16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í D-deild Alþingistíðinda. (4903)

131. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hélt því fram, að áburðarflutningarnir mundu aðallega fara fram á landi, og mér skildist af ræðu hans, að ef verksmiðjan væri á Akranesi, væri hún bezt sett í því tilliti. — Ég er á annarri skoðun. Til Vestur-, Norður- og Austurlands mundu flutningarnir aðallega fara fram á sjó, og þeir yrðu þá ekkert ódýrari frá Akranesi en Þorlákshöfn; það yrði sami taxti með strandferðaskipunum. Þegar hv. þm. endurtekur það, að hafnarskilyrði í Þorlákshöfn verði ekki fyrir hendi í náinni framtíð, þá vil ég segja honum það, að verkfræðingar telja, að með svipuðum fjárframlögum til hafnarinnar í næstu þrjú ár verði þau skilyrði sköpuð, og þeir munu vera bærari um það að dæma en hv. þm. Borgf.

Enda þótt — eins og hann kom að í lok ræðu sinnar — Þorlákshöfn sé sérstaklega nefnd í till., þá sé ég ekki, að nefndin hefði ekki eftir sem áður óbundnar hendur og bæri engu að síður að rannsaka skilyrði á öðrum stöðum. Þetta er ekkert annað en útúrsnúningur hjá hv. þm. Borgf. og fleiri hv. þm. Um hv. 8. þm. Reykv. vil ég segja það, að það hlýtur að vera rangt, að hann sé kunnugur í Þorlákshöfn. Má vera að hann hafi einhvern tíma komið þangað. En þegar hann talar um sandfokið, er augljóst, að hann er ókunnugur. Hann veit ekki, að landið er að gróa upp, og sandurinn mun því ekki verða þarna að meini. Þarna er líka hægt að fá nóg vatn, og mun það koma að fullu í ljós við nánari rannsókn. Ég skal svo ekki orðlengja þetta að sinni.