02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (4758)

62. mál, framleiðsla raftækja innanlands

Finnur Jónsson:

Fyrst hæstv. forseti hefur óskað kvöldfundar, þá verður bezt að hafa hér dálítið kvöldrabb um þessa till. frá hv. 2. þm. Rang.

Ég vildi nú óska þess, að hv. þm. hefði haft fyrir því að kynna sér athuganir fjárhagsráðs um iðnaðinn og möguleika hans, áður en hann samdi till. sína. Tel ég ekki ólíklegt, að hún hefði þá orðið nokkuð á annan veg og þá einnig upplýsingar hans um raftækjaverksmiðjuna í Hafnarfirði. Mér er það kunnugt af starfi mínu í fjárhagsráði, að það hefur einkum bagað verksmiðjurnar og staðið framleiðslunni fyrir þrifum undanfarin ár, hve vont hefur verið að fá efni frá útlöndum, og miklu fremur en hitt, að staðið hafi á leyfisveitingum. Flestir vita, að rafmagnsáhöld eru einkum gerð úr járni og stáli, en á slíkum hlutum er innflutnings- og afgreiðslutími svo langur, að það dregst oft á annað ár, að varan fáist, enda þótt leyfi séu fyrir hendi. Mér er kunnugt um, að einmitt verksmiðjan í Hafnarfirði hefur átt við slíka erfiðleika að stríða.

Nú er það svo með okkar iðnfyrirtæki, að það er takmarkað, hve mikið þau mega taka af fólki frá útflutningsframleiðslunni. Hefðu iðnfyrirtækin nægilegt hráefni til framleiðslu sinnar, mundu þau taka verulegan hluta af því vinnuafli, sem útflutningsframleiðslan þarfnast, — en ef hún biði verulegan hnekki af slíkum sökum, hvar ætti þá að taka þann gjaldeyri, sem iðnaðurinn þarfnaðist? Staðreynd er það, að í höfuðiðngreinunum eru komin upp fyrirtæki, sem geta tekið miklu fleira fólk en þar er fyrir, og þar eru enn fremur vélar til að vinna hluti, sem enginn markaður er fyrir í landinu. Það á þó ekki við um raftækjaverksmiðjuna í Hafnarfirði. En með því móti, að þar væri unnið í vöktum, gæti hún framleitt upp undir 4.000 eldavélar á ári í stað 1.700 nú. En það, sem flm. segir, að verksmiðjan þurfi nýjar vélar til þess að geta framleitt önnur tæki en eldavélarnar, eins og t. d. kæliskápa, er ekki rétt. Hún getur það og áætlar að smíða á næsta ári um 500 kæliskápa og hefur fengið leyfi fyrir efni í þá. Verksmiðjan framleiðir líka ýmíslegt fleira, eins og t. d. stóra bökunarofna og þvottapotta, og mér er nær að halda, að þar mætti framleiða flestar heimilisvélar, án þess að bætt væri við vélum.

Það er rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. benti á, að það er varhugavert að flytja inn athugunarlítið nýjar verksmiðjuvélar ofan á þær, sem fyrir eru, og æskilegt hefði verið, að þess hefði verið gætt, áður en gefin voru leyfi fyrir ýmsum þeim vélum, sem nýbyggingarráð lét flytja inn á sínum tíma.

Nú er það ekki svo, að ég sé beinlínis að amast við þessari till. Hins vegar er vandinn sá, að við höfum ekki ótakmarkaðan gjaldeyri handa öllum iðnfyrirtækjum, auk þess sem verzlunarsamböndum okkar er oft svo háttað, að við verðum að kaupa tilbúnar ýmsar vörur, sem við gætum þó framleitt meira af innanlands. — Ég tel réttast að till. verði vísað til hæstv. ríkisstj., svo að hún verði tekin til frekari athugunar. Ég get upplýst það, að í innflutningsáætlun fjárhagsráðs hefur verið tekið meira tillit til þarfa iðnaðarins en áður og gert ráð fyrir aukningu hans í landinu, fyrst og fremst þeirra greina, sem samkeppnisfærar eru við erlendan iðnað, eins og t. d. raftækjaiðnaðarins, svo að þessi till. er þannig í rauninni óþörf. Það er sama um hana að segja og aðrar till. hér á Alþ. um sama efni, að á meðan Alþ. semur ekki innflutningsáætlun sjálft, þá er þetta óhyggilega að farið.