25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (4817)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst nota tíma minn til að leiðrétta leiðinlegan misskilning, sem reis hér í umr. á Alþ. í fyrradag um þá kröfu, sem ríkið átti til endurgreiðslu á fé vegna togarakaupanna á hendur verksölum. Ég vil taka það fram, að það var síður en svo, að ummæli mín um þetta bæri að skilja svo, að hæstv. ráðh. hefði latt mig til þess verks, að freista að innheimta þetta fé. Og ég vil leiðrétta það, ef það hefur virzt af ummælum mínum, að svo hafi verið. Bréf um þetta mál, sem ég hef með höndum, vottar hið gagnstæða, enda hef ég ekki með orðum mínum á neinn hátt viljað draga úr lögspeki ráðherranna eða væna þá um, að þeir hafi ekki haft fullan vilja á að sækja þetta mál á hendur umræddra aðila. Ummæli um þetta mál í blöðum eru því algerlega röng.

Þá vil ég aðeins minnast nokkrum orðum á það mál, sem hér er til umræðu. Kjarni þess er sá, að sala Kaldaðarness er lögbrot og meira en það: Hún er einnig stjórnarskrárbrot. Hæstv. atvmrh. vildi sanna heimild til sölunnar með því,. að ég sem form. fjvn. hefði við fjárlagaumræður upplýst. að það stæði til að selja Kaldaðarnes og flytja hælið þaðan. Þetta er nú ekki skammt seilzt til rakanna! Hef ég nokkurn tíma upplýst, að það stæði til að selja Kaldaðarnes án heimildar til þess frá Alþingi? Ekki vissi ég þá, að hæstv. ráðh. væri þá búinn að undirbúa málið á þann hátt, sem nú er komið í ljós. Fyrir þann þátt, sem hæstv. dómsmrh. á í þessu máli, hef ég ekki ásakað hann, enda er það hans eina yfirsjón að halda, að hann ætti þarna við heiðvirða menn að skipta.

Það hefur verið talað um það, hve laun mín fyrir þetta starf hafi verið há. Þeir góðu menn gleyma því, að langsamlega mestur hluti þeirra gekk til annarra manna en mín, og sú upphæð, sem þeir nefna, er því í raun og veru alls ekki laun, sem ég hef fengið, heldur fé, sem ég hef ráðstafað í sambandi við kaupin á hinum nýju skipum.