27.01.1949
Efri deild: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

36. mál, útflutningur og innflutningur á íslenskum og erlendum gjaldeyri

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Af því að ég er einn af flm. þess frv., sem að nokkru leyti er samhljóða því frv., sem hér er til umr., vil ég geta þess, að hæstv. forseti talaði við mig áður en hann tók frv. á dagskrá, og kvað ég mig ekki mótfallinn því, að þetta mál gengi til 3. umr., en umr. í n. um frv. það, sem ég er flm. að, hafa tafizt, þar sem ég var í burtu, en mér finnst dálítið óviðkunnanlegt, ef málin verða ekki að einhverju leyti rædd saman, því að í þeim báðum kemur fram sama atriðið. Ég hygg, að frv. okkar muni koma til umr. næstu daga, og óska því, að þetta mál bíði þar til það kemur.