31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (4635)

112. mál, mænuveikivarnir

Jónas Jónsson:

Hv. 1. þm. Árn. fann, að hann hafði ekki haft heppilegan framgangsmáta, þegar hann sýndi þessu máli lítilsvirðingu með því að stinga upp á, að því yrði vísað til fjvn. Hv. þm. veit það vel, að málum, sem heyra undir menntmn., er vísað til menntmn., þó að þau kosti eitthvað og málum, sem heyra undir landbn. og sjútvn , er vísað til þeirra n., þó að þau kosti eitthvað, — að almennum málum er vísað til allshn., þó að þau kosti eitthvað, og til fjvn. fara hrein fármál. Þegar hv. þm. í ógætni, gáska, kátínu og léttúð ætlar að hjálpa sinni stj. og sínum landlækni með uppástungu sinni, þá er hann að sýna málinu lítilsvirðingu. Þetta er líkast því sem spurt væri, ef börnin lægju veik í barnaveiki: Ætli það borgi sig að fá lækni, hvað kostar það? Hverju skiptir, þó að þúsund menn séu veikir á Akureyri? Það er bara spurt um, þegar rætt er um að stöðva útbreiðslu veikinnar: Hvað kostar það? — Hv. 1. þm. Árn. og hv. 1. þm. Rang. hafa sagt, að sóttvarnir gegn mænuveikinni hafi hvergi komið til greina. Það er næstum því engin lítilsvirðing, úr því að lærðir læknar vita ekkert um þetta, fyrir okkur hina að segja: Mér er ókunnugt um, hvaða aðferðir eru hafðar í þessum efnum í öðrum löndum. — En það er annað, sem ég veit og allir hér inni. Það hafa ekki í neinu landi verið settar gaddavírsgirðingar utan um sjúkar kindur, eins og gert var hér utan um pestargemlingana okkar. Hvernig fengum við þessar girðingar? Við fengum þær ekki fyrir sérþekkingu. Öll sérþekking á því máli var, þó að einkennilegt sé, einskis virði. Svo var tekið upp það ráð að taka upp sóttvarnir fyrir kindur, sem hvergi hafa verið framkvæmdar annars staðar. Þetta er dálítið skrýtið. Þessar sóttvarnir kostuðu milljónir. Við leyfðum okkur þetta, en við tókum ekki þetta ráð fyrr en við höfðum gefið upp alla von um, að sér þekkingin dygði. Við höfum gengið inn á þá braut að bjarga okkur sjálf, þegar þekkingin gefst upp. Þannig hefur þetta gengið í mínu kjördæmi. Ég býst við, að allar sveitir væru þar í eyði, ef ekki hefðu verið önnur ráð til bjargar en þau, sem vísindamenn fyrr og síðar hafa lag til. Þekkingarleysið hefur í þessu tilfelli unnið algeran sigur yfir hinni svokölluðu þekkingu.

Hv. 1. þm. Árn. er enn þá undarlega hrifinn af því að halda opnum samgöngum við Akureyri. Eftir því sem mér er kunnugt um, eru þúsund manns meira eða minna veikir þar. Það er næstum því til minnkunar fyrir þennan dugandi og reynda þm. að halda langar ræður og bera saman Akureyri, þar sem þúsundir manna hafa veikzt, og eitt og eitt tilfelli úti um landið. Menn verða að hafa vondan málstað, þegar rökin eru svona. Það hefði enginn hugsað sér að setja gaddavírsgirðingu, ef mæðiveikin hefði aðeins verið smávægilegur sjúkdómur. Það getur enginn sagt, sem hugsa vill alvarlega um málið, að það sé ógurlegur skaði að grípa til sterkra ráða.

Ég vil svo að endingu spyrja hv. 1. þm. Árn., hvort hann sé sannfærður um, að það sé svo óendanlega mikils virði fyrir þjóðarbúskapinn, að tíðar samgöngur séu við Akureyri og Sauðárkrók. Ég segi nei. Akureyri lagði það á sig 1918 að loka sig úti frá öllum samgöngum. — Ég get sagt hér dæmi um það, hve mikið tilgangsleysi og hve mikil léttúð kemur fram í samgöngunum við Akureyri nú. Ungur maður, sem býr hjá giftri systur sinni, sem á ung börn, fór nýlega norður, á móti ráðum systur sinnar. Þegar hann kom að norðan aftur, ætlar hann beint inn á heimili hennar. Systir hans segir: „Nei, þú kemur ekki inn í þetta hús fyrst um sinn, ég veit ekki, hvað þú kemur með.“ Skyldu það hafa verið eitthvað ólíkar tilfinningar, sem hafa gripið móðurina eða hina reyndu og lærðu menn, sem gera gys að því, sem fyrir hefur komið hér. — Annað dæmi er hér. Þingmaður fór norður og kom í hús, þar sem veikin var. Þegar hann kom aftur, varð það að samkomulagi, að hann kæmi ekki fyrst um sinn í húsið, sem hann hafði dvalið í. Getur ekki hv. þm. skilið muninn á þessari menningu og hinu, að fyrir óþarfa léttúð er ekkert gert til þess að hindra útbreiðslu veikinnar um allt landið? — Hv. 1. þm. Rang. sá nú, að það var óheppilegt að halda því fram, að veikin frá 1918 hafi verið hér 1921. Við getum sætzt á það, að sú veiki var stöðvuð. Heilbrigðisstjórnin vildi ekki sóttvarnir til að byrja með, en síðan komu þeir dauðu í Rvík, og þá sá kænn og laginn maður, Jón Magnússon, að það var betra að hafa sóttvarnir. Hann fékk svo menn, sem ekki létu landlæknisembættið í Rvík hindra sig frá að segja skynsamlega hluti. Leikmennirnir sögðu sitt, og málið var tekið úr höndum landlæknis, þó að hann væri annars góður maður, þó að honum sæist yfir í þessu máli. Hv. 1. þm. Árn. hélt, að hann gæti skotið landlækni undan allri ábyrgð í þessu máli. Það hefur ekkert verið gert á Akureyri til að halda veikinni í skefjum. Þetta verður ekki af landlækni skafið. Hvers vegna gerir landlæknir þetta? Þetta er sami maðurinn, sem gerir eins óþarfan hlut og að standa í vegi fyrir því, að fólkið geti fengið lyfjabúðir. Það eru þúsundir manna hér í Reykjavík, sem vantar lyfjabúðir. Ég lét stofna tvær af þessum lyfjabúðum, sem hér eru reknar. Ég gekk beint að verki og fékk dugandi menn til að standa fyrir þeim. Svo liðu 20 ár og aðrir menn hafa vanrækt að halda þessu áfram. Hér í bænum eru þúsund búðir, en ekki nema 4 lyfjabúðir. Hvers vegna þarf fólkið í Kópavogi og Kleppsholti að taka dýra bíla í bæinn til þess að ná í lyf? Hvers vegna þarf að vera það mikil ös í hinum stóru lyfjabúðum miðbæjarins, að menn fá sig ekki afgreidda fyrr, en eftir langa bið? Hér eru til margir menn, sem gætu tekið að sér að reka lyfjabúðir, og ég held, að líka mætti fá til þess danska menn, úr því að flytja þarf inn í landið danskar og þýzkar hjúkrunarkonur. Við höfum haft ágæta útlenda menn fyrir lyfjabúðum hér áður. Hv. 1. þm. Árn. þarf ekki að hugsa, að hér sé neitt spaug á ferðinni, og honum tekst ekki að koma ábyrgðinni af landlækni í þessum málum, því að sökin stendur eftir sem áður. Þetta hefur verið vanrækt. Veikin breiðist út og getur valdið miklum hörmungum.

Svo kem ég að því að svara hv. 1. þm. Rang. (HelgJ). Hv. þm. veit það vel, að samkv. l. eru fóstureyðingar ekki leyfðar hér á landi nema á Landsspítalanum. Ef aðrir menn gera þetta, hvort heldur það eru læknar eða leikmenn, þá er það talinn glæpur. Það er tilgangslaust fyrir hv. þm. að neita þessu. Ágætur og reglusamur héraðslæknir fær sjúkling, sem segir frá því að hafa fengið þessa aðgerð á ólöglegan hátt, og þar af leiðir, að einhver maður er til sem hefur framið glæpinn. Það kemst ekki upp, hver hann er. Hvað stendur í veginum fyrir því? Það er bara það, að læknirinn vill ekki segja frá glæpnum, jafnvel þó að hann sé mjög heiðarlegur maður. (HelgJ: Hann má það ekki.) Hvers vegna má hann ekki segja frá glæp? (HelgJ: Honum er bannað það samkv. l.) Það var einmitt þetta, sem ég vildi fá fram hjá hv. þm. Nú er hann búinn að játa, að samkv. l. eigi læknar að hylma yfir glæpi. Þarna hefur verið framið morð, og læknirinn má ekki segja frá því.