25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (4825)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Ólafur Thors:

Ég vil aðeins segja hæstv. atvmrh. það, að ég tel það ekki til lofs honum, þegar hann deilir á hv. þm. Barð. fyrir óhæfilega þóknun, sem hann hafi þegið, en bætir því við, að hann hafi ekki hnýstst neitt í það, hvað hann hafi greitt öðrum af því. (Atvmrh.: Í reikningana.) Hann var ekki skyldur til að leggja fram neina reikninga. Hann hefur þrjá menn í þjónustu sinni í tvö ár og þar af einn verkfræðing í sex ár. Og ef sá starfsmaður hefði haft 50 þús. kr. á ári, þá eru allir peningarnir komnir. Ég hefði gaman af að vita, hvort hæstv. atvmrh. gæti t. d. fengið þennan unga verkfræðing, sem hér hefur verið talað um og sjálfsagt er efnilegur maður og ekki verri aðstoðarmaður hjá ríkinu, þó að hann sé sonur hæstv. atvmrh., hvort hann getur ráðið hann til starfa fyrir minna en 50 þús. kr. á ári. Hæstv. ráðh. segir, að af öllu dýru sé þetta dýrast, sem hv. þm. Barð. hafi unnið fyrir ríkið. En ég geri ráð fyrir, að þeir, sem hafa eftirlit með byggingum ríkisins, hafi miklu meira en þetta. Það væri fróðlegt að athuga það.