02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (4757)

62. mál, framleiðsla raftækja innanlands

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Er hv. 2. þm. Reykv. við? Ég vildi leiðrétta dálítinn misskilning, sem mér þótti gæta hjá honum. Hann fór yfirleitt vinsamlegum orðum um till., en seinni hluta hennar taldi hann þó varasaman, og ég vil benda honum á, að það er misskilningur, ef hann heldur, að þetta fyrirtæki í Hafnarfirði geti framleitt þau rafmagnstæki, sem við þurfum. Verksmiðjan í Hafnarfirði hefur svo að segja eingöngu framleitt eldavélar, og vélar hennar passa ekki til framleiðslu á öðrum rafmagnstækjum, og með þeim húsakosti, sem verksmiðjan hefur yfir að ráða, getur hún engan veginn fullnægt eftirspurninni. Meining mín er heldur ekki sú, að öðrum verksmiðjum verði komið upp til þess að keppa við hana, heldur til þess að framleiða annarskonar tæki, en hún er fær um. Það er svo ekkert aðalatriði fyrir mér, hvort þau fyrirtæki yrðu í Hafnarfirði eða annars staðar. En ef við ætlum að verða sjálfum okkur nógir hvað framleiðslu þessara tækja snertir, þá verðum við að fá fleiri verksmiðjur, hvort sem þær verða reistar við hliðina á Hafnarfjarðarverksmiðjunni eða á einhverjum öðrum stöðum. Við verðum sem sagt að kaupa nýjar vélar og reisa ný hús.

Það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði áðan, að erlendis væri hver verksmiðja með aðeins eina tegund tækja, er vitaskuld rétt. Ein verksmiðja framleiðir t. d. eldavélar, önnur þvottavélar o. s. frv. En vegna þess, hve okkar þjóð er fámenn, getum við ekki farið að öllu að hætti stórþjóða við okkar iðnað. Verksmiðjan í Hafnarfirði er ekki stærri en svo, að hún getur ekki gert meira, en fullnægja okkar litla markaði á eldavélum. Það er því engin fjarstæða, þótt reist væri önnur verksmiðja fyrir t. d. þvottavélar og kæliskápa, en til þess þarf að flytja inn nýjar vélar.

Þótt það megi til sanns vegar færa, að jafnaðarlega verði framleiðslan ódýrari, ef hún er rekin í stórum stíl, þá er margt, sem kemur til greina, er það skal meta. Lítil verksmiðja, sem aldrei hefur fleira fólk en svo, að vinnuaflið nýtist til fulls, og rekin er að öðru leyti á hagnýtan hátt, — slík verksmiðja getur staðið sig eins og þær, sem stærri eru.

Á þessu vildi ég vekja athygli. Ég gat ekki skilið hv. 2. þm. Reykv. öðruvísi en svo, að það væri jafnvel nægilegur vélakostur hjá þessu eina fyrirtæki. En því er ekki að heilsa, og sé ég ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum.