31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (4633)

112. mál, mænuveikivarnir

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Það er enn óhrakið, sem ég sagði í dag, þrátt fyrir ræðu hv. þm. S-Þ., sem reyndi að færa allt til verri vegar. Hv. þm. sagði, að læknavísindin væru stutt á veg komin og læknar ófróðir. Það er rétt, að enginn viti neitt um, hvernig smitun hagar sér í vírussjúkdómum, og við vitum ekkert um, hvernig vírusbakterían hagar sér. Það er engin skömm að játa þetta, það veit þetta enginn. Það er vitað, að mænusóttin kom erlendis frá. Hún hefur víða verið, en ekki hefur verið reynt að koma á samgöngubanni, þar eð við vitum ekkert um vírusbakteríuna.

Hv. þm. sagði, að inflúenzan 1918 hefði verið heft sums staðar á landinu. En 1921 kom hún aftur til landsins og þeir, sem sluppu við hana 1918, fóru þá verr út úr veikinni en þeir, sem fengu hana 1918. 1924 kom mænusóttin hingað og var mjög skæð. Hún byrjaði í Reykjavík og var mjög mannskæð og margir dóu. En engum sóttvörnum var þá beitt og ekki minnzt á slíkt og ekki talið, að það svaraði kostnaði, enda skoðun, sem kæmi að litlum notum nú. 1946 gekk hún um Suðurland og komu þar bæði fyrir dauðsföll og lamanir, en ekki var minnzt á að setja samgöngubann. En Akureyri hefur orðið verst úti, og hefur veikin oft komið þar upp. Veikin mun nú vera víða um land og tilgangslaust að setja samgöngubann á þau héruð, þar sem hún er nú. Það er ekki auðvelt að setja stóra bæi eða héruð í sóttkví. Öðru máli gegnir um einstaka sveitabæi, eins og t. d. Fornahvamm. Einstakir menn geta sett hjá sér sóttkví, og fólk þarf fyrst og fremst að vera nógu hrætt, eins og 1918, og er þá miklu auðveldara að framfylgja banninu. Ýmsir bæir tóku á móti gestum frá Akureyri um jólin. Það hefði verið hægt að banna slíkt, en þegar ekki er hægt að sjá eða vita, hvernig veikin berst, þá er það tilgangslaust. Það er með þessa veiki eins og kreppuna, að enginn veit neitt um hana.

Það var annað, sem kom fram hjá hv. þm. S-Þ., þegar hann var að tala um lækna. Hann sagði, að þeir hylmuðu yfir mál með sjúklingum sínum. Þetta er misskilningur, ef ekki annað verra. Hann sagði, að landlæknir hefði heimtað, að læknar segðu frá slíku. En þetta er allt misskilningur. Dómsmrn. fór í mál út af því, hvort læknum bæri að segja frá því, sem sjúklingar þeirra tryðu þeim fyrir, — en þeir eru ekki skyldir til þess samkv. l., og úrskurðurinn var sá, að þeir þyrftu ekki að gera það. En ef um glæp er að ræða, geta dómstólarnir krafið þá um að segja frá. Sjúklingarnir verða að hafa slíkt öryggi, og því fylgja læknar.

Ég held, að það hafi ekki verið fleira, sem ég þurfti að svara hv. þm. S-Þ. Það eru miklir erfiðleikar, sem þessi veiki veldur, og hún er mikill vágestur, þar sem hún kemur. Hún getur komið þegar minnst varir, þótt allir óski eftir að vera lausir við hana, en menn eru bara ekki herrar yfir slíku. — Ég þarf ekki að ræða þetta mál frekar. Það er komið fram, sem þörf er á, og ég veit, að þjóðin tekur mark á þeim mönnum, sem þessum málum stjórna.