08.02.1949
Sameinað þing: 37. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (4794)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Út af því, að hv. þm. Barð. komst þannig að orði, að ljótasti þátturinn í þessu máli væri sá, sem ég hefði staðið að, að afhenda atvmrh. hælið í Kaldaðarnesi til meðferðar og til þess að leggja það niður — út af þessu vil ég segja nokkur orð. Þótt það verði að mestu leyti endurtekning á því, sem ég hef áður sagt, þá verð ég að svara þessum sakargiftum hv. þm. með því að draga fram nokkur atriði.

Ég vil þá í fyrsta lagi benda á, að ástandið var þannig á hælinu í Kaldaðarnesi, að síðustu árin voru þar ekki nema 4–5 vistmenn — fór jafnvel niður í einn, en kostnaður var mjög mikill. Hv. þm. vildi halda því fram, að það hefði verið vanrækslu minni að kenna, að hælið var ekki meira notað. Vitaskuld gat þó heilbrmrn. engu ráðið um það, hverjir fóru á hælið. Og ég get því bent hv. þm. á það, að þetta er alger misskilningur. — Þá taldi hv. þm., að í stað þess að leggja niður hælið, hefði verið nær að endurbæta reksturinn, setja því sérstakan forstöðumann og lækni o. s. frv. Það var auðvitað hugsanleg leið að gera það að lækningahæli með slíku móti, en ef hún hefði verið farin, hefði það sýnt sig, að hún hefði orðið gífurlega kostnaðarsöm og rekstrarhallinn orðið óskaplegur. Enn fremur var sýnt, að Kaldaðarnes var ekki heppilegur staður fyrir lækningahæli og allt of langt frá höfuðstöðvunum. Rekstur hælisins árlegur hafði kostað 100 þús. kr. síðustu árin, en aðeins verið þar 4–5 vistmenn að meðaltali. Við þetta bættist svo, að jörðin var í þannig ástandi, að ríkið hefði orðið að leggja þar í stórfelldan kostnað, og þarf ég ekki að eyða mörgum orðum að því, svo ýtarlega sem það hefur verið gert af hæstv. landbrh. og hv. 1. þm. Árn. En það var sýnilegt, að stórfelldar fjárupphæðir þurfti til endurbóta og aukins rekstrarkostnaðar. Af þessum ástæðum varð ég við þeirri ósk landbrn. að láta hælishúsin sem jarðarhús, en áskildi heilbrmrn. gjald fyrir þau, er ég skal síðar skýra frá. Það er þannig ekki með sanngirni hægt að liggja mér á hálsi fyrir að leggja hælið niður í því skyni að velja því hentugri stað og láta húsin sem jarðarhús. Ég vil halda því fram, að það hafi ekki orðið til að glata fjármunum, heldur þvert á móti til að forða ríkinu frá miklum fjárútlátum vegna vaxandi halla á rekstri hælisins.

Þær eignir, sem afhentar voru atvmrn., voru gamla húsið, sem gert hafði verið við, tveir innréttaðir hermannabraggar, sem notaðir voru fyrir matstofur, og hús, sem innréttað var sem ráðsmannsíbúð. Það hefur nú margt verið talað um það, hvað þessar eignir hafi kostað heilbrmrn., og nefndar ýmsar tölur, margar byggðar á misskilningi eða öðru verra. Einhver nefndi milljón í þessu sambandi — líklega hv. þm. Barð. Hann kastar frá sér tölum í allar áttir og hirðir minna um, hvernig hann er að þeim kominn. Í sambandi við fsp. frá hv. þm. S-Þ. í vetur gaf ég þær upplýsingar um þetta, að eignirnar muni hafa kostað hælið um 792 þús. kr. Ég hef nú athugað þetta nokkuð, og sýnist mér, eins og þetta liggur fyrir, að kostnaður við þessar eignir hafi numið um 600 þús. kr., og eru þá fyrir viðgerð á útihúsi reiknaðar 43 þús. kr. og til innréttingar gömlum bragga 86.600 kr., en aðalupphæðin liggur í viðgerð á gamla íbúðarhúsinu. Nú er þess að gæta, að þetta er að mestu leyti viðgerð á gömlum húsum og því í rauninni ekki annað en viðhald, sem vanrækt hafði verið. Og þegar upp er gert, þá fær heilbrmrn. tæpar 400 þús. fyrir þessar byggingar. Ég hefði aldrei getað gert mér vonir um meira, ef hælið á annað borð var lagt niður, eins og okkur fannst skynsamlegast eins og allt var í pottinn búið með rekstur þess. Hér er því svo fjarri því, að heilbrmrn. hafi orðið fyrir stórtjóni, að þetta var því stór hagur hjá því, sem búast hefði mátt við, ef rekstri hælisins hefði verið haldið áfram.

Þess má nú geta, að það er alltaf mikil spurning, hve mikið verðmæti er í viðgerðum á gömlum húsum. Í gamla húsinu í Kaldaðarnesi er innréttingin ný, og það var forskallað, en gömlu viðirnir eru hinir sömu, og þeim er vitaskuld vandi á höndum, sem þetta eiga að meta. En frá okkar sjónarmiði var sízt undan því að kvarta að fá 400 þús. kr. fyrir þessar eignir, sem aðallega voru gömul, uppgerð hús. Sú aðferð var viðhöfð að skipa hina hæfustu menn til að meta eignirnar, bæði þær, sem komu upp í eignirnar í Kaldaðarnesi, og þær, sem við var tekið þar, og get ég ekki séð, hvaða aðferð átti að hafa aðra. Fyrir þessu hefur hæstv. atvmrh. gert ýtarlega grein, og þarf ég ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ég vildi aðeins segja nokkur orð vegna þess sleggjudóms, sem hv. þm. Barð. viðhafði í minn garð.