16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (4926)

149. mál, verzlunarskipti við Spán

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Í grg. fyrir þessari till. hef ég fært fram rök fyrir því, að ástæða sé til þess að taka upp verzlunarskipti við Spán, og get ég því verið fáorður um þessa till. Ég álít, að ástæðurnar til þess, að viðskiptum við Spán var hætt, hafi verið af heimspólitískum ástæðum, og tel, að við höfum skaðazt á því, og þar sem svo virðist nú, eftir að till. er fram borin, að hraðfrystur fiskur muni lækka í verði, svo að við verðum að stefna að aukinni saltfiskframleiðslu, þá á till. enn þá meiri rétt á sér. Legg ég svo til, að till. verði vísað til hv. allshn.