16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (4902)

131. mál, áburðarverksmiðja

Pétur Ottesen:

Hv. 2. þm. Rang. var mjög gleiður yfir því, hvað honum hefði tekizt að kveða niður blekkingar og fjarstæður, sem ég hefði viðhaft í ræðu minni. Ég óska honum innilega til hamingju, þar sem þetta mun verða eina ánægjan, sem hann hefur af tillögu sinni, og verður hann að teljast vel að henni kominn.

Ég hef sagt, að allmikið af flutningum frá verksmiðjunni mundi fara fram á landi og sjálfsagt sé að taka tillit til þess við staðsetningu verksmiðjunnar, að flutningar þaðan yrðu sem ódýrastir fyrir landið í heild. Það er alveg áreiðanlegt, hvað sem þessi hv. þm. segir, að eins og það er algengt nú, að bílar fari með fullfermi á milli Akureyrar og Rvíkur og Húsavíkur og Rvíkur, þá kemur til með að gegna svipuðu máli um áburðarflutningana, og því meira yrði um þá flutninga sem sunnar dregur, og til Vestfjarðakjálkans mundi mikið af flutningunum fara fram á landi. Og það leiðir af sjálfu sér, að ef áburðarverksmiðjan verður staðsett svo, að hún liggi hentuglega með hliðsjón af flutningum á landi, þá verður meiri hluti áburðarins fluttur þann veg. Uppskipun og útskipun er orðin afar dýr, og þó að landflutningar séu kostnaðarsamir, þá reynast þeir á fjölda leiða ódýrari en flutningar á sjó.

Ég skal ekki deila mikið um hafnarskilyrði í Þorlákshöfn. Ég hef komið þangað sjálfur og séð, hvað hafnargerðinni er komið áleiðis. Ég þekki líka, að hafnargerð á Akranesi hefur staðið í 20 ár, og nú fyrst eru mannvirkin komin það vel á veg, að veruleg úrlausn er fengin. Það er líka verið að byggja við innstu voga Faxaflóa, en í Þorlákshöfn fyrir opinni strönd úthafsins. Hafnargerð í Þorlákshöfn mun taka æði mörg ár þar til vörn er fengin gegn ágangi hafs og stórsjóa, en sú aðstaða þarf í þessu tilfelli að vera fyrir hendi.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta; ég tel það ástæðulaust. En eins og ég gat um í upphafi, þá álít ég tilgangslaust að flytja till. eins og þá, sem hér er fram komin. Það á að vera í höndum stj. að ákveða staðinn að tillögum verksmiðjustjórnar. Hv. þm. sagði, að það væri ekki um neinn meting að ræða af sinni hálfu í þessu máli — og það er nú víst ekki, þó að það sé tekið fram um Þorlákshöfn eina staða, að það beri að athuga skilyrðin þar gaumgæfilega! Hæstv. landbrh. benti á, hvað í þessu felst. Það er svo sem eitthvað annað en metingur!