31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (4630)

112. mál, mænuveikivarnir

Jónas Jónsson:

Það vill svo vel til, að þó að þeir menn, sem mest hafa látið koma til sinna kasta, nefnilega hæstv. landbrh. og hv. 1. þm. Rang., séu ekki viðstaddir, þá er hér viðstaddur hv. frsm. n., og verð ég þess vegna að snúa mér að honum, líka um það, sem þessir fráviknu hafa um talað.

Ég kem þá fyrst að því, sem ég vildi hafa sagt við lækninn, ef hann hefði verið hér, en ég sé, að hæstv. ráðh. er hér nú kominn, svo að hana getur tekið sinn part af því, það er að segja; lýsingu Gunnars bónda í Grænumýrartungu á því, hvernig aðstaða fólksins í landinu er, eftir að hvorki ráðh. né læknarnir vilja neitt gera. Þeir eru ekki að reyna að setja sig inn í þær, aðstæður eða lýsa þeim erfiðleikum sérstaklega fyrir sveitafólkinu á þessu sviði, ef veikin skyldi berast til þess.

Það þarf ekki mörgum blöðum um það að fletta, og það ætti hv. 1. þm. Árn. að geta skilið sem bóndi, að það er næstum ekki hugsanlegt annað, ef pestin breiðist frá Akureyri út um sveitirnar, en þá verði ástandið hvað verst þar, því að sveitafólkið verður að sinna sínum daglegu störfum, hvað sem öðru líður, þó að það sé velkt. Það hefur áður hér í umr. verið minnzt á þau mænuveikitilfelli, sem komið hafa í Árnessýslu, og eftir því sem mér hefur nú verið skýrt frá, má rekja þau bæði til Akureyrar. Annað er úr sveit austan fjalls, en þangað kom maður í haust frá Akureyri, af því að þar var ekkert sóttvarnarbann, og fólkið veiktist svo á þessu heimili. Þessi sama veiki kom upp í tveimur húsum á Selfossi, fyrst í öðru, hinu á eftir, og í báðum þeim tilfellum er ljóst, að veikin hefur borizt frá Akureyri. Í haust, þegar þessi faraldur gaus upp á Akureyri, reyndi sýslumaðurinn á Húsavík að fá landlækni til þess að fyrirskipa sóttvarnir, en hann var ófáanlegur til þess. Þannig hefur öll þjóðin staðið varnarlaus gagnvart þessum mikla vágesti fyrir tilverknað heilbrigðisstjórnarinnar. Það getur hver maður sem vill farið frá Akureyri inn í hvaða sveit sem er og borið þannig veikina, nema þá að hann sé beinlínis rekinn þaðan. Í þessu liggur ábyrgð heilbrigðisstjórnarinnar, að hún getur gert óframkvæmanlegar allar sóttvarnir með því að velja ekki þá forustu, sem hún getur haft. Nákvæmlega er það eins í Austur-Húnavatnssýslu. Læknirinn, sýslumaðurinn og þingmaðurinn vilja verja héraðið, en bílastraumurinn liggur frá Sauðárkróki gegnum sýsluna, og svo breiðist veikin aftur út vestan við hana eða í Vestur-Húnavatnssýslu, en þeir, sem ráða, segja, að ekkert sé hægt að gera. — Hv. varaþm. N-Ísf. kom hér í kvöld og reyndi að verja gerðir eða aðgerðaleysi heilbrigðisstjórnarinnar, samhliða því sem það kjördæmi, sem hann telur sig fyrir, er í hreinum voða. Hann lýsti því, að þegar veikin kom til Ísafjarðar, hafi heilbrigðisnefndin þar viljað reyna að hindra samgöngur. En honum kom ekki í hug, að það hefði áhrif, að skip færu á milli. Einmitt fyrir skeytingarleysi heilbrigðisstjórnarinnar er veikin komin á Ísafjörð. Samgöngur eru þær mestar við Hnífsdal og Bolungarvík, þar sem veikin er líka komin. Þar er varla sennilegt annað, en að fólkið við Djúp sé í nokkurri hættu. Þess vegna er það vægast sagt einkennilegt, að þessi hv. þm., sem telur sig annars vilja vinna fyrir þetta fólk, skuli standa hér á Alþ. og spottast beinlínis að þeim skynsamlegu tilraunum, sem ef til vill verða til þess að verja kjördæmi hans.

Hvorki lækurinn, sem talaði hér, né frsm. n. eða ráðh. hafa reynt að gera grein fyrir því, hvers vegna heilbrigðisstjórnin reyni að beita sóttvörnum í Fornahvammi. Ef þetta væri allt satt, sem þeir segja, að þeir vissu ekkert og gætu ekkert í þessum málum, já, þá er líka alveg óþarfi að vera svona út í bláinn að skipa fyrir sóttvarnir í Fornahvammi, því að fáa bæi er eins nauðsynlegt að hafa samband við vegna ferðamanna um hávetur. En það kemur alls staðar fram þetta ráðaleysi og fálm. Á Akureyri er sett skólabann um stund, svo heldur veikin áfram af fullum krafti, en skólabanninu er aflétt fyrir jól, og börn og unglingar fara heim Eins og ekkert hafi í skorizt, engar sóttvarnir og veikin heldur áfram. Maður fer suður frá Akureyri, inn í kjördæmi hv. frsm. n., hann fer ekki á fámennt sveitaheimili, hann fer að Laugarvatni og situr þar fram yfir nýár, — hann á þar heima, — hann fer svo til Akureyrar aftur. Ég verð að segja, að ég get ekki skilið hv. þm. Árn., að hann skuli vera að afsaka heilbrigðisstjórnina í þessu landi og halda því fram, að ómögulegt sé að gera neitt. Þótt Akureyri hafi verið látin vera opin og það látið ráðast, hvert veikin gæti borizt, þá hefur þó heilbrigðisstjórnin verið að sýna vald sitt öðru hvoru með því að vera ýmist að opna skólana á Akureyri eða loka þeim, eða til þess að sýna almenningi, að hún veit ekki neitt og getur ekki neitt.

Hv. 1. þm. Rang. er nú kominn í d., og ætla ég að lesa með leyfi hæstv. forseta það, sem góðkunningi okkar beggja segir, Gunnar í Grænumýrartungu. (Menntmrh.: Það var lesið upp í dag.) Gunnar segir um mænuveikina:

„Er hún hinn versti gestur, einkum á fámennum sveitaheimilum. Er ekki séð, hvernig fram úr þeim vandræðum rætist, ef hún nær að breiðast út til mikilla muna. En allir vita, hversu hættulegt það er fyrir fólk, sem mænuveiki hefur fengið, að leggja á sig mikið erfiði og vosbúð, meðan það hefur ekki náð sér til fulls, enda þótt veikin sé væg í upphafi.“

Það er hugsanlegt, að þetta kaldlyndi, sem fram kemur hjá hv. 1. þm. Rang., stafi af því sama sem kom fram í hinu fræga læknamáli í hæstarétti, þar sem læknastéttin vill vera undanþegin því að bera vitni í glæpamáli innan sinnar eigin stéttar. En hv. 1. þm. Rang. hlýtur að skilja, að þetta er dómur, sem er ákaflega hættulegur. Það er alveg furðulegt, að slíkt skuli hafa komið fyrir, og getur ekki orðið til annars en að menn spyrji eitthvað á þá leið, hvort ekki sé þá rétt, eftir þessum dómi hæstaréttar, að góður læknir, eins og hv. 1. þm. Rang., beri vitni um það, hvað læknum er yfirleitt leyfilegt. Þetta er spursmál, sem ekki getur þagnað fyrr en l. eru afnumin, þannig að það geti ekki verið hugsanlegt, að nokkur maður fái rétt til þess að hylma yfir glæp, sem einhver vinnur, aðeins ef stéttarbróðir kann að hafa verið riðinn við hann. En af því að ég þekki marga ágæta menn í læknastétt, þykir mér leitt, að þessi meinloka sé þar ráðandi.

Hv. 1. þm. Rang. vildi sýna fram á, að vegna hinnar viðurkenndu takmörkuðu læknisfræði væri ekkert hægt að gera, því að það væri ekki nóg að banna mönnum að fara frá Akureyri, heldur mætti þá ekki heldur senda þaðan t. d. bréf og blöð, og ég held, að menn geti lifað án þeirra um stund. Ég vil benda þessum hv. þm. á, sem honum virðist ekki kunnugt, að þegar inflúenzan gekk 1918, var skipað upp úr skipum með fyrirvara upp á bryggju, þannig að ekki urðu mannlegar snertingar við það. Hv. 1. þm. Rang. segir að vísu, að mænuveiki sé allt annað en inflúenza, það vissi ég líka.

Hvernig var það 1918? Þá vildu læknarnir ekki heldur gera neitt, þótt þeir nú telji sig betur þekkja þann faraldur, sem þá geisaði, en mænusóttina nú, og þess vegna hafi verið allt annað að viðhafa þá sóttvarnir, en einmitt 1918 vildu læknarnir ekkert gera fremur en nú. Það var fyrst eftir að Akureyri þá heimtaði sóttvarnir, að eitthvað var gert. (HelgJ: Það er ekki rétt.) Jú, það er rétt, enda sjá það allir, að ef læknar hefðu eitthvað viljað gera í fyrstu, hefði ekki komið til greina, að veikinni hefði verið sleppt austur. Læknarnir voru alveg á sama stigi og nú, bezt, að veikin breiðist út. En maður, sem annars gaf sig ekkert að þessu máli, þorði að skipa. Það var að vísu læknir, sem tekur við stjórn í bænum og beitir annarlegum aðferðum, en sá læknir, sem vildi sleppa öllu lausu, gafst upp. Þessi læknir, sem tók upp þessa sérstöku aðferð, fékk borgarana með sér. Hann var ekki annað, en geðveikralæknir, og hann tekur þá aðferð, sem hv. 1. þm. Rang. veit um, sem var þvert á móti því, sem nokkur læknir áður gerði, fékk teppi, vafði sjúklingana inn í þau og lét þá drekka mikið vatn og svitna, og virðist þessum lækni hafa gengið betur en nokkrum af þessum mönnum, sem þóttust vita betur, en þeir voru hræddir við heita vatnið. Hv. 1. þm. Rang. er ef til vill órólegur út af þessu. Það var dálítið leiðinlegt fyrir læknana, sem ekki höfðu trú á heita vatninu, að þeir fóru út úr spilinu og enginn talaði við þá.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að það hefði ekki verið mikið gagn að því að verja Austurland, Norðurland og Vesturland, því að svo hefði komið inflúenza þrem árum seinna, og hefði það verið sú gamla inflúenza, eða sízt betri en 1918. Það, að þm. skuli grípa til svona rökþrota, sýnir, að hann finnur, að það er engin afsökun.

Ég skal svo aðeins að lokum vekja eftirtekt þessara merkilegu sunnlenzku þm., sem kannske halda, að þeir séu langt frá eldinum með sitt fólk, á því, hve lítið gagn er að því á mörgum sviðum að treysta á svo kölluð íslenzk læknavísindi. Allir hv. þm. vita, að menn tala gáleysislega um vísindi. Allir strákar útskrifaðir úr háskólanum halda, að þeir séu vísindamenn. En þegar það er athugað betur, t. d. í sambandi við Nobelsverðlaunin, kemur í ljós, að þau eru aðeins veitt fyrir nýjungar, en ekki fyrir próf frá skólum. Enginn maður kallast vísindamaður, nema hann hafi fundið ný sannindi. En vísindi þau, sem læknar okkar eru með, eru af sama ófullkomleika og venjuleg kennsla við skóla, t. d. barnaskóla; það er allt aðfengið ljós. Hér hefur ekki verið gerð nein uppgötvun í læknisfræði, sem hefur neina þýðingu á heimsmælikvarða, og ættu því þessir læknar að koma niður á jörðina til okkar hinna, þar sem þeir vita ekkert meira en við.