tel það ná einhverri átt, að hann hóti að fara úr stólnum. Ef hann meinar landlækni, þá væri gott að fá það fram, hvort hægt sé að treysta orðum hans. Ég get vel skilið það, að ráðh. fari að ráðum heilbrigðisstjórnarinnar, læknaráðs og landlæknis, ég gat vel skilið það og var sammála um, að svo ætti það einnig að vera í þessu máli, þangað til ráðh. flutti mál sitt hér og upplýsir þar, að ekkert hafi verið að gert. Bæjarfélögunum væri leyft að setja á samgöngubann, ef þau vildu það. Annars hefðu, engar ráðstafanir verið gerðar, sem nokkurt, vit væri í, nema þegar bann var sett á Fornahvamm. Þá snerist mér hugur, eftir að ráðh. hafði upplýst þetta. Og svo heldur ráðh. því, fram, að þetta sé flutt hér á þingi honum og hans starfsmönnum til bölvunar. Hvernig á ég að fara að greiða atkvæði með honum, sem hefur verið falið þetta mál, ef hann hefur ekki gert neinar raunhæfar ráðstafanir til úrbóta? Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er ekkert bil á milli þess að gera ekkert í málinu og þess að setja á algert samgöngubann um allt land? Það er einmitt það, sem sumir vilja, að eitthvað sé gert.

Hv. 1. þm. Rang. (HelgJ), sem er nú læknir, segir, að menn viti ekkert um veikina, og ef trúa má þeim orðum, sem ég efa, þá verður að gera því róttækari ráðstafanir.

Hvað hefur verið gert til þess að einangra Akureyri? Hvað hefur verið gert á Akureyri til þess að einangra heimili þar, þegar veikin var á byrjunarstigi þar? Svo mikið er víst, að læknastéttin þekkir það mikið til veikinnar, að hún hefur séð sér fært að gefa út tilkynningar og leiðbeiningar til fólks varðandi veikina, það hefur maður heyrt í útvarpinu, þó að þm. Rang. hafi aldrei kunnað svo mikið fyrir sér í læknisfræði. Ég geri ráð fyrir, að íbúar Rangárvallasýslu hafi ekki getað grætt mikið á ráðstöfunum hans, ef dæma má eftir afstöðu hans hér.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál hér frekar, enda hefur hv. flm. komið allýtarlega inn á það. Og þó að það hafi verið viðurkennt af öðrum ræðumönnum, þá hefur verið farið með það sem pólitískt mál hjá hinum.

Ég hefði gjarna viljað, að málinu væri vísað, til stj., ef trygging væri fyrir því, að ráðh. kynnti sér það til hlítar og gerði viðeigandi ráðstafanir, en hann virðist ekkert sjá annað við málið, en að það sé flutt honum til bölvunar og flokki hans.