25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (4823)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Jónas Jónsson:

Það fór eins og mig grunaði, að hv. varaþm. N-Ísf. kunni því illa, þegar honum var bent á, að hann er að reyna, að vísu af veikri getu, að afsaka það brot, sem hér hefur gerzt, að það er búið að eyðileggja með ráðstöfunum tveggja ráðh. möguleika, sem væru til þess, að vesalingarnir í þjóðfélaginu gætu reist myndarlegan bæ, og þegar honum var bent á, að hann er að reyna að afsaka þetta til þess að borga fyrir sig, því að það, að hv. 3. landsk. þm. ótilkvaddur gengur hér fram til svara í þinginu í þessu máli, útskýrist þann veg, að hann er að borga skuld. Það eru mjög ólíkar okkar ástæður. Við síðustu kosningar barðist ég við alla þrjá stjórnmálaflokkana, sem um var að ræða í Þingeyjarsýslu, og sigraði á mínum framkvæmdum og minni stefnu. Allir þessir flokkar buðu þar fram, en Framsfl. bauð ekki fram við síðustu kosningar á móti hv. 3. landsk. þm. Þess vegna hef ég ekkert fyrir að þakka á borð við hv. 3. landsk. þm. Hins vegar voru það ýmsir sjálfstæðismenn og kratar, sem studdu mig í kosningunum í Þingeyjarsýslu, af því að þeir álitu mig bezta þingmannsefnið.