08.02.1949
Sameinað þing: 37. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í D-deild Alþingistíðinda. (4798)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég þykist vita, að ég geti ekki lokið ræðu minni á þessum stutta tíma, sem mun vera eftir af fundi.

Nú hafa þrír hv. þm. Framsfl., hinir styrkustu ræðumenn hans, varið mál þetta í tvo daga hér í þingsölunum. Auk þess hefur einn af snjöllustu málfræðingum Sjálfstfl. mælt bæði með og móti till. Ætla mætti, ef fara ættu fram þrjár atkvgr. um hana, að þá mundi hann verða með till. við hina fyrstu, móti henni við aðra atkvgr. málsins, en sitja hjá við hina þriðju og síðustu. Ég bjóst nú satt að segja við, að hæstv. landbrh. tæki til máls og verði málið af meira kappi, en hann hefur gert. Hann kom ekki með neitt nýtt fram í því, frá því hann lét síðast skoðun sína í ljós. Ég bjóst einnig við sterkari rökum af hendi hæstv. menntmrh. gegn þeim ásökunum og sleggjudómum, er hann kvaðst hafa orðið fyrir. Jafnfrábærlega góður ræðumaður sem hæstv. menntmrh. er að mínu áliti, þá hef ég aldrei bara aldrei — heyrt aðra eins ræðu af hans vörum sem í þetta skipti, þá er sýnir jafngreinilega lélegan málstað. Ég bjóst þó ekki við, að hv. 1. þm. Árn. tæki að sér vörnina. Ég tel hann sterkan ræðumann, jafnvel að verja lélegt mál, — engan mundi ég fremur kjósa til þess. En þetta merkilega, að einnig hann kiknar í knjáliðunum undir því hlutverki, sýnir hvað berlegast, að málið er gersamlega óverjandi. Ég vorkenni hv.1. þm. Árn., og fleiri munu gera slíkt hið sama. Hv. þm. S-Þ. minntist á það, að fjárhagslega væri málið ekki svo stórt, en hitt væri, að það hefði vakið athygli um allt land og menn töluðu mikið um það. Af hverju? Það er orsökin, hvernig farið hefur verið með málið. Hún er ekki not viðtakandans af þessari milljón króna, hvort hann geti notfært sér hana. Það er ekki þetta, heldur siðferðilega hliðin, sem hefur vakið athygli þjóðarinnar. Hún krefst þess, að þm. fari heiðarlega með fé landsins, en hitt skiptir ekki máli, hvort kofarnir í Skálholti eru betri eða verri, heldur lætur þjóðin sig skipta, hvort þm. þeim, er hún kýs á þ. til að fara með umboð sitt, sé kleift að fara heiðarlega með fé hennar. Hún treystir þeim að halda l., og bregðist fulltrúar hennar þessari tiltrú, þá trúir hún ekki þm. til að leysa aðsteðjandi vandamál. Hér hefur hið merkilega gerzt, að blöðin í landinu hafa látið málið afskiptalaust, þ. e. sá hluti þeirra, sem styður hæstv. ríkisstj. Það laust þjóðina, að hún getur eigi heldur treyst útvörðunum og varð þar vonsvikin. Þessum fulltrúum sínum á þjóðin að trúa. Ég sé, að hæstv. ráðh. eru aldrei viðstaddir. Mér þykir því rétt að snúa eigi að hlut þeirra í málunum að sinni, en ég vildi ræða dálítið við hv. 1. þm. Árn. í sambandi við þetta mál, úr því að hann tók að sér að halda uppi aðalvörninni. Aðalkaflarnir í ræðu hans voru þessir tveir: Í fyrsta lagi, að ranghermi væri hjá mér, að hann hefði fengið lífstíðarábúð á tveim jörðum, heldur fyrst í Skálholti og síðan í Kaldaðarnesi. Hinn kaflinn var þó enn sterkari meginþáttur í vörn hans, að ég væri að ófrægja matsmennina með málflutningi mínum á Alþ.

Nú vil ég spyrja hv. 1. þm. Árn.: Lá það á bak við hugsun hans, þegar hann greiddi atkv. um Skálholtstill. árið 1935, að hann ætlaði sér að komast yfir Skálholt fyrir ekkert með lífstíðarábúð, þó að það yrði keypt af sér? Flm. þessarar till. til þál. var, að mig minnir, hv. þm. S-Þ., og vakti hann máls á því, að ríkið festi kaup á hinu forna menningarsetri. Það hefur vitaskuld vakað fyrir hv. þm. S-Þ., að ríkið hefði ávallt aðgang að Skálholti, hvernig svo sem það ákvæði að nota staðinn og færi með jörðina, og var það þess vegna ríkisins að ákveða, hvernig jörðinni væri ráðstafað, en ekki landssetans. Ef annað hefur vakað fyrir hv. 1. þm. Árn., er hann greiddi þessari þáltill. atkv., hefur hann brugðizt þeim eiði, sem hann sór stjórnarskránni, þegar hann undirritaði þingmannsheit sitt. En ég er ekki að halda því fram, að svo hafi verið, að slíkt hafi vakað fyrir hv. þm., því að jörðin heyrir undir þann flokk jarða, sem ætlaðar eru undir opinberar framkvæmdir, fyrir skólasetur eða jafnvel biskupsstól, en raddir hafa komið frá ýmsum, að biskupsstóll yrði endurreistur í Skálholti. Þess vegna mátti ekki byggja neinum né selja jörðina. Slíkt var ekki hægt með þessa jörð, sökum þess að hún er í opinberri eign. [Frh.]