31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (4634)

112. mál, mænuveikivarnir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég bar hér fram rökst. dagskrá í sambandi við þetta mál, um að vísa því til hæstv. ríkisstj., til að hún gerði einhverjar raunhæfar ráðstafanir í þessu efni. Hæstv. heilbrmrh. lýsti því yfir, að ef hún yrði samþ., yrðu aðrir að taka við þessum málum. En það er ekki alveg ljóst, hvað hæstv. ráðh. átti við, hvort hann ætlaði að segja af sér eða víkja landlækni úr embætti. Því hefur ekki verið svarað.

Þá spurði ég, hvort hæstv. ráðh. sæi ekkert bil á milli algers samkomubanns eða gera ekkert. Því var ekki svarað. Þá spurði ég, hvort alþjóð hefði farið eftir þeim fyrirmælum, sem læknastéttin hefði sett. Því var ekki svarað, en reynt að snúa sig út úr því og haldið fram, að ég hefði sagt með fyrirlitningu, að ekkert annað hefði verið gert, en senda gamalmenni til Akureyrar. Er það þá svívirðing að ræða um aldur manna? Ég skil ekki í því, að hæstv. ráðh. hafi komizt í það ástand í sambandi við þetta mál, að hann geti ekki einu sinni haldið sér við almenna siðfræði í umr. um málið hér á Alþ. Það er fyrir utan allt velsæmi, að hæstv. heilbrmrh. skuli leyfa sér að koma með svona þvaður, þegar mál eins og það, sem hér liggur fyrir, er á dagskrá. Ég get fullyrt það, að hafi ég lagt fyrirlitningu í rödd mína, þá hefur henni verið beint til ráðh., en alls ekki til þess merka manns, sem hann hefur nú beitt fyrir sig. Það hefur verið upplýst hér í umr., að hv. flm. till. hefur á mjög mildan hátt sett fram ósk um, að beitt yrði viðeigandi samgöngubanni. Það var algerlega á valdi ríkisstj. að gera þetta, og það hefur sjálfsagt í mörgum tilfellum verið beitt viðeigandi samgöngubanni, m. a. einangrun, eins og hér hefur komið fram. Þetta gaf því hæstv. ráðh. ekki tilefni til þess að fullyrða, að till. væri flutt til þess að gera honum og flokki hans bölvun. Brtt. mín gaf síður en svo tilefni til þess, að málið yrði af hans hendi gert að stórpólitísku máli, með þeirri hótun frá honum, að ef hans vilji fái ekki fram að ganga, og eftir að hann sjálfur hefur ekkert látið gera eða óskað eftir, að gert yrði til að bæta úr því, sem bæta þurfti; þá muni hann segja af sér. Meðferð ráðh. á þessu máli er þannig, að ég öfunda hann ekki af henni.