25.04.1949
Sameinað þing: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í D-deild Alþingistíðinda. (4877)

121. mál, ríkishlutun um atvinnurekstur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum við hv. þm. Barð. um ódrengskap minn. Það getur vel verið, að í hans augum hafi ég sýnt af mér ódrengskap, en mér virðist, að ekki síður sé hægt að bregða honum um ódrengskap.

Um eignakönnunina er það að segja, að ég sótti það mál ekkert sérstaklega fast né heldur Alþfl., heldur voru allir stjórnmálaflokkarnir sammála um þetta, þar á meðal Sjálfstfl. Annars er ég sannfærður um, að eignakönnunin hafði sín áhrif. Ýmsir menn höfðu komið allmiklu fé undan skattaframtali, og það geri ég þó varla ráð fyrir, að hv. þm. Barð. þyki æskilegt. — Hann sagði, að ég hefði sagt, að ég mundi vilja fara gengislækkunarleiðina, þegar allar aðrar leiðir væru lokaðar. Það er alveg rétt, að ég sagði þetta, en ég tel bara ekki, að allar aðrar leiðir hafi verið reyndar til fulls og þaðan af síður að útséð sé um, að þær komi að gagni. Það vita allir, að útfluttar afurðir þurfa ekki allar jafnmikillar lækkunar til þess að geta borið sig. Sumar þarfnast mikillar lækkunar, aðrar lítillar. Með gengislækkun yrði því skattur þjóðarinnar í heild stærri en með niðurgreiðslunum. Þess vegna álít ég, að ekki beri að grípa til þessarar aðferðar, nema allt annað þrjóti. Ég viðurkenni, að á meðan núverandi ástand ríkir, er hættulegt að fara út í kauphækkun, eins og gert hefur verið fyrir atbeina annarra aðila, og ef haldið verður áfram á þeirri braut, þá verður gengislækkun, ef til vill óhjákvæmileg, en fyrir mér vakti, að við reyndum að stöðva kaupskrúfuna þar, sem við stóðum.

Hv. 1. þm. Reykv. vill nú sverja sig frá því að hafa átt nokkurn þátt í því, að sérleyfisferðirnar voru lagðar undir ríkissjóð, en viðurkennir þó, að snemma á árinn 1944, eða á tímabilinu 1. marz — 1. maí, hafi sérleyfisferðirnar milli Reykjavíkur og Akureyrar fallið niður, en segir, að þeir atvmrh. hafi verið sammála um að láta ríkið ekki taka að sér þennan rekstur meðan einhver einstaklingur fengist til þess. Þegar ég tók við þessum málum, þá voru í pöntun 10 sérleyfisbifreiðar, sem nota átti í sérleyfisferðirnar til Akureyrar. Nú segir hv. 1. þm. Reykv. aftur á móti, að hann hafi ekki verið mótfallinn því, að smíðað yrði yfir bílagrindurnar og þær síðan seldar. Ég verð að segja það, að mér finnst það hálfskrýtið, ef hv. þm. hefur ætlað að láta ríkið flytja þessa bíla inn og byggja yfir þá og selja þá síðan. Sannleikurinn er sá, að bílana átti að nota í norðurferðirnar, enda benda kaupin á þessum 10 bifreiðum til þess, að ríkisstj. hafi ekki ætlað að nema þarna staðar. Mitt fyrsta verk var svo að selja nokkra af þessum bílum og halda aðeins eftir eins mörgum og þurfti í þessar sérleyfisferðir. Ég hef hins vegar aldrei heyrt það fyrr en nú, að þetta hafi átt að taka af ríkinu aftur og fá það einstaklingum í hendur. — Síðan voru svo þessir bílar, sem stj. keypti og lét byggja yfir, notaðir í þessar ferðir.

Frv. um sérleyfisaksturinn var stjfrv., sem flutt var án ágreinings, og er því algerlega þýðingarlaust fyrir hv. þm. að ætla að þvo hendur sínar í þessu máli, og sömuleiðis þýðir ekkert fyrir hann að vitna í lög um sérleyfisakstur frá 1935 og 1944, því að þar eru hvergi nein ákvæði um það, að ríkið taki að sér sérleyfisferðirnar. Hins vegar lái ég hv. þm. alls ekki, þótt hann gerði þetta. Ég tel það meira að segja sjálfsagt, að ríkissjóður tæki þessar ferðir að sér. Ýmis skilyrði, sem sérleyfishafarnir settu, voru þannig, að þáverandi samgmrh. vildi ekki við una og taldi, að með því að ganga að þeim skilyrðum, væru þarfir almennings bornar fyrir borð. — Ég skal svo ekki fjölyrða þetta frekar nú, þar sem málið fer nú í nefnd, en ég vil ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég tel gengislækkun ekki heppilegustu né réttlátustu lausn dýrtíðarvandamálsins og mun ekki kjósa þá leið fyrr en útséð er um allar aðrar leiðir.