02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (4756)

62. mál, framleiðsla raftækja innanlands

Eiríkur Einarsson:

Ég ætla lítið að blanda mér í umr. um þetta merkilega málefni. En þrátt fyrir þá þörf, sem hæstv. forseti telur á því að halda kvöldfundi, og þótt vafamál sé, hvort till. sem þessi, sem nú er rædd, fær notið sín vegna mannfæðar á fundi, þá vil ég segja það, að þessi till. og sú næsta á undan á dagskránni um þetta mikilsverða málefni eru þess virði að vekja eftirtekt hv. þm. á, svo að þeir gætu átt þess kost að athuga málið. Hitt er ekki á valdi forseta, hve vel eða illa eru sóttir fundir. En það eru önnur mál, sem hafa verið rædd í þinginu, sem eru mál kjaftæðisins eins, og þau mætti gjarna ræða á kvöldfundi með tveimur, þremur eða fjórum áheyrendum úr hópi þm., en þetta mál er ekki þess eðlis.

En það, sem ég vildi sérstaklega hreyfa við viðvíkjandi þessari tili. og þeirri, sem rædd var hér næst á undan, sem er nokkuð svipaðs eðlis - og er gott og blessað, að komnar eru fram, — er það, að talað er um, að flutt verði til landsins, eins og frekast er unnt, algengustu raftæki til heimillsnota, eins og þar greinir.

Ég geri ráð fyrir, að fjöldi þm. vilji stuðla að því, að aflað sé nauðsynlegra tækja, eins og jeppanna og þeirra, sem hér ræðir um. En aðferðirnar við að afla þessara tækja hafa verið vefengdar, og það er hin mesta nauðsyn, að svo sé um hnútana búið, að þau tæki, sem aflað er, komi að sem mestum notum. Þess vegna vildi ég, að í stað almennra og hvetjandi orðatiltækja væri heldur reynt að hafa einhverja vegsögn um það, hve mikið ætti að útvega. Til dæmis held ég, að það lægi nærri, og vildi skjóta því til n., ef nokkrir nm. væru hér viðstaddir, hvort ekki væri réttmætt, að rafveitustjórnin, sem á að gera fræðilegar tillögur um rafveltur, léti í té nákvæmar skýrslur um það, að í þessu og hinu byggðarlagi og kauptúni yrðu gerðar svo og svo miklar framkvæmdir á komandi sumri og til þeirra þyrfti svo og svo mikið efni. Ef þetta lægi skipulega fyrir, væri það ákaflega mikilsverður leiðarvísir fyrir stjórnarvöldin. Þá þyrfti síður að segja setningar eins og þessa t. d.: „Maður gat ekki séð fyrir, að rafveitan þróaðist svona mikið og ört, og þess vegna er nú ekkert efni fyrirliggjandi.“ Það þyrfti einmitt að ganga svo frá málunum, að þetta þyrfti aldrei að koma fyrir. Og það er unnt að gera með skorðuðum áætlunum, sem mundu verða til ómetanlegrar leiðbeiningar fyrir stjórnarvöldin. Ég segi þetta að gefnu tilefni. Reynslan hefur sýnt, að sá háttur er beztur, að þekkingin sé sem mest spurð ráða og reynt að hnitmiða framkvæmdirnar og innflutninginn þannig, að allt sé samræmt.