31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (4637)

112. mál, mænuveikivarnir

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég býst við, að hv. þm. S-Þ. sé það ljóst, að um leið og læknir fær læknisleyfi, er hann látinn skrifa undir ýmsar skuldbindingar, sem honum er samkv. l. skylt að halda. Ein skuldbindingin er sú, að lækninum er stranglega bannað að skýra frá því, sem sjúklingurinn trúir honum fyrir sem lækni. Honum er bannað það, og hann má ekki gera það, nema hann sé með dómi leystur frá sínu þagnarheiti. Í þessu tilfelli vitum við, að mál er á döfinni um fóstureyðingu, og ýmsir læknar hafa gefið um það vottorð. En þeir hafa ekki talið sér heimilt að skýra frá því, nema dómstólarnir dæmdu þá til að gera það. Þessu máli var vísað til dómstólanna. Hæstiréttur hefur fyrir fáum dögum dæmt í málinu, þannig að lækninum var ekki skylt eða mátti ekki í þessu tilfelli rjúfa þagnarheit sitt. Ef hér er um sök að ræða, þá er hún hjá hæstarétti, en ekki læknunum. Ef dómararnir hefðu sagt, að þeir ættu að gera það, þá hefðu þeir gert það. Þetta liggur ljóst fyrir. Það getur vel verið, að í þessu tilfelli hafi rétturinn litið svo á, að nauðsynin á því að skýra frá því, sem hér um ræðir, hafi ekki verið svo knýjandi, að það mætti upplýsa málið á annan hátt. En dómurinn féll á þennan hátt. Það er því ekki sök læknanna, þó að þeir þegi.