02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (4746)

58. mál, innflutningur raftækja til heimilisnota

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það er nú fremur þunnskipað í hv. d., svo að ekki er ástæða til að flytja hér langa ræðu, þó að þetta mál eigi það vissulega skilið, að því sé gaumur gefinn. Þessi þáltill. er, eins og menn sjá, um það að skora á ríkisstj. að greiða fyrir innflutningi raftækja til heimilisnota, og þá jafnframt skorað á ríkissstj. að sjá um, að nægilega mikið af raforkuvörum til orkuveitna og rafleiðslna til heimila verði fluttar til landsins.

Það er máske þannig háttað í okkar fjármálum, að ekki sé unnt að sinna slíkum málum eins og menn hefðu gjarna vilja til og þörf fyrir, en ég vil mega vona, að hæstv. ríkisstj. geri sér far um að greiða fyrir því eftir því, sem getan frekast leyfir. Þar sem raforkan er komin, er vitanlega nauðsynlegt, að fólk geti fengið þau allra nauðsynlegustu tæki, eins og t. d. eldavélar og annað þess konar. Þá er og mikil nauðsyn á því, að greitt sé fyrir því, að raforka geti dreifzt út um byggðirnar, og vil ég telja það mjög nauðsynlegt, að aflað sé þeirra hluta, sem til þess þarf, svo sem efnis til orkuveitna og rafveitna út um byggðir landsins. En þó að þau algengustu tæki komi ekki til þeirra staða, þar sem orkuveita er í smíðum, þá sakar það minna, þá ætti röðin þar fyrst að koma að, þegar orkuveitan er komin, en þá er líka sjálfsagt, að slíkar veitur komi að gagni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þessa þáltill. Ég geri það að till. minni, að umr. um þetta mál verði frestað og málinu vísað til fjvn.