25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (4821)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Ólafur Thors:

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. atvmrh. þess efnis, að hann hefði ekki veitzt að mér, vil ég spyrja, hvort hann hafi þá ekki deilt á hv. þm. Barð. fyrir óhóflegar greiðslur, sem hann hefði þegið, og hvort það hafi þá ekki fyrst og fremst verið ádeila á mig fyrir óhæfilega meðferð á ríkisfé, ef ég hef veitt hv. þm. Barð. aðstöðu til þess að féfletta ríkissjóð. Ég vænti hann skilji, að ég er ekki flekklaus af því, ef um það hefur verið að ræða að borga um of af fé ríkisins, þó að mér væri í sjálfsvald sett að borga af eigin fé eins mikið og mér sýnist. Ég þóttist nú annars vera því nokkuð kunnugur, hvað venja væri að greiða fyrir svona verk. Og ég segi það alveg satt, að ég varð hissa, er ég heyrði, að hv. þm. Barð. bauðst til að taka að sér alla umsjón með smíði þessara skipa fyrir þessa greiðslu, og það voru fleiri en ég, sem undruðust það. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að hann varð að greiða öðrum þetta fé að miklu leyti og hann hafði afar mikla fyrirhöfn og kostnað við þetta. Ég veit, að andstæðingar hans deila á hann fyrir margt, en jafnvel af þeim er þó viðurkennt, að það er langtum meira gott um hann að segja og hann er t. d. einn hinn mesti afkasta- og dugnaðarmaður. En fyrir ekkert af því marga, sem hann hefur unnið til þjóðnytja, mun framtíðin hæla honum eins og fyrir þann þátt, sem hann átti í togarakaupunum, því að honum er það manna mest að þakka, að Íslendingar eiga nú bezta togaraflota í heimi. Ég tel því illa til fallið, ef það á að fara að álasa honum fyrir að hafa tekið við ósanngjarnri borgun fyrir þetta mikla þjóðnytjastarf. Og fyrir mig persónulega hefði það verið skömm, ef ég hefði viljað lána mig til verks sem þess að ívilna mínum flokksbróður. Það hef ég heldur ekki gert. Mér er kunnugt um, hvaða fyrirhöfn hv. þm. Barð. hefur tekið á sig í þessu efni. Og allir þekkja dugnað hans. Hann er e. t. v. stundum óbilgjarn í árásum sínum, en hvað sem því líður, þá munu þeir ekki vera margir, sem geta mælt sig við hann, þegar um dugnað er að ræða. Seinasta afrek hans er kunnugt, er hann með frjálsu samkomulagi fékk þá, sem byggðu hin nýju skip, til þess að ganga inn á þann afslátt, sem við töldum okkur eiga kröfu á. Það var auðvitað aldrei meiningin að slá af þessari kröfu lagalega. En það gefur auga leið, að betra var að sækja þennan rétt með góðu heldur en illu.