10.02.1949
Sameinað þing: 38. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í D-deild Alþingistíðinda. (4725)

53. mál, Consol-radioviti

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan þessi þáltill. var lögð fram hér í Alþ. Hún hefur oft verið á dagskrá, en aldrei tekin til umr. Tilgangurinn með henni er sá að óska eftir, að athugað verði, hvort ekki væri hægt að bæta nokkuð það ástand, sem nú ríkir í vitamálum hér á landi, og byggja fleiri vita með skjótara móti við langa og vogskorna strönd landsins. Mikið hefur þegar verið gert í þessum málum og mikið fé lagt fram til að greiða fyrir samgöngum. En enn vantar mikið á og miklar eyður í vitakerfi landsins. Árlega er varið miklum fjárhæðum til vitabygginga. En vitarnir kosta mikið og langur tími mun liða, unz siglingar eru öruggar. — Ég rakst nú fyrir nokkru á blaðaskrif um þessa uppfinningu. Sjálfur hef ég enga sérþekkingu á þessu sviði, en styðst aðeins við það, sem ég hef lesið um málið. Þessi gerð vita var fundin upp af Þjóðverjum nú á stríðsárunum. Það er talið, að með byggingu slíkra vita megi bæta allverulega úr vöntun vita og fylla upp í vitakerfið tiltölulega ódýrt, eða eins og kostar að byggja 1 vita. Þessu er nánar lýst í greinargerð, og þar geta þeir, sem áhuga hafa á þessu, lesið um þetta. Það, sem vakti fyrir mér, og það, sem ég vildi, að Alþ. beitti sér fyrir, er það, að þeir menn, sem um þessi mál fjalla, athuguðu, hvort ekki væri ástæða til fyrir okkur að hagnýta okkur þessa uppfinningu. Ég hefði því viljað, að einn viti yrði byggður til reynslu. Ég hef ekki þekkingu á, hvort það mundi fullnægja þörf okkar. Um það verður að leita til sérfræðinga, svo sem vitamálastjóra, flugmálastjóra og verkfræðinga landssímans. — Ég vil benda á það, að verði málinu frestað við þessa umr. og sent til n., að hún leiti til sérfræðinga um það, að hve miklu gagni þetta mundi geta orðið. Ýmsar fleiri uppfinningar koma til greina, og ætti einnig að athuga þær. En eftir því sem mér skilst, útheimta þær dýrari tæki, ekki aðeins til að koma upp stöðvunum í landi, heldur einnig í skipum og flugvélum, heldur en þessi Consoltæki, þar sem hægt er að notast við venjuleg útvarpsviðtæki. Og sé öryggið nægilegt, er það mikill kostur, að tækin séu ódýr. — Ég ætla nú ekki að fjölyrða um þetta. Tilgangurinn er aðeins sá, að þetta verði rannsakað, og leiði rannsóknir í ljós, að þeir séu heppilegir, þá verði gerðar ráðstafanir til þess að reisa 1 vita, annaðhvort með sérstöku framlagi úr ríkissjóði eða þá af fé því, sem varið er til vitamála. Ég tel þó hið fyrra heppilegra. En það, sem fyrst og fremst vakir fyrir mér, er, að þetta verði rannsakað.