31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (4632)

112. mál, mænuveikivarnir

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það verður sennilega ekki mikið að græða á frekari umr. um þetta mál. En þar sem hv. þm. S-Þ. fannst ég hafa sýnt óheyrilega fyrirlitningu á málinu og algert skilningsleysi með þeirri uppástungu að vísa því til fjvn., vil ég skýra það örlítið, ef hann gæti áttað sig á því, að það er ekki eins fjarstætt og hann heldur, að sú n. fái málið til meðferðar, alveg eins og allshn. þingsins. Ég geng út frá því, að hvað snertir mannaskipun í þessum n., kunni að vera nokkuð áþekkt, hvað við berum skyn á þetta mál. Munu vera áhöld um það, að einum manni frátöldum þó, sem á sæti í fjvn., þ e. hv. 1. þm. Rang., sem er læknir. Hv. þm. S-Þ. er nú búinn að láta í ljós skoðun sína á þekkingu læknanna, að ekki sé mikið upp úr henni leggjandi. En tæpast getur það þó skaðað, að sú þekking sé til staðar, sem hér er fyrir hendi, en á því sviði hefur hv. 1. þm. Rang. vafalaust miklu meiri þekkingu til að bera en aðrir menn í fjvn. og þá í allshn. Það er málsháttur, sem segir, að betur sjái augu en auga, og getur hann átt við hér, þar sem fjvn. er skipuð 9 mönnum, en allshn. ekki nema 7 mönnum. Þetta gæti þá verið til stuðnings því, að það væri a. m. k. ekki nein goðgá að vísa málinu til fjvn.

Annar þáttur þessa máls, sem mér skilst hv. þm. S-Þ. leggja áherzlu á, er sá, að komið yrði á samgöngubanni eða bönnum, ekki eingöngu við Akureyri heldur líka marga aðra staði. Þetta hlyti í framkvæmd að verða ekki lítið fjárhagsatriði, heldur að hafa í för með sér stór útgjöld, og sýndist mér þá ekki framið neitt brot með því að stinga upp á að vísa málinu til fjvn.

Hv. þm. S-Þ. álasar harðlega bæði heilbrmrh. og landlækni fyrir að hafa ekki komið á samgöngubanni við Akureyri og fleiri kaupstaði, þar sem veikin hefur gert vart við sig. Ég býst við því, að hver sem væri ráðherra mundi leita til landlæknis og þeirra manna, sem um heilbrigðismálin eiga að fjalla. Landlæknir hefur leitað til þeirra manna, sem til þess eru settir að ráða því, hvernig eigi að haga sér í þessu máli, þegar veikin er komin í landið. Og sú niðurstaða, sem fengin er, er einróma og byggist á því, sem gert er í öllum menningarlöndum, þar sem þessi veiki er, og því er ákaflega eðlilegt, að eftir þessu sé farið, því að það virðist svo, að það sé ómögulegt fyrir fram að vita, hvar veikin komi upp næst, hve lengi menn ganga með hana, áður en þeir veikjast o. s. frv. Allt þetta er á huldu, og veit enginn maður um hátterni sjúkdómsins. Það má náttúrlega, eins og hv. þm. S-Þ., dæma um einstaka staði eftir á og segja, að þar hefði átt að setja á samgöngubann. Að þessu sinni hefur veikin langmest gert vart við sig á Akureyri, og má þá segja, að þennan stað hefði átt að setja í sóttkví. Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á. En hvað á þá að segja um aðra staði? Hér byrjaði veikin í ágúst, og síðan hafa komið hér tilfelli öðru hvoru. Hefði þá ekki átt að byrja hér? Er ekki líklegt, að veikin hafi borizt frá R.vík norður á Akureyri? Maður veit það ekki. Samtímis því, að veikinnar verður vart á Akureyri, kemur hún upp vestur í Eyjafirði, Skagafirði, Norður-Múlasýslu, Rangárvallasýslu, Gullbringusýslu. Átti að setja samgöngubann á alla þessa staði og setja þá í sóttkví? Hefði maður viljað vera öruggur með, að veikin breiddist ekki út, hefði maður átt að gera það. Það er ekki hægt að rekja feril veikinnar, en það er vitað, að hún er víðar. En hvaðan hún hefur komið, það er gátan og ekkert hægt um það að sanna, og það er ákaflega ósanngjarnt af hv. þm. að bera öðrum á brýn kæruleysi í þessu máli.

Hv. þm. S-Þ. fór ósæmilegum orðum um landlækni, og er slíkt með öllu ósæmilegt og á ekki við, og skil ég ekkert í honum að gera það, þó að hann hafi litla trú á landlækni. Það er annað að vera mótfallinn einhverjum manni, en að viðhafa svona ummæli, að segja, að landlæknir sé fullur af meinfýsi og stæði í vegi fyrir því að hægt væri að ná í lyf. Það eru margar lyfjabúðir til að greiða götu manna hér, og stundum eru lyf nauðsynleg, stundum eru þau að engu gagni og stundum að verra, en engu gagni. En það er annað mál og ekki vert að vera að blanda því saman. Ég skal ekki fjölyrða um lyfjabúðavandamálið, en skal benda hv. þm. S-Þ. á það, að landlæknir hefur í fleiri horn að líta en koma hér upp lyfjabúðum, en á því eru mikil vandkvæði, sem stafa m. a. af því, að lyfjafræðingar eru hér of fáir. Það vita allir, hve erfitt er stundum að ná í lyf úti á landi, og verður því að hafa fleira í huga, en að setja sem festar lyfjabúðir hér í Rvík.

Hv. þm. S-Þ. þarf ekki að minna mig á það, hve miklum erfiðleikum veikindi sem þessi valda á sveitaheimilum. Ég veit það mætavel. Hitt er svo annað mál, hvernig eigi að koma í veg fyrir, að veikin breiðist út, og þó að sett hefði verið samgöngubann við Akureyri, þá eru litlar líkur til, að ekki hefði farið eins. — Hv. þm. spurði, hvers vegna hefði verið sett samgöngubann við Fornahvamm. Vitanlega var hættulegt að koma þangað, af því að þar voru sjúklingar. Skólum var lokað af sömu ástæðu. Það er annað að setja einstaka bæi í sóttkví, en heil héruð. Og ef farið hefði verið út í slíkt, hefði þurft að byrja á Rvík. Veikin kom fyrst upp í Rvík í ágúst, og síðan hafa alltaf öðru hvoru verið að koma hér fyrir tilfelli, og ef til vill hefur hún borizt héðan til Akureyrar. Á sama tíma og á Akureyri kom veikin svo upp á öðrum stöðum. En hvaðan kom hún þangað? Hvað viðkemur manni, sem kom frá Akureyri til Árnessýslu, þá er fullyrt, að hann hafi borið veikina, og ef námsmenn hefðu ekki orðið við þeirri ósk að fara ekki heim til sín í jólaleyfinu, hefði orðið að setja samgöngubann. Það er sem sagt mjög á huldu, hvort veikin hefur borizt út frá Akureyri, og reynt hefur verið víða að draga úr útbreiðslu veikinnar með því að koma sem minnst saman. — Viðvíkjandi þeim dæmum, sem hv. þm. S-Þ. nefndi, þá vita menn, hve lengi menn ganga með veikina, en þar með vita menn ekki, hvernig hún berst. Mér finnst, að málstaður hv. þm. S-Þ. sé ekki mjög sterkur. Við viljum láta heilbrigðisstjórnina hafa málið til meðferðar áfram og að hún geri sitt bezta til að ráða fram úr því. En það, sem hann leggur til, er ekkert ákveðið, og nú síðast vildi hann setja samgöngubann við Akureyri nú, þegar vitað er, að mörg sjúkdómstilfelli eru víðs vegar um landið, en veikin er að fjara út á Akureyri, svo að til lítils er að setja samgöngubann nú við Akureyri. Veikin er víða, en ekki er enn vitað um mjög mörg tilfelli, en hver veit, hve mörg þau kunna að vera? Á að setja samgöngubann við þá staði? Ég hygg, að menn muni hika við það; ef það bann á að standa lengi, mun það valda miklum óþægindum og vandræðum, svo að þetta er ekki svo einfalt sem það kann að virðast. Hv. þm. rökstuddi mál sitt með því, að veikin hefði breiðzt út á Akureyri og í nágrenni Akureyrar. Þetta er hægt að sjá, þegar reynslan hefur sýnt það. En hvað um Rvík eða aðra staði úti á landi. Vonandi verður það sem minnst, en um slíkt er ekki hægt að segja fyrir fram. Reynslan hefur fengizt á Akureyri, en hvernig verður með hina staðina? Ég vænti þess, að heilbrigðisstjórnin reyni að hefta útbreiðslu veikinnar, og ég veit, að hún hefur fullan hug á að gera það, og ég veit, að hún mun gera sitt bezta, og þá er ekki hægt að komast lengra.

Hv. þm. S-Þ. endaði ræðu sína á því, að ef illa færi, yrði skuldinni skellt á þá, sem að þessum málum eiga að vinna, en mér skilst, að hv. þm. verði betur að tiltaka, hvað gera skuli, ef gagn á að verða að því