16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í D-deild Alþingistíðinda. (4892)

131. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt fleiri þm. að flytja hér þáltill. á þskj. 348 um rannsókn á heppilegum stað fyrir áburðarverksmiðju. Eins og till. segir, er ætlazt til, að ríkisstj. skipi þriggja manna nefnd til þess að rannsaka, hvar æskilegast sé, að fyrirhuguð áburðarverksmiðja verði reist, sérstaklega með tilliti til þess, að áburðurinn verði sem ódýrastur þeim, sem aðallega koma til með að nota hann. Í sambandi við þessa rannsókn skuli svo gaumgæfilega rannsaka aðstöðuna til þess að byggja verksmiðjuna í Þorlákshöfn. — Það hefur mikið verið rætt um hina fyrirhuguðu áburðarverksmiðju, en þar hefur ekki bólað á neinu ákvæði um það, hvar hún skuli reist. Þetta er eðlilegt, þar sem vitað er, að rannsókn hefur ekki verið hafin um það, hvar sé heppilegasti staðurinn fyrir þessa væntanlegu verksmiðju. Ég geri þess vegna ekki ráð fyrir, að þm. væru tilbúnir að greiða atkvæði um það, hvar áburðarverksmiðjunni skuli valinn staður. Við, sem flytjum þessa till., álítum af leikmannsviti okkar, að Þorlákshöfn væri sérstaklega heppilegur staður fyrir verksmiðjuna. Hins vegar viljum við, þrátt fyrir það að við höfum þetta álit á þessum stað, að fram fari gaumgæfileg rannsókn sérfróðra manna til þess að staðfesta eða hrinda þessu áliti okkar flm. Þm. eru ókunnugir á þessum stað, og get ég því búizt við, að þeir muni ekki vilja slá neinu föstu um þetta. En ég get líka búizt við, að þeir vilji ekki að órannsökuðu máli segja nei við því, að þarna yrði verksmiðjan reist, og það er þess vegna, að við flm. teljum víst, að Alþ. muni fallast á þessa till. Við flm. leggjum ekki aðeins áherzlu á, að sá staður, sem við nefndum í till., verði rannsakaður af nefndinni, heldur og allir aðrir staðir, sem til greina koma, og dómur á þá lagður. Ég sé, að fram hafa komið tvær brtt. við till. okkar, önnur á þskj. 366, frá hv. þm. Borgf. um, að Akranes verði sérstaklega athugað, og hin á þskj. 388, frá hv. þm. Ak. og fleiri, þar sem sérstaklega er farið fram á, að möguleikarnir á að staðsetja verksmiðjuna á Akureyri verði athugaðir. Það er vitanlegt, að nefndin mun ekki loka augunum fyrir neinum stöðum, sem til greina geta komið, enda er það höfuðnauðsyn, að réttur staður sé valinn. Sumir munu ef til vill segja, að óþarfi sé að kjósa sérstaka nefnd til þessarar athugunar, það sé hlutverk hinnar væntanlegu verksmiðjustjórnar, en ég segi það, að hér er um svo mikilsvert atriði að ræða, þegar reisa á fyrirtæki, sem er áætlað, að kosti 40–50 millj. kr. og á að framleiða áburð, sem sé meiri en nógur handa landsmönnum, þá er mikið í húfi, að vel takist um að velja þessu fyrirtæki stað, og kostnaðurinn við nefndarskipun í því skyni er lítilræði hjá kostnaðinum við þetta stóra fyrirtæki. Ég býst enn fremur við, að hin væntanlega verksmiðjustjórn hafi í æðimörg horn að líta fyrst í stað við að byggja þetta fyrirtæki upp af grunni, þó að hún hafi sér til aðstoðar nefnd sérfróðra manna, sem sérstaklega athugi þá hlið málsins, sem till. okkar fjallar um. Vissulega getur svo verksmiðjustjórnin, eftir því, sem henni vinnst tími til, athugað staðarvalið og kynnt sér, hvaða staðir eru heppilegastir, enda er til þess ætlazt, að nefndin, sem við fim. viljum, að skipuð sé, leggi niðurstöður sínar fyrir verksmiðjustjórn, áður en ákvörðun um staðarvalið er tekin. Það er vissulega þannig, að betur sjá augu en auga, og hér er um svo þýðingarmikið mál að ræða, að ekki má horfa í kostnaðinn við að skipa nefnd sérfróðra manna til þess að athuga það. Það er svo ekkert aðalatriði, í hvaða landsfjórðungi eða sýslu verksmiðjan verður, heldur hitt, að finna þann stað, sem að sem flestu leyti er heppilegastur fyrir þann atvinnurekstur, sem hér á að setja upp. Ég ætla svo ekki að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vænti þess, að till. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.