16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í D-deild Alþingistíðinda. (4899)

131. mál, áburðarverksmiðja

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég tel þessa till. algerlega óþarfa, borna fram bara til þess að sýnast og til þess að koma peningum í lóg. Það er verkefni stj. verksmiðjunnar að velja henni stað, en ekki þingkosinnar n. En það er tvennt, sem ég vildi segja varðandi þetta mál. Í fyrsta lagi vona ég, að sú ósvinna hendi ekki, að verksmiðjunni verði fyrst ákveðinn staður og síðan verði farið að hugsa um að kaupa lóðina. Þá verður að sæta kjörum svipuðum og í Njarðvíkum og Egilsstaðaþorpi og mörgum fleiri stöðum. Svo, eftir að staðurinn hefur verið ákveðinn, þá koma menn og segja við Pétur og Pál: Nú þurfum við að fá þarna lóð. Og lögfræðingar koma svo og segja, að með því að verksmiðjunni hafi verið ákveðinn þarna staður, þá sé nú þessi blettur orðinn nokkur hundruð þúsund króna eða kannske milljóna virði.

Annað, sem ég vildi benda á, er þetta: Ég tel hæpið, hvort það á að ákveða staðinn með tilliti til þess, hvort þar sé rafmagn fyrir hendi. E. t. v. er það nóg nú, en það verður það máske ekki eftir nokkur ár. E. t. v. á að hugsa um sérstaka rafveitu í sambandi við verksmiðjuna. Sérstaklega hef ég þar í huga Hvalfjörð og árnar þar, því að þar mætti fá feikna mikla stöð með því að veita þeim saman. Þegar stjórn verksmiðjunnar hefur verið skipuð og tekur til starfa, má hún ekki gleyma þessu.

Þá þarf einnig að taka flutningana mjög til athugunar. Það mundi verða svo, að um meira en helminginn af landinu yrði þetta flutt á bílum, en ekki með skipum, því að það er miklu ódýrara, þar sem ekki er um meiri vegalengdir að tala, en 200 km. Og nokkuð þarf að miða staðsetningu verksmiðjunnar við þetta.

Þetta vildi ég benda á, og vænti þess, að okkur hendi ekki sú skyssa að skipa nýja launaða nefnd til þess, sem eðlilegast er, að verksmiðjustjórnin hafi með höndum í samráði við ríkisstjórnina.