25.04.1949
Sameinað þing: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í D-deild Alþingistíðinda. (4875)

121. mál, ríkishlutun um atvinnurekstur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði hvort sem var ætlað að láta mér nægja örstutta ræðu, þar sem komið er svona langt fram á nótt og fáir hér í d. Ég vildi aðeins beina örfáum orðum til hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Reykv.

Hv. þm. Barð. hóf ræðu sína með allmiklum rosta. Hann viðhafði þau orð um ræður okkar hæstv. viðskmrh., að þær hefðu verið fáránlegar og furðulegar. Þykist hv. þm. vera slíkur ræðuskörungur, að hann sé þess umkominn að kveða upp þann dóm yfir ræðum okkar, að þær séu fáránlegar? Það kemur mér á óvart, ef hv. þm. hefur svo mikið sjálfstraust, að hann telji viðeigandi að byrja mál sitt þannig. Ég verð að segja, að það er mikill munur á málflutningi hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Barð., því að þar stóð hv. þm. Barð. honum langt að baki. Hv. 1. þm. Reykv. flutti hér langa ræðu, engar persónulegar ásakanir né skæting. En því miður tókst ekki hv. þm. Barð. að halda sig frá slíku. Þessi hv. þm. hélt því fram m. a., að ég hefði notað mér fjarvíst yfirmanns Alþýðublaðsins til þess að birta ræðu mína í blaðinu. Hvað eiga svona staðhæfingar að þýða í þingræðu? Ég veit ekki, hvernig það ber að, þegar ræður eftir þennan hv. þm. eru birtar í Morgunblaðinu, en ég get sagt honum, hvers vegna ræða mín var birt í Alþýðublaðinu. Ritstjóri blaðsins óskaði eftir því strax daginn eftir að hún var flutt. En ég hafði ekki skrifað ræðuna. Þess vegna var beðið eftir, að þingritarar hefðu handritið af henni tilbúið. Ræðan kom svo í blaðinu eftir ósk blaðsins sjálfs, en ekki eftir minni ósk, og eftir því sem ég bezt veit, þá var enginn af forráðamönnum blaðsins fjarverandi, þegar þetta gerðist. — Þá var hv. þm. eitthvað að dylgja um, að ég hefði brugðizt hæstv. viðskmrh. við atkvgr. um vantraustið á ríkisstjórnina. Hv. þm. Barð. veit vel um ástæðurnar fyrir afstöðu minni við vantraustið, því að ég gerði þá grein fyrir þeim. Ég gat þess, að það væri af því, að ég hefði rótgróna vantrú á samstarfi við Sjálfstfl., og ef til vill er það þetta, sem hv. þm. Barð. svíður svo mjög. Það eru algerlega ástæðulausar aðdróttanir hjá hv. þm., að ég treysti ekki flokksbræðrum mínum. Ég hef ekkert orð sagt í þá átt, og allar aðdróttanir hv. þm. Barð. um það eru úr lausu lofti gripnar. Ég veit ekki, hvort hv. þm. vill halda því fram, að afstaða fimmmenninganna 1944 hafi verið vantraust á ráðh. Sjálfstfl. Mér mundi að minnsta kosti aldrei detta í hug að halda því fram, heldur álít ég, að þar hafi verið um að ræða ágreining um grundvöllinn fyrir stjórnarsamstarfinu. Honum svíður kannske afstaða mín til Sjálfstfl., en þetta er mín pólitíska skoðun, og ég tel hana fyllilega réttlætta af reynslunni af þeim flokki. Þessi stofnun hér byggist einmitt á mismunandi stjórnmálaskoðunum, og mér virðist því harla einkennilegt, að hv. þm. skuli vera að reka upp óp út af því, að hér er um ágreining að ræða.

Varðandi það, sem 1. þm. Reykv. spurði um í ræðu sinni, hvað hefði komið frá mér og hvað hefði komið frá Alþfl. varðandi lausn dýrtíðarvandamálsins, vil ég benda hv. þm. á, að á flokksþingi Alþfl., sem haldið var fyrir skömmu, voru bornar fram mjög rækilegar till. um lausn dýrtíðarvandamálsins, og sömuleiðis á næst — síðasta þingi flokksins, og þær till. getur hv. 1. þm. Reykv. auðvitað fengið að sjá, hvenær sem hann vill. Hins vegar tel ég það óvandaðan málflutning að kalla stefnu núverandi ríkisstj. stefnu Alþfl., því að eins og hv. þm. Barð. gat um, þá er stefnan málamiðlunarstefna og því ekki frekar stefna Alþfl. en Sjálfstfl. eða Framsfl. Hitt er svo annað mál, að við teljum þá stefnu betri og skynsamlegri heldur en þá stefnu, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv., þ. e. gengislækkun, frjálsa verzlun o. s. frv. Ég tek skatta og tolla fram yfir gengislækkun, vegna þess að gengislækkun kemur jafnt niður á öllum vörum. Skattana og tollana er hægt að leggja á þá, sem mesta hafa greiðslugetuna. Nú er það hins vegar kunnugt, að útflutningsatvinnuvegir okkar bera sig mismunandi vel. Sumir bera sig, aðrir ekki. Með sköttum og tollum er hægt að létta undir með þeim útflutningsgreinum, sem erfiðast eiga uppdráttar, og láta þá bera kostnaðinn, sem þess eru umkomnir. Þess vegna er það, sem ég tek þessa leið fram yfir gengislækkun.