25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í D-deild Alþingistíðinda. (4815)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ryskingar hafa verið harðar um þetta mál nú í fimm daga, og hefur leikurinn borizt út um víðan völl. M. a. hefur komið fram, að hv. flm. þessa máls hafi haft viðskipti við ríkissjóð, þar sem ekki hefur kennt lítillar rausnar í peningagreiðslum til hans. Og það var hæstv. atvmrh., sem upplýsti það í sambandi við umr., að þessum hv. þm. hefðu verið greiddar 300 þús. kr. fyrir að hafa eftirlit með smíði hinna nýju íslenzku togara. Nú hefur að vísu það komið fram frá hæstv. dómsmrh., að þessi greiðsla sé mjög hófleg. Sýnir þetta það eitt, að það mega velta á tugum og hundruðum þús. kr. greiðslurnar í viðskiptum annarra hv. þm. við ríkið, án þess það þyki óhæfilega háar tölur. Ég vil þó minna á, að þessar 300 þús. kr. eru samsvarandi 10 ára launum. Og það er nokkuð nærri því, að þetta verði tuttugfalt þingmannskaup þessa hv. þm. En úr því að það liggja fyrir ummæli eins hæstv. ráðh. um það, að þetta sé ekki neitt óhæfileg greiðsla til eins hv. þm., þá held ég, að það verði erfiðara fyrir þennan sama hv. þm. að gera það að stórkostlegu fjármálahneykslismáli, sem hér er um að ræða í sambandi við sölu Kaldaðarness. — Þegar ég tók til máls hér um daginn í þessu máli út af sölu Kaldaðarness, þá höfðu umr. farið fram dag eftir dag, og hv. frsm. málsins, hv. þm. Barð., hafði flutt mál sitt þannig, að ég, sem í raun og veru hafði haldið, að hér væri um fjármálahneykslismál að ræða, sem hv. 1. þm. Árn. væri við riðinn, ég sannfærðist um það, vegna fyrirlesturs hv. þm. Barð., að hér væri ekki um fjármálahneykslismál að ræða, heldur miklu fremur rógsmál á hendur tveimur hv. alþm. okkar. Og þá þóttist ég ekki geta setið hjá og þagað og því síður tekið undir þann són, sem hér var um málið sunginn dag eftir dag á þann veg, að hér væri um mál að ræða, sem bæri vott um fjármálaspillingu. Þess vegna talaði ég og lét í ljós, að ég teldi hér ekki um annað en pólitískt árásarmál að ræða af hendi hv. flm. Ég hef enn betur sannfærzt um, að málið er þessa eðlis, við umr. áðan. Ég er sannfærður um, að málið ber því að metast á þennan mælikvarða. Mér skilst, að það hafi ekki verið dregið í efa, að hæstv. ráðh. hafi gert það eitt, sem honum bar sem ráðh. og embættismanni að gera, þegar þessi eignaskipti áttu að fara fram, að snúa sér til yfirvaldsins í Árnessýslu og biðja hann að dómkveðja menn til þess að framkvæma matið. Yfirvaldið dómkvaddi síðan mennina, sem svo framkvæmdu matið á eignunum í Skálholti og í Kaldaðarnesi. Og sá, sem átti að búa við matið, hv. 1. þm. Árn., undi við matið á eignum sínum í Skálholti og gerði heldur ekki athugasemdir við matið á eignunum í Kaldaðarnesi. Þegar svona er komið, er ekki hægt að halda fram þessu máli sem hneykslismáli eða áróðursmáli nema með því að ráðast á sýslumann Árnessýslu eða hina eiðsvörnu matsmenn. Ég hygg, að ef hv. þm. Barð. hefði staðið í sporum hv. 1. þm. Árn., þá hefði hann ekki gert annað í málinu en annaðhvort að gera athugasemdir gagnvart matinu sem óhagkvæmu eða una því eins og hv. 1. þm. Árn. gerði. — Mér finnst því, þar sem matinu hefur ekki verið hnekkt og ekki hafa verið færðar sakir á hendur þeim matsmönnum, sem hér koma við, að hér liggi ekki annað fyrir en að þingið telji þetta mál sér óviðkomandi, þar sem það sé ekki fjármálalegt hneykslismál, og þingið vísi því þess vegna bókstaflega frá sem tilefnislausu, eða að öðrum kosti vísi því til ríkisstj., og ég tel það síðar talda í raun og veru réttast.

Að einu atriði, sem hv. þm. Barð. vék að, vildi ég koma, því, er hann sagðist ekki skilja, hvernig ég hefði talað eins og ég gerði í garð þeirra vesalinga, sem dæmdir höfðu verið til hrakhólanna, er hælið var lagt niður í Kaldaðarnesi. Það er ósatt mál, að ég hafi talað nokkur ósæmileg orð um þá menn, sem falla fyrir áfengisnautninni; ég tók það einmitt fram, að ég vildi ekki blanda heilsuhælismálunum inn í þessar umræður, enda mun ég væntanlega síðar í sambandi við slíkt frv. hér á Alþ. fá tækifæri til að sýna hug minn til þeirra mála. Ég vil taka þetta fram til að sýna, að það er gersamlega úr lausu lofti gripið. er hv. þm. telur, að ég hafi viðhaft óviðurkvæmileg ummæli um þessa menn, og ég get bætt því við, að eini vesalingurinn, sem hér á í rauninni hlut að máli, er hv. þm. Barð. sjálfur, sem með tilræði sínu við einstaka menn í þessu máli hefur stofnað eigin æru mjög í hættu, svo að hann er orðinn aumkunarverðari en nokkur sá vesalingur, sem gistir hér nótt og nótt í kjallaranum.

Að síðustu vil ég segja, að ég tel það stjórnarinnar mál að gera það upp, sem er kjarni þessa máls, hvort rétt hafi verið að selja umrædda jörð eða ekki, og beri því að vísa þessu máli til hæstv. ríkisstj. Ég vil því hér með leggja fram till. um það efni. Þegar hafa verið teknir 6 dagar af tíma Alþ. til umræðu um þetta mál, og mætti þeim gjarna vera lokið.