02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (4754)

62. mál, framleiðsla raftækja innanlands

Einar Olgeirsson:

Það er mjög slæmt, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki vera hér. Þetta er mjög eftirtektarverð till., sem ég álít, að heppilegt væri, að ríkisstj. gæfi okkur upplýsingar um við þessa umr., hvernig skilyrði eru fyrir hendi að framkvæma hana. Eftir því sem upplýst hefur verið af flm. till. og ég hef fengið staðfest annars staðar frá, er það alveg rétt, að Rafha í Hafnarfirði, sem að nokkru leyti er ríkisfyrirtæki og stendur þannig mjög vel að vígi að geta framleitt rafmagnstæki innanlands, getur nú ekki unnið með fullum afköstum vegna efnisskorts. Það hefði þess vegna verið æskilegt, að við hefðum nú þegar við fyrri umr. málsins fengið það upplýst frá hæstv. viðskmrh., hvernig fyrirhugað er að haga innflutningi á eldavélum og öðrum rafmagnstækjum, sem Rafha getur framleitt, í þeirri áætlun, sem liggur fyrir viða víkjandi þessu frá fjárhagsráði og ríkisstj. Það er vitanlegt, eins og segir í grg. fyrir þessari till., að það er hægt að fullnægja þessari þörf hér á landi. En ég hef heyrt, að í innflutningsáætluninni, sem liggur fyrir, — ég veit ekki, hvort hv. þm. Barð. hefur þá áætlun undir höndum, en ég heyrði á umr., sem fram fóru í dag, að hann mun hafa nokkrar upplýsingar, sem fjvn. hefur fengið viðvíkjandi þessari áætlun, — en það væri mjög æskilegt að fá upplýsingar um þetta, áður en málið fer til n., hvort það er rétt, að í áætluninni sé reiknað með of litlu hráefni handa Rafha, svo að aðeins 3/4 hlutar þess vinnukrafts, sem fyrir er, geti starfað, en í stað þess eigi að úthluta gjaldeyri til heildsölufyrirtækja, sem flytja inn erlendis frá fyrir upphæð, sem mundi, eins og hér er réttilega sagt frá, verða ferföld hvað hlutfallsmagn snertir, ef Rafha fengi að nota hana. Sem sagt; það er gert samkomulag með fjárhagsráði og ríkisstj. um það, að vissir aðilar, sem ríkisstj. er annt um, fái þennan innflutning á kostnað Rafha, svo að möguleikar Rafha séu ekki hagnýttir til fulls.

Það er eins með þessa till. og aðra, sem verið var að ræða hér, að Alþ. vill gjarna geta tekið ákvörðun um þessi mál og ákveðið sjálft, hvernig innflutningi er hagað, og tekið sjálft á sig ábyrgðina. Nú er verið að afgreiða þessa áætlun, — við höfum heyrt, að ekki sé samkomulag innan ríkisstj. um hana og jafnvel ekki innan fjárhagsráðs, og þess vegna er ekki nema eðlilegt, að Alþ. segi sitt orð um þá afgreiðslu. Ef á að taka tillit til sérhagsmuna nokkurra heildsala í Reykjavík og eyða gjaldeyri til kaupa á eldavélum, sem Rafha getur framleitt, þá nær það náttúrlega ekki nokkurri átt. Þess vegna þykir mér leitt, að svona mál skuli vera tekin fyrir á kvöldfundi, svo framarlega sem ríkisstj. sér sér ekki fært að sitja kvöldfund. Svona mál er tekið fyrir til þess, að ríkisstj. geti tekið tillit til þess, og ríkisstj, þarf að geta flutt fyrir þingið sínar athugasemdir og upplýsingar viðvíkjandi þessu máli, og við þurfum að sýna og geta lagt dóm á þær upplýsingar og þá stefnu. En þetta er vitaskuld ekki hægt, ef ríkisstj. er hvergi nærri. En hins vegar sé ég ekkert á móti því að hafa kvöldfund.

Nú vill svo til, að hæstv. viðskmrh. er formaður fyrir Rafha og fulltrúi ríkisstj. þar. Þar er því um að ræða fyrirtæki, sem ríkið sem eigandi hefur hagsmuna að gæta, að sé rekið með skynsemi, og enn fremur fyrirtæki með stórauknum vélakosti á síðustu árum með gjaldeyrisleyfum frá nýbyggingarsjóði, og ætti þess vegna alveg sérstaklega að miða að því að gera þetta fyrirtæki fært um að framleiða sem allra mest. Við rekum okkur á það viðvíkjandi svo að segja hverju einasta stórfyrirtæki innanlands, að það eru hagsmunir nokkurra heildsala í Reykjavík, sem standa svo á móti þjóðarhagsmunum, að menn fá ekki að kaupa hráefni til þeirra fyrirtækja, svo að þau fá ekki að starfa af fullum krafti fyrir ofríki þessara manna, sem heimta að fá að græða á því að flytja viðkomandi tæki fullunnin erlendis frá, jafnvel þótt þau séu miklu dýrari. Þess vegna endurtek ég það, að það er mjög slæmt, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki vera við og geta gefið okkur upplýsingar um þessa verksmiðju, sem ég veit, að hann er nákunnugur. Þetta mál fer til allshn., og vonandi, að verði tækifæri fyrir þingið, annaðhvort af hálfu þeirrar n. eða við framhaldsumr. um málið, að fá þær upplýsingar, sem liggja fyrir.

Hvað snertir 2. lið þessarar þáltill., þá tel ég varhugavert, sem þar er farið fram á, að stofna ný fyrirtæki til framleiðslu á ýmsum raftækjum. Það er svo í okkar iðnaði, að of mörg fyrirtæki eru rekin. Hvað snertir framleiðslu fyrir innanlandsmarkað, þá ætti ekki að hafa nema eina verksmiðju í hverri grein, til þess að verða tæknilega praktísk. Ein verksmiðja í hverri grein getur framleitt allt, sem landið þarf, og einungis með því fyrirkomulagi er hægt að framleiða ódýrt og hafa tæknilega fullkomnastar vélar, afkasta til hins ýtrasta, og vinnukrafturinn sparast þar mest. Það er vitanlegt, að ein smjörlíkisgerð getur framleitt allt smjörlíki, sem landið þarf. Þannig er það í mörgum greinum okkar iðnaðar. Nú þori ég ekki að segja, hvernig það mundi verða hvað snertir rafmagnstæki, en mér er nær að halda, að framleiðsla eldavéla sé það skyld hvað ýmislegt annað snertir í rafmagnsiðnaði, að mætti hafa alla þá framleiðslu í sömu verksmiðjunni. Allur úrgangur notaðist betur, allar pantanir gætu farið saman, allt, sem í þessa hluti á að fara, hagnýting véla, hagnýting mannafla verður betri með því, að þetta sé í einu og sömu verksmiðjunni. Ef við Íslendingar ætlum að framleiða með sem fullkomnustum tækjum, verðum við að skipuleggja okkar framleiðslu þannig að framleiða í eins stórum stíl og hægt er. Ég veit, að þetta rekst á hagsmuni einstakra einstaklinga. Ef þessi plön yrðu framkvæmd, að hafa eina verksmiðju í hverri grein, þá mundi með góðu skipulagi og samvizkusömu eftirliti hægt að pína út lægsta verð á vörum framleiddum innanlands. Hins vegar ef á að nota þann kost að hafa frjálsa samkeppni og menn undirbjóði hver annan, þá eru verksmiðjurnar íslenzku síður en svo of smáar. Ef allar verksmiðjur hafa of lítið hráefni, verður reksturinn dýr, og þá verður afleiðingin sú, að varan verður of dýr, og þegar slíkar verksmiðjur hafa verið reknar með tapi nokkurn tíma, endar það með því, að framleiðendurnir slá sér saman í hring og einn heldur svo áfram, en álagningin á vörurnar er látin vera sú sama og áður, og neytendurnir fá að borga. Þess vegna held ég, að það væri mjög varhugavert að stuðla að því, að stofnuð verði slík ný fyrlrtæki. Ef það reyndist svo, að Rafha gæti framleitt miklu fleiri tæki, þá er eðlilegra að gera slíkt fyrirtæki stærra og sterkara, svo framarlega sem við ætlum að framleiða sem ódýrast. Hitt spursmálið kemur svo á eftir, hvort við stjórnum okkar þjóðfélagi þannig, að við hagnýtum orkuna í verksmiðjunum. Ég held, að það sé ákaflega ópraktískt að fara að eyða peningum í kapítalvörur, ef við höfum fyrirtæki fyrir, sem geta framleitt meira en þau hafa gert hingað til. Og að tvísetja eða margsetja vélar í sömu grein til að framleiða hér, þegar svo að segja ein vélasamstæða getur framleitt það magn, sem þarf, er tæplega æskilegt. Þessu vil ég fyrst og fremst skjóta fram til athugunar, áður en málið fer í n., til þess að hún geti athugað þennan síðari hluta gr. vel.