16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í D-deild Alþingistíðinda. (4900)

131. mál, áburðarverksmiðja

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Mér finnst þessar umræður um staðsetningu verksmiðjunnar nokkuð einkennilegar. Það kemur fram, að það eigi að skipa sérstaka nefnd til að ákveða verksmiðjunni stað. Og menn eru þegar teknir að skiptast í flokka um ákveðna staði. Einn flokkurinn heldur með Akureyri, annar með Akranesi og þriðji með Þorlákshöfn. Undirstaðan, sem hér þarf fyrst og fremst að byggja á, er orkan. Þá þurfa enn fremur að vera góð hafnarskilyrði á þessum stað. Og eftir því sem mér er sagt, þarf líka mikið vatn, eða álíka og Elliðaárnar, til þess að unnt verði að starfrækja verksmiðjuna. (PO: Vatn mundi nú verða nóg í sjónum, þótt árnar þrytu.) Það mundi bara verða nokkuð kostnaðarsamt að hreinsa það. En hvaða munur þarf nú að vera á þeim sérfræðingum, sem nú á að láta staðsetja verksmiðjuna, og hinum, sem eiga að ráða byggingarframkvæmdunum? — Hver er munurinn og hvað þurfa þeir sérstaklega til brunns að bera? Og ef þeir síðarnefndu segja, að hún ætti að vera annars staðar, hvorir eiga þá að ráða?

En það er nú raunar ekki þetta, sem vakir fyrir flm. Það er nákvæmlega eins og hv. þm. Borgf. sagði, að þetta er flutt af því, að bent hafði verið á ákveðinn stað. Og meiri þörf væri nú á því, að menn væru sammála um frumskilyrðið, að leggja til stóra virkjun í þessu skyni. Það væru skemmtilegri vinnubrögð heldur en þau, að hv. þm. fari að toga hver í sinn skækil og skara eld að sinni köku og rífast um, í hvaða héraði verksmiðjan verði reist.

Viðvíkjandi því, sem einn ræðumaður tók fram áðan, að það væri svo margt fólk í Rvík, að ekki væri heppilegt, að verksmiðjan væri reist þar, því að hún mundi taka svo mikið vinnuafl frá öðrum atvinnuframkvæmdum, þá get ég ekki skilið, að þeir menn, sem vinna við verksmiðjuna, verði ekki teknir frá annarri framleiðslu, hvar sem verksmiðjan kemur til að standa. Hitt er annað mál, að það má ekki gleyma því, að hér í Rvík er iðnaðurinn kominn lengst, og margir sérfræðingar, sem hafa haft áburðarverksmiðjumálið með höndum, segja, að áburðarverksmiðjan gefi mörg tækifæri til framleiðslu á ýmsum aukaefnum, sem verði mikils virði fyrir iðnaðinn, og því sé eðlilegast vegna flutninga, að þau séu framleidd þar, sem iðnaðurinn er mestur fyrir.

Um Þorlákshöfn sérstaklega er það að segja í þessu sambandi, að ég hygg, að engum sérfræðingi mundi detta hún í hug. Vatnið úr Hvítá þyrfti að hreinsa. Plássið er ekki unnt að verja fyrir sandfoki, hvað sem gert er til græðslu á landinu, því að sandurinn er ágangssandur úr Hvítá.