08.12.1948
Sameinað þing: 25. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (4680)

29. mál, vöruskömmtun o.fl.

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða margorður, en vil aðeins segja örfá orð út af seinni ræðu hæstv. ráðh. Hann minntist á það, að ég hefði eiginlega misskilið þetta, þar sem ég teldi, að það væri skömmtunin sjálf, sem hefði verið tekin til þess að spara gjaldeyri. Hún ætti ekki að vera til annars en að dreifa vörunum réttlátlega, en ég hefði ekki kunnað að greina þarna á milli. Ég vil þá geta þess í sambandi við þetta, að ég veit ekki betur en að þetta skömmtunarkerfi sé undir yfirstjórn fjárhagsráðs og allt þetta kerfi undir yfirstjórn hæstv. viðskmrh. Það er að vísu rétt hjá hæstv. ráðh., að hlutverk skömmtunarinnar er eingöngu það að dreifa vörunum réttlátlega, en það liggur fyrir sú staðreynd, að þetta hefur bara alls ekki tekizt. Það er m. a. viðurkennt og það af þeirri n., sem um þetta fjallar, að bakdyraverzlun eigi sér stað í sambandi við þessi mál, og sýnir það eitt, þótt ekki væri annað, að þetta hefur ekki tekizt. Ráðh. vildi halda því fram, að þessi mismunur mundi verða enn meiri, ef skömmtunin væri lögð niður, og má það vera rétt, ef ekki væri neitt bætt úr þeim göllum, sem eru á innflutningnum, en tilgangurinn með þessari till. er fyrst og fremst sá, að úr þessu skuli bæta og séð verði um, að nógur innflutningur sé fyrir hendi til þess að mæta því skömmtunarmagni, sem gert er ráð fyrir, að allir einstaklingar fái.

Þá vildi ráðh. mótmæla því, að hann hefði skipað þessa n., heldur hefði fjárhagsráð skipað hana sjálft. Það getur verið rétt, en haggar ekki því, að þótt ráðh. hafi aðeins skrifað fjárhagsráði, en ekki tilnefnt sjálfur menn í n., þá hefur hann sjálfur falið fjárhagsráði að annast endurskoðun þessara mála, endurskoðun á sínum eigin gerðum. Með öðrum orðum, hér stendur óhögguð sú staðreynd, sem ég minntist á, að þeir, sem hefur verið falið að rannsaka þetta, eru þeir sömu menn, sem hafa stjórnað þessu hingað til með þeim árangri, sem þegar er kunnur orðinn. Þetta er hliðstætt því, ef forstjóra einhverrar stofnunar væri falið að hafa endurskoðun á hendi í þeirri stofnun, sem hann réði sjálfur, en venjan er sú að skipa hlutlausa menn til þeirra hluta.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, því að ég vil ekki tefja, að málið fái afgreiðslu.